Gleðilegt sumar
Það er blessuð blíðan í dag. Dásamlegt veður. Ég vona að veðrið haldist svona næstu daga. Ég vildi að ég hefði haft rænu á því að fara í sund í tæka tíð. Þegar ég loks ræksnaðist þangað eftir kóræfingu var búið að loka. Me miserum.
Í morgun naut ég þess að hlýða á upplestur Halldórs Laxness úr Heimsljósi, frá 1955. Halldór var einstaklega góður og skemmtilegur upplesari. Ég hef gluggað í bókina og líkað vel, en ég á eftir að lesa hana spjaldanna á milli. Hef hins vegar alltaf ætlað mér það. Beint á eftir hljómaði Hjá lygnri móðu á píanó, eilítið djasskotið , hljómaði allt í lagi í þessum búning en ekkert sspes.
Ekki get ég hins vegar sagt að ég hafi verið jafn hrifinn af sönglögunum sem fylgdu á eftir, samin við ljóð eftir hann. Fyrsta var týpískt létt dægurlag en óttalega leiðinleg raddbeiting hjá söngkonunni. Næstu tvö lög söng Ragga Gísla og Flís lék undir. Fyrra ljóðið býr vissulega yfir nokkrum húmor en ljóðið hentaði að mínu mati engan vegin þessu sjúbbidúa-djassveiflu sem var samin við það og söngur Röggu eftir því. Eins hélt ég ekki að væri hægt að skemma jafn fallegt lag og Maríukvæði Atla Heimis er, en svei mér þá, þeim tókst það. Grútleiðinleg nútímadjass-útsetning. Síðasta lagið, sem ég man ekki hver söng eða samdi var hefðbundanra og lét best í eyrum mínum.
Eftir að hafa setið undir þessu með sár eyrun furðaði ég mig þeim mun meira á að þetta hefði verið valið til að fylga eftir lestri Halldórs, miðað við hversu mikið stóð þeim til boða. Tónlist Jóns Ásgeirssonar og Atla Heimis (án froðukenndar útsetningar, takk fyrir) og tónlist Jórunnar Viðar ömmu minnar komu til dæmis í hugann. Kórar eins og Háskólakórinn og Hamrahlíðarkórinn hefðu líka hljóað minnst tíu sinnum betur en þessi hörmung.
Hver veit, kannski er ég bara gömul sál...
Hef auk þess verið að hlusta á tónlist ömmu minnar, bolero eftir Ravel gamla góða Ludwig Van og geisladiskinn Good Morning Vietnam - a soundtrack To The 60's.
Í augnablikinu er ég hins vegar að hlusta á hið frábæra lag Suite Judy Blue Eyes með Crosby Stills Nash & Young (CSNY) hvárt þeir flytja hér á Woodstock.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli