sunnudagur, nóvember 27, 2005

Lag dagsins: „Atmosphere“ með Joy Division.

Eftir einn og hálfan tíma fer ég á tónleika með Sigur Rós. Er það vel.

laugardagur, nóvember 26, 2005

Kötturinn minn mjálmar sáran fyrir utan. Það er víst kominn tími á að hleypa henni inn.
Um daginn hleypti ég henni út þegar hún mjálmaði hástöfum á mig og mændi á mig bænaraugum. Ég settist við tölvuna og varla voru liðnar fimm mínútur þegar ég heyri MJAAAAAÁÁÁÁ á glugganum. Hleypti ég henni þá inn. Nokkru síðar hlýtur pabbi að hafa hleypt henni inn því enn einu sinni rekur hún upp skerandi mjálm og hleypi ég henni þá inn í annað sinn. Pamína hefur vanist á það að fara inn-út inn-út hvenær sem henni hentar. Atburðir eins og þessir eru daglegt brauð. Pamína mín er gáfaður köttur. Hún veit að erum hér til þess eins að þjóna henni. :)

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Ariel Sharon hefur stofnað nýjan flokk og klýfur sig frá Likud-bandalaginu. Að þetta sé „friðarflokkur“ finnst mér ámóta líklegt og að CIA stundi ekki pyntingar, og það á sama tíma og að Cheney vill að slakað verði á banni við pyntingum, eða að apar fljúgi út um afturendann á mér, því er nú verr og miður. Fyrrum hershöfðinginn og stríðsglæpamaðurinn Sharon hefur hingað til ekki beinlínis sýnt mikinn vilja í verki í friðarefnum. Reynslan hefur fremur kennt manni að taka öllum orðum Sharons um "frið" með fyrirvara, svo ekki sé meira sagt. Fremur en að hlusta á hvað hann SEGIR ætti maður að horfa á hvað hann GERIR. Meistari Uri Avnery hefur skrifað um kosningarnar í verkamannaflokknum, friðarhorfur og hvaða áhrif það myndi hafa ef Sharon stofnaði nýjan flokk, eins og hann hefur nú gert. Nýjasta greinin um þetta nefnist Plucking the Daisy og mæli ég með því að þið lesið hana. Þá mæli ég einnig með eldri greinum hans, þar sem hann fjallar um Peretz og framboð hans: Peretz is not Peres og A Great Miracle

Loks mæli ég mjög með afburða fyrirlestri sem Avnery hélt í Berlín, á ráðstefnu um mikilvægi þess að ala upp börn fjarri ofbeldi. Nefist hann War is a State of Mind.


Klikkið á myndasöguna til að sjá hana í stærra formi.

mánudagur, nóvember 21, 2005

30 ár frá andláti Gunnars Gunnarssonar skálds


Í dag eru liðin 30 ár frá því að stórskáldið Gunnar Gunnarsson lést, 86 ára að aldri. Ég tel að Gunnar sé einhver sá allra besti rithöfundur sem Ísland hefur alið. Hann skrifaði um 20 skáldsögur á æviferli sínum, tugi smásagna, nokkur leikrit, ljóð, greinar og fyrrlestra.
Af verkum hans hef ég núna lesið hinar 5 bækur Fjallkirkjunnar, Svartfugl, Sælir eru einfaldir og Vikivaka. Auk þess nokkrar smásögur. Fjallkirkjan og Svartfugl eru helstu meistaraverk hans að mínu mati. Gunnar er jarðsettur í Viðey ásamt konu sinni, Franziscu. Ég rifja upp fyrri færslur mínar sem ég skrifaði um þær bækur sem ég hef lesið eftir Gunnar;Sælir eru einfaldir, Fjallkirkjan, og Svartfugl og Fjallkirkjan. Aðra Fjallkirkjufærsluna skrifaði ég á meðan ég var að lesa bókina, hina eftir að ég lauk við hana. Ég var víst aldrei búinn að skrifa færslu um Vikivaka. Það er góð bók sem ég skrifa um einhvern tíman við tækifæri.
Þeim sem vilja fræðast meira um Gunnar bendi ég á vef Skriðuklausturs, sem ég hef hlekkjaðan hægra megin á síðunni og Skólavefinn.
Ég læt hér fylgja tilvitnun úr þriðju bók Fjallkirkjunnar, Nótt og draumi, þar sem Uggi Greipsson hugsar heim á siglingu til Danmerkur:

Enn lýsir af minningu djúpt í myrkrinu, hún brennir sig í mig:
Við erum saman komnir margir menn á einum hinna grjótorpnu bæja í heiðinni. Faðir minn er meðal þeirra. Ég hef farið með hestana út á tún að hefta þá. Dagurinn hefur verið mér erfiður, ég sest niður á sendna þúfu, þreyttur og dapur. Ég lít heim að bænum þaðan sem ég sit. Kring um túnskækilinn hringar sig skörðóttur grjótgarður. Æ, hér er allt tómt endalaust grágrýti! Það gægist upp úr túninu, starir út lágum veggjunum. Áfallið verður að gera sér það að góðu, það er ekki rúm fyrir ýkja marga dropa á strjálum stráunum. Bændurnir sem standa í hnapp umhverfis óupplitsdjarfa kofana eru einnig gráir, gráir eins og grjótið. Og þeir eru gráir í meira en einum skilningi því þeir eru bognir af erfiði, upplitaðir og veðurbitnir, grópaðir og sviðnir eftir misjafna daga. Síðan á landnámsöld hafa líklega búið álíka margir menn á þessum einmana bæ og nú eru hér saman komnir – það skakkar aldrei miklu. ég virði þessa grámenn fyrir mér, kemst að raun um að ég þekki þá ekki, hef adrei séð þá áður. Mér finnst sem ókunn örlög hafi steypt mynd þeirra í móti sínu, knífar fjarlægra sársauka hafi skorið þessi andlit út. Þeir hafa búið hér ár fram af ári, mann fram af manni síðan landið fannst og lifað á grjóti. Andi þeirra, trú og tryggð hefur gætt grjótið lífi. Og ekki hafa slíkir menn, orðvarir og dáðadýrir jarðarsynir setið þessa jörð eina, heldur allar aðrar gráar og grjótorpnar jarðir landsins. Eins og haugaeldur brennur á næturþeli yfir fólgnu gulli, tekur allt í einu eldur að brena yfir þessum forna, vallgróna bústað. Upp af grágrýtinu og mönnum þess leggur bjartan, kyrran loga sem ber við himinn, logann frá hinum síbrennandi þyrnirunni lífsins. Rödd Guðs hefur talað.

White Stripes


Fór með Dodda á tónleika White Stripes í Laugardagshöll í gær. Þeir tónleikar voru æðislegir.
Jakobínarína hituðu upp og voru fínir. Maður fékk svona síð-sjöunda áratugar fíling, minnti mig um margt á pönkrokkbönd sem voru að spila í Englandi á þeim tíma, ekki síst Clash, snemma á ferlinum, sviðsframkoma söngvarans var einnig í stíl við það. Á meðan við svo biðum eftir bandinu hljómuðu fín lög í græjunum, afar ánægður að heyra “Summertime Blues” með Blue Cheer.
Ég er nýgræðingur í aðdáun á sveitinni, var nýbúinn að eignast Get Behind Me Satan og hafði heyrt stök lög að auki. Hafði fílað allt það sem ég hafði heyrt. Eftir þessa tónleika er ég endanlega frelsaður. Maður furðar sig enn fremur á að önnur eins tónlist geti komið frá tveimur manneskjum. Þetta líka fallega, kröftuga og fjöruga rokk. Engin smávegis orka í bandinu! Innlifunin, gleðin, hressleikinn, fjörið! Jack White fór hamförum á gítarinn. Það er kannski klisja, en þessir tónleikar rokkuðu feitt. Bandið greinlega að fíla sig í botn og áhorfendur sömuleiðis. Jack er einnig góður píanóleikari. Og góður lagasmiður er hann. Vægast sagt hæfileikaríkur drengur, það ætti ekki að dyljast neinum. Erfitt að nefna einn hápunkt en ég var kannski hrifnastur af því þegar þau tóku „Jolene“ eftir Dolly Parton. Jack hefur líka mikinn sjarma og þau bæði. Meg er flottur og dýnamískur trommari og býr yfir alveg sérstökum þokka, hún er tignarleg. Skemmtilegt hvernig maður greinir áhrif héðan og þaðan í tónlistinni, en samt hafa þau alveg eiginn hljóm. Stemmningin var öflug enda tónlistin mjög grípandi. Meg og Jack voru klöppuð upp í aukalög með gífurlegu klappi, hrópum og stappi. Eftir að tónleikunum lauk hljómaði „Loving Cup“ með Rolling Stones í hátölurunum. Punkturinn yfir i-ið á frábæru kvöldi. Ef eitthvað var saknaði ég eilítið að heyra ekki „Take,take,take“ sem er eitt uppáhaldslagið mitt með White Stripes, en það er nú sparðatíningur. Nú mun ég leggjast í massíf diskakaup.

föstudagur, nóvember 18, 2005

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Hugleiðingar um stöðu samkynhneigðra og kirkjuna



Það er gleðiefni ef stefnir loks í að samkynhneigðir fái að njóta sömu mannréttinda og aðrir í þjóðfélaginu. En enn lítur út fyrir að þeir fái ekki að njóta sjálfsagðra mannréttinda á við aðra íbúa landsins og er það hryggilegt. Nú virðist mér, af ummælum forsætisráðherra, að helst sé spurning um kirkjuna, hvort eigi að leifa samkynhneigðum hjónavígslu. Segir Halldór það málefni kirkjunnar, hún sé sjálfstæð stofnun og ríkið geti ekki skipst sér að því.
Nú er þjóðkirkja á Íslandi. Ríkið dælir í hana fé. Skattgreiðendur einnig, nema þeir sem borga í staðinn í guðfræði deild. Fer dágóður þorri nema síðan til prestastarfa. Mér þykir ríkið því bara hafa fullan rétt til að hafa eitthvað um það að segja ef þessi stofnun mismunar fólki á grundvelli kynheigðar. Eins þó hún væri aðskilin ríknu, þætti mér hún ekki eiga að komast upp með að mismuna fólki. Ímyndum okkur að ég stofnaði klúbb sem héti “Aríaklúbburinn”, þar sem einungis hvítir menn mættu vera. Ég held að flestir geti tekið undir með því að það yrði ekki sérlega vinsælt. Því tæki ég upp á því einn daginn, af náð minni og visku, að leyfa blökkumönnum að ganga í klúbbinn, en hafa það ákvæði skýrt að þeir mættu ekki njóta sömu réttinda og hvítir í klúbbnum, því það “stríddi gegn reglum klúbbsins”. Loks ávæði ég að vera virkilega líbó og hleypa einnig inn konum, gyðingum, albínóum, samkynhneigðum, kommúnistum o.s.rv, nema að þessi sömu lögmál giltu um þau öll. Þau fengu ekki að njóta sömu réttinda í klúbbnum og vér arísku ofurmennin.
Haldið þið ekki að kæmi aðeins annað hljóð í strokkinn?

Hver andskotinn! http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20051117/FRETTIR01/111170028/1091,

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20051117/FRETTIR01/111170028/1091

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Alltaf magnast óhugnaðurinn;BANDARÍKJAHER BEITTI FOSFÓRI Á ÍBÚA FALLUJAH. Þetta hefur verið staðfest af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjamanna. Segir talsmaður að fyrri yfirlýsingar, þar sem þessu var staðfastlega neitað, hafi byggst á ófullnægjandi og misvísandi upplýsingum etc. Skemmtilelgt orðalag yfir helberar úrþvættis lygar. Einnig segir hann að fosfór „flokkist ekki undir efnavopn“. Sérfræðingar hafa ráfað í villu. Sama má segja um vitnisburð fyrrum bandarískra hermanna sem leggja þunga áherslu á að þetta sé efnavopn. Þeir sögðu líka að vopnin hefðu beinst gegn óbreyttum borgurum. Gott að varnarmálaráðuneitið leiðrétti villu þeirra, sérlega í ljósi þess hvað við getum treyst þeim í ljósi fyrri yfirlýsinga. *hóst* Hentugt fyrir Bandaríkin að hafa ekki skrifað undir sáttmála um bann við notkun fosfórs. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds á meðan ég hlýddi á lýsingar fyrrum hermannanna á aðgerðunum í fréttunum áðan, og brotin sem maður sá úr heimildamyndinni "Fallujah, The Hidden Massacre". Það var annað sem hermennirnir minntust á, hvernig reynt var að breiða yfir þetta.
Fréttamenn nmega einnig sannarlega vita upp á sig sökina, það litla sem maður fékk að heyra af þessu einkenndist af óljósum fréttum um baráttu "landvarnaliðsins" við "uppreisnarseggi". Eins þykist ég muna að hafa heyrt orð á borð við "ofstopamenn", "ofbeldismenn", "uppreisnarseggi" og þess háttar og virtist ekki mikil skil gerð milli þeirra og óbreyttra borgara. Við höfum heldur aldrei fengið að heyra hversu margir féllu þar fyrir hendi innrásarliðsins eða voru örkumlaðir, né fjölda þeirra sem voru handteknir án dóms og laga og pyntaðir. Fólkið sem fékk að snúa aftur", hvað hafði það að snúa aftur til þegar var búið að jafna heimili þeirra við jörðu?

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Áðan horfði ég á bráðskemmtilega og áhugaverða heimildamynd um blúsarann Honeyboy Edwards. Rakin var saga hans og delta-blússins og mannlífið á þeim árum sem hann var að þróast. Hann umgekkst menn eins og Charlie Patton, Robert Johnson og Muddy Waters og spilaði, veit ég, með þeim tveimur síðarnefndu. Hann er orðinn níræður og er enn að spila. Þegar ég hlustaði á hann fannst mér orðið “snillingur” ekki nóg til að lýsa færni og tilfinningu hans í tónlist. Ég fékk gæsahúð, eða réttara sagt hrifningarhroll við að hlusta á hann. Kannski vegna þess að orðið “snillingur” hefur verið ofnotað, en ef einhver er hreinn og tær snillingur í dýpstu merkingu orðsins, þá er það hann. Ég minnist vart að hafa heyrt aðra eins spilamennsku og hann syngur með sálinni. Helst gæti ég nefnt vin hans, Robert Johnson.
Ég bölva því hins vegar í sót og ösku að uppgötva að ég hef misst af tónleikunum með honum. Ég vissi ekki einu sinni að hann væri á landinu. Þegar ég fór í gegn um blöðin fann ég einungis eina litla frétt úr mogganum í fyrradag, þegar önnur eins goðsögn og snillingur sem er auk þess einn af fáum frumkvöðlum sem er eftir lifandi, finnst manni vægast sagt að hefði átt að auglýsa þetta betur. Andskotinn hafi það, ég hefði vel gefið vinstri fótinn fyrir að geta farið á þessa tónleika. Allavegana stóru tána. Ég strengi þess hér með heit að ég skal sjá hann spila, ef ég á séns á að sjá hann meðan hann er enn á lífi. Ég væri þess vegna til í að fara pílagrímsför til Bandaríkjanna í þeim einum tilgangi að sjá hann spila. Ef Múhameð kemur ekki til fjallsins (eða ef fjallið missir af honum), þá verður fjallið að koma til Múhameðs. Ég ætla líka að panta mér diska með honum á netinu.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Jesús, Pétur, Kiljan og heilaga jómfrú!


Þessi orð, úr samnefndu lagi Bubba Morthens, eiga ágætlega við hvað viðvíkur að manni að nafni Jack Chick. Ég þakka nafna mínum Jóhannessyni fyrir að hafa bent mér á þetta. Jack Chick skrifar fanatískar trúarnöttaramyndasögur. Þar ræðst hann gegn demónískum áhrifum Harry Potter, Dungeons And Dragons, Hrekkjarvöku, gegn samkynhneigðum og þróunnarkenningunni, svo eitthvað sé nefnt. Einnig er skemmtilegt hvernig trúleysingjar eru ávallt hatursfullar og viðskotaillar sálir í sögum hans, nánast eldspúandi og ósjaldan að dansa lambada við Lúsifer. Þegar maður les þetta myndi maður ætla, eða fremur vona að maðurinn væri að grínast, en onei, börnin góð. Honum er fúlasta alvara. Ég á varla til orð yfir þetta, get einunungis gapað yfir flónsku mannsins. Maður veit, svei mér þá, varla hvort maður á að hlæja eða gráta. Þetta er grátbroslegt, eins og þegar trúður deyr. Ég skelli hlekkjum á nokkrar sögurnar.
Og munið það, lömbin mín; að ef þið trúið þróunarkenningunni munið þið brenna í helvíti. Líka ef þið snúið ekki frá kynvillu, Harry Potter, Dungeons and Dragons, Islam, gagnrýni á Ísraelsríki eða biblíu James I, sem vill svo til að er eina biblían sem hefur ekki verið saurguð af Satani etc. etc. Góða skemmtun:

The Nervous Witch (Harry Potter-sagan)
Dark Dungeons og síðast en ekki síst: Big Daddy, þar sem tekist er á við þróunarkenninguna.

