mánudagur, október 30, 2006

Nokkur orð sem mér þykja plebbaleg, pars secundus



Kvikmyndafræðin býður upp á ýmis herfileg orð, aðallega er þetta í þýðingatilraunum, en þær eru ofast úr ensku eða frönsku.

„....skortir þráttarhyggjulega vídd...“
Sá sem getur sagt mér hvern andskotanum maðurinn er að fara fær að knúsa bangsann minn, hann Bangsasnata (tími ekki Peppó í þetta skiptið, og hvað er líka betra fyrir sálartetrið en að umvefja tuskudýr ástúð sinni?).

„Ríkjandi aðferðir útskýringarorðræðunnar breytast; svið hugmyndafræðilegra átaka færast til.“
Hjálpi mér...



"Metójöfnuður á Íslandi?"

--Forsíða Fréttavefs RÚV í dag.

fimmtudagur, október 26, 2006

Í nýjustu grein sinni, Ehud von Olmert, fjallar Uri Avnery um stöðu Avigdor Lieberman, og flokks hans, “Ísreal er heimili okkar”, sem Ehud Olmert ætlar nú að veita aðgöngu í ríkisstjórn sinni, og þá hættu sem steðjar að lýðræði í Ísrael með þeirri ákvörðun. Flokkurinn hefur harðari stefnu en bæði Jorg Haider í Austurríki og Le Pen í Frakklandi. Lieberman er líklega sá ísraelski stjórnmálamaður sem kemst næst því að vera hreinræktaður fasisti. Avnery vitnar í því samhengi í ágætan bandarískan frasa: If it walks like a duck and talks like a duck it is a duck.“ Lieberman vill „hreinsa“ Ísrael af aröbum og að Ísrael verði „hreint gyðingaríki“.
Avnery er hugfast hvað gerðist í Þýskalandi þegar von Papen sá sér hag í að sannfæra Hindenburg um að skipa Hitler ríkiskanslara; Nasistar voru vinsælir og vonuðust þessir tveir stjórnmálamenn til að tryggja sér fylgi með því að hleypa Hitler innfyrir og töldu sig geta haft hemil á honum og nýtt sér hann. Annað kom á daginn.
Avnery óttast jafnframt að ef Olmert verður minnst fyrir eitthvað þá kynni það einmitt að vera fyrir að hafa gengt sama hlutverki og von Papen.

föstudagur, október 20, 2006

Ég bendi á ágætt viðtal við Agga á bls. 26 í Blaðinu í gær. Tilefni þess er að fyrsta ljóðabók hans, Endurómun Upphafsins er væntanleg innan skamms.

PS Ég held að blogger.com hati mig...

Af mér, tveimur góðum vinum, og tveimur myndum



Við Einar litum til Jennifer, bekkjarsystur okkar og vinkonu, um helgina. Auk góðs félagsskapar var ætlunin að læra saman. Ekkert varð úr fyrri þættinum, sá fyrri bar hann ofurliði og við áttum afar skemmtilegt kvöld saman.
Við spjölluðum fram á rauða nótt og horfðum á sketsa í tölvunni og þarna kynnti Einar okkur fyrir Mystery Science Theater, sem hann hafði lengi verið að mæla með við mig. Þannig eignaðist Mystery Science Theater tvo trúa áhangendur þetta kvöld, enda alveg brillíant þættir. Einn fastur liður í þáttunum er að aðalgaurinn og vélmennin hans tvö fara í bíó og horfa á einhverja arfaslaka B-mynd, og koma með hnyttnar athugasemdir á meðan myndin rúllar. Að þessu sinni var það mynd sem tekur flestum fram í lélegheitum. Við veltumst um af hlátri yfir henni, enda er hún alveg yndislega mikið „crap“. Það er ekki að ástæðulausu að þetta þykir einhver lélegsta mynd allra tíma, ég held alla vega að ég geti fullyrt að þetta sé einhver sú allélegasta mynd sem ég hef séð á ævinni. hún hefur hins vegar mikið skemmtigildi, af röngum ástæðum. Þetta er myndin Manos: The Hand Of Fate. Þið getið fundið þetta á www.youtube.com
Þessi mynd er ALGJÖRT MÖST. Í raun ætti sér hver kvikmyndagerðarnemi að vera látinn horfa á hana, bara svona til að vita hvernig á EKKI að gera mynd.
Ég kynnti þau á móti fyrir The Daily Show og The Colbert Report, sem báðir eru snilldarþættir, en það var Doddi sem kynnti mig upphaflega fyrir þeim.

Leigði mér The Sun eftir Alexander Sokurov í gær. Við Einar og Kristján fórum raunar á hana á kvikmyndahátíðinni, en textinn fyrirfannst ekki, svo við urðum að snúa við og fá endurgreitt. Eftir á að hyggja hefðum við strákarnir kannski átt að doka við og talsetja ("döbba") myndina, eins og Einar stakk upp á.
Alla vega, þetta er áhrifamikil mynd. Hún er leikin og gerist við lok síðari heimsstyrjaldarinnar, þar sem ljóst er að Bandamenn hafa gjörsigrað Japani. Atómsprengjunum hefur verið varpað á Hiroshima og Nagasaki. Sjóherinn hefur gefist upp. Landherinn heldur enn áfram vonalausu viðnámi gagnvart ofurefli andstæðingsins.
Myndin fylgir eftir Hirohito Japanskeisara, „syni sólarinnar“ og þeirri afdrifaríku ákvörðun sem hann tekur í þágu lands síns og þjóðar, þegar hann ákveður að afsala sér völdum og guðdómi. Fylgst með honum dagana upp að yfirlýsingunni og þeim áhrifum sem ósigurinn og yfirlýsingin hefur á hann og fólk hans.
Hirohito segir sjálfur á einum stað í myndinni að þjóðernishrokinn hafi verið of mikill hjá honum og mönnum hans, þeir hefðu treyst um of á andlegt kapp hersins en hugað síður að því að útbúa hann nógu vel til þess að geta boðið andstæðingnum birgin.
Myndin er mestmegnis tekin upp í lokuðu rými, og Sokurov beitir klippingu sparlega. Þeim mun meira verður sálfræðilegur þungi og spenna yfir myndinni. Þó koma senur sem brjóta þetta upp, helst er það atriðið með dómsdagssýn Hirohitos, sem er ein öflugasta atriðið í myndinni. Svipað má reynar segja um kvöldverð Hirohito og MacArthur hershöfðingja.
Ég læt þessa umsögn nægja, vil ekki spilla myndinni frekar fyrir væntanlegum áhorfendum.

Fer í teiti til Þóris í kvöld, en ætla líka að tékka á áðurnefndum leiklestri á Dyngjuvegi. Ferðin er svo á morgun.

Lag dagsins: Sirenernes Sang með Gasolin'. Frábært lag.

miðvikudagur, október 18, 2006

Að sötra rauðvín og hlusta á Edith Piaf, Beach Boys, Megas og Gasolin’ er nokkuð sem mér hugnast vel. Í augnablikinu hljómar Langebro með Gasolin’ í eyrum mér. Ég má til með að birta textann hér:

Langebro

Da jeg gik ud over Langebro
en tidlig mandag morgen
da så jeg en der stod og græd.
Hvis du tør - så kom med mig.

Jeg gik forbi dæmonernes port
ud for Kofoeds Skole
der stod en flok og drak sig ihjel.
Hvis du tør - så kom med mig.

Jeg mødte en der gik rundt med "Vågn Op"
hun var Jehovas vidne
hun råbte: Jorden går under idag.
Hvis du tør - så kom med mig.

Jeg så en kvinde der løb efter sin mand
hun havde så skønne øjne
hun råbte: Hey, du har stjålet mit liv.
Hvis du tør - så kom med mig.
Hvis du tør - så kom med mig.
Hvis du tør - så kom med mig.

