föstudagur, ágúst 08, 2008

Aumur er kattlaus kofi

Í gærmorgun ók ég með bróður mínum upp í Víðidal með ástkæran fjölskylduköttinn okkar, Skottu Pamínudóttur, sem tilheyrir opinberlega bróður mínum, til að láta svæfa hana hinsta svefni.
Skotta var orðin háöldruð og nýrun auk þess að gefa sig. Hún var á síðasta snúning og löngu kominn tími til að fara með hana en engu að síður er sárt að sjá á eftir þeim blíða og indæla ljúfling sem Skotta var, hvað þá þegar maður hefur alist upp með henni, frá því að hún var kettlingur en við bræður stráklingar. Samtímis hugsar maður með hlýju til allra þeirra góðu stundir sem maður fékk með henni og móður hennar, en Pamína hélt á sínar eilífu veiðilendur í fyrra. Skottu sá ég nota bene aldrei klóra nokkra manneskju (en móðir hennar var t.a.m. óhrædd að beita klónum ef hún sá ástæðu til). Okkur bræðrum var því eðlilega þungt í brjósti þegar við ókum til baka. Við fáum öskuna hennar í næstu viku og stefnum á að dreifa ösku hennar og móður hennar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu.
Lofuð sé minning Skottu. Megi hún hvíla í friði.
Ég hyggst skella inn myndum af þeim mæðgum við tækifæri.

...

Ég óska landsmönnum til hamingju með Gay Pride og með þessa fjölmennustu göngu til þessa. Ég missti af göngunni sjálfri sökum vinnu en brá mér niður í bæ í mannhafið og þeta var sannarleg tilkomumikið. Að sama skapi þakka ég fyrir sérlega fróðlega sögugöngu samkynheigðra í Reykjavík á fimmtudaginn var. Við það tækifæri steig ég jafnframt í fyrsta sinn fæti mínum inn í hús Samtakanna '78 og var það hið viðkunnalegasta.

....

Í dag er opinber Frank Zappa-dagur haldinn hátíðlegur í Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum til heiðurs minningu þess mæta tónlistarmanns. Þeim sem vilja heiðra minningu kappans er sérlega bent á plöturnar Hot Rats, þá ekki síst Peaches en Regalia, The Gumbo Variations og, Willie the Pimp, (fáránlega flott gítarsóló hjá Zappa) ogWe're Only In It For the Money með Frank Zappa & The Mothers, að ógleymdu Bobby Brown Goes Down.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.