miðvikudagur, apríl 18, 2007

Eldur í Reykjavík. Tölvan valt og úr henni allt. Hryllingur í Virginíu.

Mikil tíðindi í dag: Pravda brennur, Kebab-húsið, Fröken Reykjavík, Kaffi Ópera... (eða hvað það heitir). Allt skíðlogar, reykurinn liggur yfir bænum berst alla leið til Skerjafjarðar. Ég syrgi ekki Pravda sem slíkan, það var megnasti skítastaður, en mér tekur sárt með húsið, sökum sögulegs og menningarlegs gildis þess. Auk þess var húsið sjálft mjög fallegt eins og hin gömlu húsin við hlið þess og settu mikinn svip á bæinn. Hann er fátækari fyrir vikið.
Þessi hús voru jafnframt með elstu húsum bæjarins, reist um miðbik nítjándu aldar. Húsið sem nú síðast hýsti Pravda hýsti á sínum tíma Jörund hundadagakonung, og var nokkurs konar höll hans þegar hann ríkti “eitt sumar á landinu bláa”.
Það var svakalegt að fylgjast með þessu í fréttunum. Þegar ég fór úr húsi hafði eldurinn blossað í þrjá klukkutíma, allav. frá því að tilkynnt var um hann. Slökkviðið og lögregla eiga hrós skilið fyrir hetjulegt starf. Mannmergðin að fylgjast með, reykkafarar leggja sig í mikla hættu við að reyna að slökkva eldinn, eldtungurnar blossa upp hvarvetna og allt á kafi í kolsvörtum reyk. Ekki síður þegar klóin á krananum tók til við að rífa þakið og losa glóandi bárujárnið. Sérstaklega skíðlogaði á efri hæðinni. Vatnsbunur úr öllum áttum. Það var þungt að kyngja þeirri frétt, þó ekki kæmi á óvart, að húsinu virtist ekki við bjargandi.
Það er líka mesta mildi að enginn mannskaði hafi orðið.
Eftir því sem ég best veit kom eldurinn upp í Fröken Reykjavík, og talað var um að skilin hafi ekki verið nógu góð milli húsanna, svo eldurinn átti auðvelt með að dreifast til nærliggjandi húsa. Hafandi komið inn á Pravda og séð aðstöðuna þar, t.d. á salernunum, þá kemur mér í raun ekki á óvart ef aðstandendur hafa líka hunsað brunavarnir. Því miður er slíkt ekkert einsdæmi, auk þess hvað þessi gömlu timburhús eru yfirleitt illa varin fyrir eldi. Það þyrfti til dæmis ekki mikið til þess að minni ástkæri lærði skóli, Menttaskólinn í Reykjavík fuðraði upp.
Ég bind núna helst vonir við að húsin verði endurreist í fyrri mynd. Hins vegar eru þau í einkaeigu. Það síðasta sem ég vil sjá þarna er einhver helvítis blokk eða verslunarmiðstöð. Þegar ég keyrði með Kristjáni um Sæbrautina og varð litið á háhýsin, sem mér fannst stiga ansi mikið í stúf við annað umhverfi varð mér einnig hugsað til þess að það virðist fara minna fyrir fagurfræðinni en hugmyndum um rými og stærð.

...

Löngu stríði mínu við tölvuruslsins er lokið.
Tölvan valt og úr henni allt, ofan í djúpa keldu. Hún batt sumsé sjálf enda á þetta en tilynnti í leiðinni; “If I’m going down, I’m taking you with me”. Ekki nóg með að tölvan sé í rúst, heldur varð engu bjargað. Missir minnir er talsverður, en ég hef þó prentað margt út, þorrann, held ég, af því sem skiptir mig máli, eða skellt á netið og skóladót er flest til í fórum kennara og skóla.
Verstur er missirinn fyrir mömmu. Margt sem hún hafði ekki átt varaeintak af. Vest af öllu er kannski að geta ekki tékkað hversu mikill missirinn er, geta ekki séð hvað það nákvæmlega var sem maður missti.
Þegar við mæðgin tilkynntum Vésteini bróður mínum um þetta vildi hann meina að bölbænir mínar hefðu orðið að áhrínsorðum. Ég svarðai honum með orðum völvunnar “Viðuð þér enn eða hvat?” og bætti við “Heyr Hólatorg. Vei vei hinni föllnu tölvu”.
Nú erum við komin hvort með sína ferðatölvu, og ég held að mamma ætli að láta þau kaup duga, en hún er með stóra tölvu í vinnunni. Það er bjarta hliðin á þessu. Okkur hefur lengi vantað nýja tölvu og sérstaklega hefur undirritaðan vantað fartölvu.

...

Þvílíkur hryllingur í Virginíu. Mann setur hljóðan. Viðbrögð skólayfirvalda hljóta að vekja furðu. Eins þótti mér í sjálfu sér gott að Bandaríkjaforseti lýsi yfir samúð gagnvart fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra (þó hann geti verið býsna selektífur í samúð sinni, oft er það svokölluð “shoot and weep”-samúð), flestir með vott af samkennd hljóta að finna til þess sama, en mér blöskrar þrjóskan að ætla ekki að gera neinar málamiðlanir gagnvart skotvopnaeign í Bandríkjunum. Mér þæti áhugavert að sjá hann halda þessu fram upp í opið geðið á fjölskyldum fórnarlambanna.
Ég hef áhyggjur af því að auðveldur aðgangur að skotvopnum bjóði hættunni heim eins og sést í tilfellum sem þessum. Sérstaklega í þjóðfélagi þar sem er jafn mikið alið á paranoju og í Bandaríkjunum. Vera má að þeir sem ætla á annað borð að fremja slíkan glæp reddi sér vopnum en það er þá alla vega ekki jafn gengið að því fyrir næsta Jón Jónsson.
Eins er hættan á því að fólk eða börn komist í vopnin sem ekki kann með þau að fara. Það þarf of lítið til. Þetta er áhætta sem ég er ekki tilbúinn að samþykkja.

Þarf að trunta mér áfram í The White Hotel. Auf widersehen.

5 ummæli:

Einar/Baldvin sagði...

Af hverju að banna byssur þó nokkrir einstaklingar kunni ekki að hegða sér?

Einar Steinn sagði...

Ég er vissulega ekki myndað mér endanlega afstöðu í þessum málum en ég er hræddur um að fórnarkostnaðurinn sé einfalflega of mikill þegar annað eins gerist.
Þetta virðist ekki jafn mikið vandamál í Kanada þó skotvopnaeign sé svipuð. "Terror-alert" í fjölmiðlum virðist hins vegar vera mun meiri í USA. Í samfélagi þar sem er alið á því að náunginn sé varhugaverður og skotvopnaeign einnig algeng og aðgengileg er mikil hætta á að eitthvað hræðilegt eins og þetta gerist.

Einar/Baldvin sagði...

allt í lagi, Michael Moore.

Einar Steinn sagði...

Dálítið lélegt hjá þér. Það að ég hafi rök Michael Moore nokkuð í huga gerir ekki átomatískt lítið úr kenningunum sem hann setur fram. Ad hominem, myndi ég segja.
Það er heldur ekki eins og hann sé sá eini sem hefur bent á þetta.

Einar Steinn sagði...

Annars eru umræður um þetta líka í fullum gangi í komentakerfinu á bloggi bróður míns http://vangaveltur-vesteins.blogspot.com/
Sjá þriðjudag 17. apríl.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.