Loks má svo geta þess, að félag bókmenntafræðinema stendur fyrir ljóðadagskrá á föstudag. Dagskrána má finna hér.
Um kvöldið kl. 9 verður ljóðaupplestur á 22 á Laugarvegi og stendur fram eftir kvöldi. Þar mun fjöldi skálda lesa úr verkum sínum. Verður undirritaður á meðal þeirra.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Lag dagsins: "Cherub Rock" með Smashing Pumpkins, af plötunni Siamese Dream

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Rumsfeld meinar sérfræðingum á vegum Sameinuðu þjóðanna aðgang að föngum á Guantanamo

Bandaríkjastjórn vill undanþágu frá pyntingabanni

Bandaríkjamenn réttlæta stefnu sína í skýrslu til Sameinuðu þjóðanna

...Formælandi utanríkisráðuneytisins bendir á að málefni fanganna séu flókin. Engar reglur séu um hvernig fara eigi með fólk, sem hlýðir ekki lögum, tekur ekki mark á reglum, virðir enga samninga. Þetta sé fólk sem eingöngu ætli sér að drepa saklausa borgara...
“Engar reglur séu til?” Hmm, hvað með Genfarsáttmálann og Mannréttindaúrskurð Sameinuðu þjóðanna? "...sem hlýðir ekki lögum lögum, tekur ekki mark á reglum, virðir enga samninga".
Bandaríkjastjórn skeinir sér alþjóðalögum og samningum ef þeir henta ekki stefnu þeirra.
Hversu mörg líf saklausra borgara skyldi Bandaríkjaher hafa á samviskunni? Þeir virðast ekki líta á fangana sem menn, í ljósi þess halda þeir því fram að fangarnir eigi ekki rétt á lágmarks mannréttindum heldur skuli gera líf þeirra að sem mestu helvíti sem mögulegt er. Orð þeirra og ummæli vekja upp í hugann þessi ummæli sem Adolf Hitler lét eitt sinn falla um gyðinga: “The Jews are undoubtedly a race but they are not human.”

Að lokum er hér myndasaga frá This Modern World sem setur hlutina í ágætt samhengi: Occam's Razor? Never heard of it

föstudagur, nóvember 04, 2005

Drink and the devil had done for the rest



Yo-ho-ho, and a bottle of rum!

Hreiðar Þór Sæmundsson skrifar á bls. 34 í Morgunblaðinu í dag einhverja þá arfavitlausutu grein sem ég hef lesið í háa herrans tíð. Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að svara þessu kjaftæði en efast um að ég nenni að eyða orðum í svona vitleysing.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Hér eru nokkar stiklur um það helsta sem er að frétta af mér og mínum högum undanfarna daga:

BOG, félag enskunema, heldur uppi afar góðu starfi. Ég skemmti mér hið besta á Halloween síðastliðinn föstudag.

Ég er símalaus sem stendur. Ef þið viljið ná í mig, er það því annaðhvort kommentakerfið, heimasími eða tölvupóstur.

Ég er byrjaður í Háskólakórnum, fór á mína aðra æfingu á mánudag. Líst mjög vel á mig þar. Alls þekki ég fjögur fyrir, sem voru með mér í MR. Laugardaginn hélt ég í teiti hjá Mæju fyrir gamla kórfélaga, og var í raun heppni að ég rakst á hana á æfingunni svo ég vissi af því. Gaman að þeim endurfundum, ekki síst vegna þess hve langt var orðið síaðn maður hafði séð flesta. Verður vonandi meira af slíku.
Á laugardaginn er svo grímuball hjá kórnum og verður það þá í þriðja sinn sem ég get notast við minn ágæta sjóræningjabúning.
Þið gætuð séð mig um eittleitið í Odda á morgun seljandi kökur (gullfiskinn mig minnir alla vegana að það sé á morgun). Kórinn er í fjáröflun. Kórmeðlimir beðnir að baka og selja. Ég mun þá leita á náðir minnar gömlu vinkonu; júngfrú Betty Crocker.