þriðjudagur, október 17, 2006

Dagskrá í tilefni 100 ára rithöfundarafmælis Gunnars Gunnarssonar.



Ég sá eftirfarandi atburði auglýsta á heimasíðu Skriðuklausturs, en þeir eru í tilefni hundrað ára rtihöfundarafmælis stórskáldsins Gunnars Gunnarssonar. Sjálfur kemst ég aðeins á leiklesturinn, verð að bíta í það rammsúra epli að komast hvorki á málþingið né tónleikana. Að sama skapi missti ég af málþinginu um Þórberg Þórðarson á Þórbergssetri í Suðursveit, vegna próflesturs. C'est la vie... Hef lesið allar bækurnar sem verða sérstaklega til umræðu og ritað aðeins um þær í eldri færslum: Fjallkirkjan, Svartfugl og Fjallkirkjan og Sælir eru einfaldir

Dagskráin er svohljóðandi:

Gunnarskvöld - Nótt og draumur
föstudaginn 20. október kl. 20.30 - Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8 Reykjavík


Leiklestur úr Fjallkirkjunni í leikgerð Jóns Hjartarsonar. Flutt verða ljóð úr fyrstu bókum skáldsins við frumsamin lög Agnars Más Magnússonar. Auk Jóns og Agnars munu þau Þráinn Karlsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Halldóra Malín Pétursdóttir og nokkrir áhugaleikarar frá Vopnafirði flytja dagskrána. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. www.rsi.is

Málþing um Gunnar
laugardaginn 21. október kl. 14.00 - Menningarmiðstöðinni Gerðubergi

Erindi flytja þrír fræðimenn: Jón Yngvi Jóhannsson sem nú vinnur að ævisögu Gunnars. Hann mun fjalla um kvæðakverin tvö sem komu út 1906 og bréf sem tengjast þeim í erindi sem hann kallar „Orkt undir áhrifum“. Gunnar Hersveinn, sem styðst við skáldsögu Gunnars Sælir eru einfaldir við ritun á næstu bók sinni, verður með erindið „Vantraust - sælir eru einfaldir“. Þá mun Halldór Guðmundsson, sem um þessar mundir er að leggja lokahönd á bók um líf rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Þórberg Þórðarsonar, fjalla um Svartfugl og ástina.
Pallborð verður á eftir erindunum og umræðum stýrir Pétur Gunnarsson rithöfundur. Aðgangur er ókeypis.
www.gerduberg.is


Ljóðatónleikar
laugardaginn 21. október kl. 16.00 - Menningarmiðstöðinni Gerðubergi
Flytjendur: Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Ágúst Ólafsson baritón
Undirleikari: Daníel Þorsteinsson píanóleikari
Inngang flytur Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar


Á efnisskrá eru lög eftir átta tónskáld, íslensk, dönsk, sænsk og þýsk við kvæði eftir Gunnar. Flest laganna eru úr fórum Gunnars sjálfs og komu í ljós þegar handritum, bréfum og öðrum skjölum skáldsins var skilað inn til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns til varðveislu. Fæst þeirra hafa því verið flutt opinberlega áður en auk þess verður frumflutt lag sem Atli Heimir Sveinsson samdi nýverið við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914.
Daníel Þorsteinsson tónlistarmaður og píanóisti hefur útsett lögin og annast undirleik á tónleikunum. Aðgangur er kr. 1.200.
www.gerduberg.is


Ég klykki þessum skrifum út með eftirfarandi tilvitnun í Sælir eru einfaldir, sem raunar er jafnframt bókarlok:
VARÚÐ: SPILLIR!

