þriðjudagur, apríl 03, 2007

Tveir ólíkir fyrirlestrar um Ísrael & Palestínu og mín upplifun af þeim

Ég fór, eins og áður hefur komið fram, á afbragðs fyrirlestur á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þar sem Karen Koning Abuzayd, forstöðukona Flóttamannaraðstoðar Sameinuðu þjóðananna fyrir Palestínu (UNRWA) fjallaði um ástandið á Gaza og Vesturbakkanum og starf UNRWA þar. Fyrirlesturinn er nú kominn á netið, hann má nálgast hér . Lesið hann endilega.
Umræðurnar á eftir voru að sama skapi frjóar og áhugaverðar.

Daginn eftir fór ég á fyrirlestur sem Dr. Mark A Heller hélt á vegum ísraelska sendiráðsins um varnarmál Ísraels. Ekki get ég sagt að ég hafi verið hrifinn. Ég bjóst auðvitað ekki við öðru en að fá ísraelskt sjónarhorn á hlutina, en bar þá veiku von í brjósti að þetta yrði málefnalegt og ígrundað, fyrirlesarinn er jú, fræðimaður með doktorsgráðu. Mér til vonbrigða, þó það kæmi mér ekki sérlega á óvart var þetta hins vegar klassískt PR, við og við var e-ð til í því sem hann var að segja, en svo oft voru hlutirnir slitnir úr samhengi, farið með hálfsannleik („hálfsannleikur er ofast óyggjandi lygi“ sagði Mark Twain eitt sinn) eða hreinlega sagt ósatt að mér blöskraði. Flest var þetta líka tuggur sem ég hafði heyrt margoft áður. Mæltist sá fyrirlestur enda ekki sérlega vel fyrir og urðu margir til að spyrja hann og gagnrýna þegar opnað var fyrir umræður að fyrirlestrinum loknum, þar á meðal undirritaður. Á fundinum kannaðist ég við ýmsa, m.a. var þarna Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ílsand-Palestína og Myriam Shomrat, sendiherra Ísraels. Þegar Shomrat reyndi í fyrra að verja fjöldamorðin í Beith Hanoun fyrir utanríkisráðherra sannfærðist ég um að bak við hennar hrjúfu ásjónu slægi hjarta úr steini. Heller má annars eiga það að hann er sjóaður í spuna, hliðraði sér frá spurningum, fór í kring um þær og beitti margvíslegum útúrsnúningum. Hann virðist líka vel gefinn og fróður. Hann er hins vegar óheiðarlegur, og mér leiðist einfaldlega óheiðarleiki, sama hver á í hlut. Lái mér hver sem vill. Hefði hann lesið af blaði hefði ég eflaust beðið um eintak af fyrirlestrinum, en hann mælti af munni fram, blaðlaust. Þetta kennir mér enn og aftur að vera með diktófón.
Í raun var þessi reginmunur á gæðum þessara tveggja fyrirlestra, sem fjölluðu um sama málið með svona ólíkum hætti, mjög svipaðs eðlis og munurinn á fyrirlestri Magnúsar Þorkels Bernharðssonar um ástandið í Írak í fyrra annars vegar og PR-ið hans Michael Rubin hins vegar. Michael Rubin kom, btw, líka á vegum Bandaríska sendiráðsins. Ætli sé einhver tenging? Það þarf víst annars ekki að taka fram hvorn þeirra ég kunni betur að meta. Þessi fyrirlestur Hellers var vissulega fróðlegur, en það var ekki í því skyni sem honum var ætlað að vera.

12 ummæli:

Einar/Baldvin sagði...

upplifun mín PLÍS

íslensa ekki íslENSKA

Einar Steinn sagði...

Komdu sæll, ágæti máfræðinöldrari. Gleðilega páska. Að mér vitandi er ekkert vitlaust við að segja "mín upplifun". Innsláttarvillur geta oft komið fyrir og ég leiðrétti þær ef ég nenni, sleppi því annars. Ég skrifa auk þess eftir eigin hentisemi.

Hafirðu ekkert annað til málanna að leggja á þessu bloggi en tuð vegna málfræði, þá þætti mér vænt um að þú fyndir þér annan vetfang til slíks. Við það bætist að þú skrifar ekki undir nafni, eins og mælst er til hægra megin á síðunni.
Bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

Ég get raunar leitt yður í allan sannleika um að 'mín upplifun' eru ensk áhrif, en það þýðir ekki að orðaröðin sé endilega verri en einhver önnur.

Hins vegar finn ég mig (aldrei þessu vant) knúinn til að benda á að rétta orðið yfir stað til skoðanaskipta er vettvangur. Vetfang er nokkuð annað, eins og þú munt líklega þegar hafa verið nær um ...

Einar Steinn sagði...

Sem enskunemi er ég löglega afsakaður og þykir oraröðin einmitt ekkert verri eða rengri.
Mea culpa ef rétt reynist með vettvang/vetfang. Hef nefninlega skrifað "vetfangur" í nokkurn tíma, haldandi að það væri rétt. Hafi ég lifað í blekkingu biðst ég velvirðingar.

Nafnlaus sagði...

Marðar-Edda geymir lausnina:

vetfang -s hk, stb. vetfangur -s kk: andrá, andartak > í einu (sama) vetfangi.

'Vetfangur' er líklega ekki mikið notað, a.m.k. hef ég aldrei séð það annarsstaðar en í orðabók.

En þá er ég hættur, mér leiðist að útmála mig um "rétta" og "ranga" orðnotkun.

Einar Steinn sagði...

Takk, ég hef ruglað þessu tvennu saman.

Nafnlaus sagði...

Ekki hafa áhyggjur af þessu., það eina sem skiptir máli er innihjaldið of það er svo sannarlega gott.

Einar Steinn sagði...

Ég geri ráð fyrir að "innihjaldið" hafi verið með ráðum gert. :)

Takk fyrir þetta. Þú ert raunar sá fyrsti hérna sem tjáir sig eitthvað um innihald færslunnar.

Hvað varðar eignarfallseinkunn + nefnifallsfrumlag (sé það vandamálið) nefni ég Íslendingasögurnar mér til stuðnings, t.d. Gísla sögu Súrssonar, Gunnlaugs sögu Ormstungu, Hrafnkels sögu Freysgoða, Bárðar sögu Snæfellsáss o.s.frv. Þar er m.ö.o. ekki sagt "Saga Gísla Súrssonar" o.s.frv.

Nafnlaus sagði...

Reyndar var ég bara að flýta mér og þess vegna skrifaði ég innihjaldið :)

Það er ótrúlegt hvað sumir nenna að pæla í svona - ég meina það er augljóst hvað þú áttir við.

Ég FÍLA þetta blogg

Einar Steinn sagði...

Danke schön. Gleður mig að heyra. Ég fíla það líka (þó stundum geti maður fengið bloggleiða), og er sérlega vel við höfundinn. ;)

Nafnlaus sagði...

the Israeli army's use of human shields,
and they do it again, here:
http://guerrillaradio.iobloggo.com/archive.php?eid=1524



salutations and respect from Milan,
Victor.

Einar Steinn sagði...

Grazie, amigo.

When updating the look of this site, I lost all my links and had to put them back in. I'll put your link back up.

Respect and best wishes

Ps Check out Noam Chomsky's excellent Article; What If Iran Had Invaded Mexico?
http://www.chomsky.info/articles/20070405.htm

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.