Sprengingar í London
Hræðilegar fréttir hafa nú borist okkur frá London. Þær hafa flestir heyrt sem þetta lesa. Sprengingarnar á lestarstöðvunum í London auk sprengingarinnar í strætisvagninum. Ekki færri en 50 eru nú látnir og um 700 særðir, þar af eflaust margir örkumlaðir. Enn er ekki víst hverjir frömdu verknaðinn, þó að talað sé um áður óþekktan arm Al-Quaida sem á að hafa lýst verknaðinum á hendur sér á heimasíðu hefur lögreglan ekki staðfest það enn. Vel getur verið að það séu þeir, ýmsar vísbendingar ku benda í þá átt, en eins gæti verið að svo væri ekki . Við getum ekkert vitað.
Áróður og þjóðernisrembingur leiðtoganna er hins vegar kominn á fullt skrið. Tony Blair segir að þeir muni herða stríðið gegn hryðjuverkum, lesist: Ganga jafnvel enn harkalegar fram í Írak, og herða öryggisgæslu. George Bush segir að þessir menn beri enga virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum. Sem er alveg rétt pre se. En þeir kumpánar eru síst til þess fallnir að fella dóm yfir öðrum í þeim efnum, þegar hendur þeirra sjálfra eru blóði drifnar og þeir myndu sannarlega ekki þekkja lýðræði og mannréttindi þótt þau gæfu þeim vel úti látið spark í óæðri endann. Guðmundur Steingrímsson skrifar góða bakþanka í Fréttablaðið í fyrradag og hefur hárrétt fyrir sér. Á meðan báðir aðilar brýna hnífana, herða gæslu, æra lýðinn í þjóðrembingi, stríðsæsingi og hatri, vega enn meira að mannréttindum fólks og persónufrelsi og beita enn hrottalegri aðferðum, valda tortímingu, morðum og pyntingum auk mannfalls hermanna, mun enginn friður fást. Þessu má líkja við blöðru sem tveimur stútum sem tveir menn blása upp. Með þessu áframhaldi, ef báðir blása af sem mestum móð, mun blaðran á endanum springa með vofeiflegum afleiðingum, og þá munu þær hörmungar sem á undan hafa gengið virka eins og dropi í það blóðhaf sem þá gæti myndast. Ofbeldi getur einungis af sér meira ofbeldi. Eina leiðin til friðar er gjörbreytt stefna í utanríkismálum, það verður að brjóta ísinn og reyna að koma til móts við óvininn, með gagnkvæman skilning og virðingu að leiðarljósi. Aðeins þannig er einhver von um að tryggja megi frið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli