Eg, unnandi satíru - Af Íslandi & Íran, hrifningu & aulahrolli.
Um daginn las ég frétt um grein prófessor Uwe E. Reinhardt, Bomb Iceland instead of Iran þar sem hann lagði til við Bandaríkjastjórn að þeir réðust fremur á Ísland en Íran og færði svo ítarleg rök fyrir því, sem mörg minntu allnokkuð á röksemdafærslunar fyrir innrásum í “stríðinu gegn hryðjuverkum”.
“Haha, fokkíng snilld”, hugsaði ég með sjálfum mér þegar ég las um þetta. “Frábært að fá nú eitt stykki hárbeitta og brillíant satíru”. Ég las greinina og sannfærðist enn fremur.
Ég ímyndaði mér nú einhvern veginn að flestir sem á annað borð væru ekki með hafragraut á milli eyranna myndu fatta að hér var um kaldhæðni að ræða, háðsádeilu á Bush-stjórnina og ekkert væri fjarri höfundi en að vilja árás á Ísland. “Well, duh!” myndu sumir segja. Mér varð einnig hugsað til annarar brillíant satíru, A Modest Proposal eftir Jonathan Swift, sem vissulega vakti hörð viðbrögð í denn enda ekki allir sem föttuðu hana. Ég vil ekki spilla fyrir væntanlegum lesendum með því að útlista innihald hennar hér.
Það er hins vegar greinilegt að til er fólk sem þarfnast þess að maður skeri hlutina út í pappa fyrir þá, eins og sannaðist á baksíðu Morgunblaðsins á þriðjudaginn var. Það voru sumsé nokkrir Skarpgeirar sem tóku þetta alvarlega, og sendu professor Reinhardt bréf til að mótmæla, sum mjög dónaleg og fékk hann jafnvel hótanir.
Þegar ég las þetta fann ég aulahrollinn hríslast niður bakið á mér, réttara sagt nötraði ég allur af aulahrolli og man ég ekki eftir að hafa fengið viðlíka aulahroll í dágóðan tíma. Það að prófessor Reihardt hafi virkilega fundið sig knúinn til að biðja þjóðina afsökunar í kjölfar þessa varð svo ekki til að minnka áðurgreindan aulahroll. Djísus kræst!
Með viðlíka fulltrúa á erlendri grund og fyrrnefnda Skarpgeira, er víst engin ástæða til að hafa áhyggjur af landkynningu Íslands, við erum komin með erindreka sem bragð er að! Björk hvað?
Mogginn virðist annars nokkuð annan skilning en Andaktungurinn á hvað "fjölmargir Íslendingar" merkir. Reinhardt segist hafa fengið 50-80 svarbréf, og í mörgum er farið fögrum orðum um greinina en í öðrum munu áðurnefndir Skarpgeirar hafa bölsótast yfir henni. Jafnvel ef öll þessi bréf eru frá Íslendingum (sem mér fannst ekki alveg ljóst) og jafnvel ef öll hefðu verið neikvæð get ég ekki alveg kallað 80 manns "fjölmarga Íslendinga", hvað þá færri.
Í kjölfarið sendi ég prófessor Reinhardt þakkar-og hrósbréf, hvatti hann áfram til dáða og baðst afsökunar á þessum nokkru fattlausu löndum mínum.
Ég hvet lesendur eindregið til að lesa bæði “Bomb Iceland Instead of Iran" og “A Modest Proposal”. Báðar eru brillíant og þær eiga báðar mikið erindi í dag.
2 ummæli:
Hnittin og fagurlega orðuð útlistun! Þeir eru ótrúlegir þessir Skarpgeirar - að þeim skuli hafa dottið í hug að um annað en háp væri að ræða...
Það er nú augljóst að 80 eru ekki fjölmargir.
Flott hjá þér að senda honum bréf.
háð en ekki háp - afsakið mig
Skrifa ummæli