Yðar einlægur brá sér á Corpse Bride með Dodda og skemmti mér konunglega. Meistari Tim Burton að gera það sem hann gerir best. Vönduð hreyfimyndagerð, rómantík, húmor, Viktoríu-England, og hið yndislega gotnesk-dramatíska/gotnesk-húmoríska andrúmsloft sem Burton skapar. Mér varð bæði hugsað til lThe Nightmare Before Christmans og þess ágæta tölvuleiks Grim Fandango. Tónlistin hjá Danny Elfman frábær.

Sá líka Kiss Kiss Bang Bang. Góð mynd, skemmtileg og fyndin. Gaman að sjá Robert Downey Jr. á hvíta tjaldinu aftur.
Robert Downey Jr. finnst mér mjög góður leikari og hann var brillíant í þessari mynd, hann átti hana algerlega. Það er vonandi að hann geti haldið sig frá óhollu líferni svo maður fái að sjá hann oftar í kvikmyndum.

Ég skráði mig á námskeiðið Gunnar og Þórbergur –líf tveggja skálda og fór í fyrsta tímann núna í kvöld. Sá tími var mjög áhugaverður. Umræður voru líflegar og fjörugar og fóru um víðan völl. Mest var fjallað um Gunnar í þessum tíma, æviatriði, og þá aðallega mótunarár í Danmörku, Sögu Borgarættarinnar og Fjallkirkjuna, frægðina, stríðið og heimkomuna. Fimm tímar framundan.

Loks er frá því að segja að líf mitt hefur öðlast nýja merkingu, ég hef orðið fyrir uppljómun; dýrðarröðull Þórðar hefur skinið á mig!!! Ég er orðinn félagi í aðdáendaklúbbi Þórðar!!! Lótusblóm gróa hvar náðugur Þórður leggur höfuð sitt til hvílu.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Þessar fréttir þykja mér óhugnarlegar:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1166565
http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=116047&e342DataStoreID=2213589
http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=116139&e342DataStoreID=2213589

Amnesty tjáir sig um málið:
http://amnesty.is/frettir/nr/251
Sjá einnig fleiri fréttir um þetta á Morgunblaðsvefnum.
Bandarískri flugvél sem geymir fanga sem færa á til pyntinga er leyft að fara um Keflavíkurvöll. Að sjálfsögðu vilja stjórnvöld ekkert kannast við að hafa vitað um þetta. Í stað þess að fordæma mannréttindabrot er verið að leggja blessun sína yfir þau og greiða þeim veginn.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

This Modern World: How the news works now

Ég skellti hlekk á Gljúfrastein.is, hægra megin á síðunni. Á þeim vef má finna flest milli himins og jarðar sem lýtur að Halldóri Laxness og kennir sannarlega margra skemmtilegra grasa. Meðal þess sem mér þótti gaman að sjá var brot af umfjöllun hans um Kirkjuna á fjallinu, sem er nú fremur þekkt undir heitinu Fjallkirkjan, eftir Gunnar Gunnarsson, en Halldór þýddi hana á íslensku. Fer hann fögrum orðum um þá bók og er ljóst að hér var risið meistaraverk í íslenskum bókmenntum og höfuðrit skáldsins.
Einnig var sérlega ánægjulegt að hlusta á upplestur Halldórs á eigin verkum, enda var hann afar góður og skemmtilegur upplesari. Þar hafði ég mest gaman af kaflanum "Konferensráðið" úr Brekkukotsannál, sem má finna hér.
...Á prestaskólatröppunum skáhalt á móti Gúðmúnsensbúð stóð maður og var að halda sólarupprisuræðu á meðan heimurinn svaf. Hefði eftir eðli hlutarins mátt halda að þar væri kominn heilagur Frans af Assissí ellegar einhvers sá annara frægra dýrlinga sem af mestri snilli hafa predikað fyrir skynlausri skepnu:
Kæru bræður ha
hestar og fransmenn
hjólreiðamenn og lóðahundar
lestarmenn og kettir!
Þegar konferensráðið kemur-
það er nefnilega það!
þrjátíu vertíðir á sjó
Sá sem rær hjá Gúðmúnsen þarf herskip ...

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.