mánudagur, ágúst 04, 2008

Bréf til RÚV

Ég sendi í gær bréf til Ríkisútvarspins til að gera athugasemd við frétt sem ég las á heimasíðu RÚV og nefndist "Breskir múslimar styðja talibana". Bréfið er svohljóðandi:



Ágæta starfsfólk Ríkisútvarpsins.

Þann 2. ágúst 2008 birtist svohljóðandi frétt á heimasíðu RÚV:


"Breskir múslimar styðja talibana

Fyrrverandi yfirmaður breska heraflans í Afganistan, Ed Butler, segir í viðtali við breska dagblaðið Telegraph að breskir múslimar berjist með hersveitum talibana í Afganistan. Hann segir einnig að öfgasinnaðir múslimar í Suðaustur-Asíu aðstoði skoðanabræður sína á Bretlandi við undirbúning á hryðjuverkum þar í landi.
Einnig valdi það honum áhyggjum að Bretar sem koma heim eftir að hafa barist með talibönum séu vel þjálfaðir í framkvæmd hryðjuverka. Því sé nauðsynlegt að halda baráttunni í Afganistan til streitu, þar til fullnaðarsigur gegn talibönum hafi unnist.

Alls hafa 114 breskir hermenn fallið í átökum í Afganistan, þar af 17 í síðasta mánuði."


Mig langar að gera athugasemd við þessa frétt.
Fyrir það fyrsta gæti orðalagið í fyrisögninni gefið í skyn að múslimar í Bretlandi styðji almennt talibana, og tel ég, að öðru ósönnuðu, ólíklegt að svo sé og að það hafi varla verið tilgangur fréttarinnar.
Í öðru lagi er þessi talsmaður eina heimild fréttarinnar og engar sannanir eru gefnar fyrir fullyrðingu hans. Hann hefur starfað sem yfirmaður breska heraflans og málpípa og málflutningur hans litast því óneitanlega af þeirri stöðu hans. Ólíklegt má telja að hann fari að koma með fullyrðingar sem stríði gegn hagsmunum hersins eða sem eru í andstöðu við þá mynd sem herinn vill gefa af ástandinu.
Mér þykir það alvarleg þróun í fjölmiðlum ef málflutningur talsmanna hersins, í þessu tilfelli hernámsliðs, er æ oftar eina heimildin sem vísað er til, sér í lagi ef þau orð eru tekin góð og gild sem sannleikur um ástandið án frekari eftirgrennslanar.
Sjálfur myndi ég mæla með fyrirsögn á borð við “Segir breska múslima berjast í liði talibana” eða eitthvað þvíumlíkt, svo ljóst sé að þessi fullyrðing hafi ekki verið staðfest óyggjandi og að hinn almenni múslimi í Bretlandi styðji ekki við talibana, enda hafa ekki komið fram neinar heimildir um slíkt.
Viðingarfyllst
Einar Steinn Valgarðsson

PS Það væri e.t.v. ekki úr vegi að geta jafnframt í fréttinni hversu margir Afganar hafa fallið í átökum í Afganistan og hversu margir þar af í þessum mánuði.


Þegar þessi færsla er skrifuð hefur mér enn ekki borist svar frá RÚV og eins og er stendur fréttin óbreytt á heimasíðu RÚV.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.