Fyrst þegar ég stóð aftur við útidyrnar heima hjá mér, og staldraði andartak við og horfði í kring um mig, varð mér það ljóst, að eldstópinn, sem staðið hafði heila viku eins og óskiljanleg reiðinnar tákn úti við sjóndeildarhringinn var horfinn – sokkinn í jörðina – sokkinn í það brennandi dauðans djúp, sem hann hafði risið úr. Ófrjór bruni hans hafði eytt sjálfum sér. Eftir varð aðeins rauð, blossandi minning – í huga þeirra sem höfðu séð hann. Rauð, blossandi minning, sem festist að minnsta kosti í huga mínum sem hræðilegt tákn þess lífs, sem hækkaði og lækkaði logandi í kring um mig – lækkaði og hækkaði.
Hvað varð eftir, þegar mannshjartað hafði að lokum barist til friðar? Hvort sem það er í einfeldni eða tærandi þrá, látlausri leit – hvað varð eftir?... Föl og fátækleg minning í huga þeirra, sem eftir lifðu – minning sem oftast máðist fljótt. Þegar sá logi, sem hugsanir okkar og tilfinningar standa kringum eins og bjarmi, sekkur og slokknar – hvað verður þá eftir? Verður það annað en handfylli af ösku – sem þyrlast út í veður og vind?
Í meninu, sem frú Vigdís hafði gefið mér, voru tvær myndir – önnur af Grími, hin af börnunum þeirra tveim. Ég sat lengi þetta kvöld með þetta einfalda, hjartalagaða gullmen í hendinni og horfði á myndirnar tvær.
Svo hverfullt og fallvalt er mannslífið, að jafnvel löngu áður en þessar ófullkomnu eftirmyndir fölnuðu, mundu andlitin, sem þær sýndu, hafa mást út. Mást út af kaldri hendi dauðans. Svo hverfullt og fallvalt er mannslífið.
Eftir stutta stund munum við öll mást út, sem nú drögum andann. Eftir aðra stutta stund – þegar þeir, sem hafa þekkt okkur og geymt okkur í hjörum sínum, eru líka slokknaðir – verða allar minningar um okkur horfnar. Allar minningar, bæði um gleði okkar og þjáningar. Máðar út af dauðanum og arfþega hans, tímanum. Í þetta ginnungagap mynrkursins, sem við köllum tíma, mun allt það, sem við getum fundið með skilningarvitum okkar, sökkva og hverfa að lokum.
En ef því er í rauninni þannig farið – ef sá kvalafulli skilningur, sem ég fann umhverfis mig þetta kvöld, er aðeins blekking; ef hróp mannsandans eftir eilífð og fullkomnun er aðeins hégómi, og eltingar við vind; ef sá eini guðdómur sem okkur varðar – sá eini guðdómur sem við getum komist í snertingu við, er sú gæska og kærleikur sem við getum alið í brjóstum okkar; ef ekkert ljós er til fyrir okkur annað en ljósið innra með okkur sjálfum... getur þá ekki öll sú viska sem við þurfum á að halda – árangur allrar hinnar dýrkeyptu reynslu mannkynsins – falist í svo einföldum orðum sem þessum: Verið góðir hver við annan.
- Og það varð morgun og það varð kvöld hins sjöunda dags.

mánudagur, október 16, 2006

Voða mikill lærdómur framundan. Þið afsakið bloggleysið. Var í prófi í dag og fer mögulega í próf á föstudag. Hef val um að taka 50% próf núna og 50% próf í vor eða 100% próf í vor. Skyldi mér ganga illa á þessu prófi má ég spreyta mig á endurtökuprófi í desember. Ligg nú yfir Sir Gawain And The Green Knight.
Stefnir í að ég fari í vetfangsferð um helgina með Hinu íslenska Tröllavinafélagi. Ferðinni er heitið norður og vestan undir Snæfellsjökul. Ætlunin er að vitja slóða jötunsins Bárðar Snæfellsáss. Gengið verður á Bárðarkistu í norðvestanverðum jöklinum og niður aftur. Sameiginlegur kvöldverður verður étinn um kvöldið og gist um nóttina. Daginn eftir verður ekið til mannabyggða á nýjan leik og gert er ráð fyrir að koma til Reykjavíkur í síðdeginu.
Þátttakendur eru hvattir til að klæða sig og skóa eftir veðri. Einnig er mælt með svefnpokum.
Öllum er frjálst að koma með í ferðina, en siðustu forvöð að skrá sig eru í kvöld. Þátttökugjald er 5000, en 4000 fyrir félaga í Tröllavinafélaginu. Í þátttökugjaldinu er eftirfarandi innifalið: Ferðalag á staðinn, gisting, kvöldmatur, nasl, brjóstbirta og glæsileg leiðarbók sem kemur út eftir ferðina.
Steinn Steinnarr á ljóð dagsins að þessu sinni:

Malbik

Undir hundruðum járnaðra hæla
dreymdi mig drauminn um þig
sem gengur eitt haustkvöld
í hljóðum trega
dúnléttum sporum
hinn dimmleita stig,
dúnléttum sporum veg allra vega
og veizt að ég elska þig.

fimmtudagur, október 12, 2006

Elkem: Málmblendiverksmiðja til Íslands



Maður sér stóriðjujöfrana fyrir sér slefandi og rúnkandi sér yfir þessum blauta draumi, að flytja starfsemi sína til Stóriðjuparadísarinnar sjálfar, vitandi að þeir geti keypt orku á skítlágu hraðútsöluverði, fyrir kúk og kanil. Vitandi líka að ráðamenn bera ekki skynbragð á náttúruverðmæti og er skítsama um vilja meirihluta þjóðarinnar. Ráðamenn fá að sama skapi fiðring af eftirvæntingu.
Ísland í hnotskurn: Lowest Energy Prices.
Er ekki ástæða til að flagga fyrir þjóðhetjunum og bjargvættum Íslands? Er ekki ástæða til að vera stolt af strákunum okkar?

miðvikudagur, október 11, 2006

Lag dagsins: Wake Me með Bob Dylan, af plötunni Blood On The Tracks.

Hef einnig verið að hlusta mikið á Beggars Banquet með The Rolling Stones.

Ég minni á þáttinn Geymt en ekki gleymt á Rás 2 kl. 22:10 í völd, en þá verður Megas gestur Freys Eyjólfssonar.

Ég hefði gjarnan viljað heyra þættina þar sem Megas fjallaði um Elvis, missti því miður af þeim. Vonandi hægt að nálgast þá hjá Ríkisútvarpinu.

þriðjudagur, október 10, 2006

Horfði aftur á Engla Alheimsins í dag, en ég tek skot og atriði úr henni fyrir í greiningarverkefni í kvikmyndafræði. Hún er jafnvel enn betri en ég mundi hana.
Lag sem heyrist í myndinni er lag dagsins: Don’t Let Me Be Misunderstood með The Animals.

mánudagur, október 09, 2006

Jón í Brauðhúsum



Ég hlýddi í gær á upplestur Halldórs Laxness á Jóni í Brauðhúsum, hverja ég fann á Gljúfrasteinsvefnum. Listilega vel skrifuð og skemmtileg smásaga með víða skírskotun. Beinasta skírskotunin er í guðspjöllin, auk þess sem Halldór skrifaði söguna eftir að Þórbergur Þórðarson hafði deilt á Halldór fyrir organistann í Atómstöðinni, þar sem Þórbergur sakaði Halldór um að hafa gert Erlend í Unuhúsum að Kristsfígúru, en Halldór tileinkaði Erlendi þá bók.
Mér finnst líka að sagan gæti að einhverju leiti endurspeglað uppgjörið við fortíðina, hinnar breittu heimsmynd og brostnu drauma í kjölfar kalda stríðsins, meintra uppljóstnana Krútsjoffs, skrifa Solzhynetzin o.s.frv.
Skírksotunin er þó líka afar almenn og gæti gerst víða og á öllum tímum; Mennirnir sem trúað var fyrir mikilli opinberun, ríkið sem þeir biðu eftir en kom aldrei, hafa verið ofsóttir og eru hræddir við að borið verði kennsl á þá, greinir á um allt sem viðvíkur minningu mannsins, tigna þó minningu sína og eru „afturgöngur af sér sjálfum„“, eins og Filpus orðar það. Verður mér hugsað til orða Jóhannesar úr Kötlum í ljóðinu Á þessari rímlausu skeggöld:

vor gamli veruleiki er að leysast upp í skothríð
ósýnilegra frumeinda
vér erum blásnir út í hlægilegar stærðir
oss er hnoðað saman í grátlegar smæðir
og svo er ráðgert að kveikja í öllu saman


Varla þarf svo að taka fram að upplestur Halldórs er jafnframt frábær.
Jæja, nóg af blaðri. Upplesturinn má nálgast hér

laugardagur, október 07, 2006

Lag dagsins: Hexen Definitive/Strife Knot með The Fall af plötunni Perverted By Language.

föstudagur, október 06, 2006

...Og lýkur hér sögu ofvitans, sálarlýsingunni miklu, bókinni um baráttu umkomulauss unglings í myrkum mannheima í leit hans eftir viskunni, í villum hans í ástinni, í niðurlæging hans í örbirgðinni, frásögninni er ritin hefur verið af mestum frumleik og flekklausastri hreinskilni at norrænu máli.
En drottinn gefi þeim líkn, sem hann hefur ekki miðlað spekt til að skilja leyndardóma andans.


Ég lauk við þessa dýrlegu bók fyrir nokkrum dögum. Hún er hreint afbragð, líkt og fyrirrennari hennar, Íslenskur aðall. Ég mæli heilshugar með þeim báðum. Spurning hvað ég les næst. Margir búnir að mæla með Bréfi til Láru við mig, og af því sem ég hef gluggað í þá bók, hugnast mér hún vel.

Keypti mér nýjustu Goðheimabókina, Balladen om Balder, í dag og las samdægurs. Fjallar hún um dauða Baldurs. Það er einnig góð bók.

Kvöldið er búið að vera sérlega ánægjulegt, en ég nenni ekki að blogga um það núna. Er enda orðinn dálítið syfjaður. Mikið að gera um helgina, svo ég sé til hvort ég gef mér tíma til að blogga þá eður ei.

Þangað til er lag dagsins If You Want Blood með AC/DC, af plötunni Higway To Hell.

Bis später...

miðvikudagur, október 04, 2006

Nokkur orð sem mér finnst plebbaleg



Barnafólk
Hvað er að foreldrum, forráðamönnum eða jafnvel fólk sem á börn/ er með börn á framfæri/ hefur fyrir börnum að sjá o.s.frv., hvers vegna þarf alltaf að vera að að búa til svona vandræðaleg samsett nafnorð? Ég meina, hvað er barnafólk? Fullorðin börn? Dvergar?

Byssumaður

Hvað er að því að segja maður vopnaður byssu/skotvopni? Byssumaður finnst mér alltaf hljóma eins og vondi karlinn í Löggu og bófa “Vondi byssumaðurinn”, hljómar býsna barnalega í mínum eyrum.

Högnun
Úff, hvar á ég að byrja? Manni dettur til að mynda í hug orðið hagnaður, og að hagnast. Enska orðið er arbitrage. Ég er kannski að bera í bakkafullan lækinn, hafandi áður lýst vanþóknun minni á þessu orði, en það fer ávallt um mig megn aulahrollur þegar ég hugsa til þessa orðskrípis. Þetta er eitt af mörgum hryllilegum dæmum um nýyrðasmíði í viðskiptafræði og ku lýsa þeirri aðgerð þegar einstaklingur kaupir vöru á einum stað og selur á öðrum fyrir hærra verð, þegar gengisbreytingar hafa ekki náð að samræmast á seinni staðnum, ef ég man rétt. Jafnvel eftir þessa útskýringu hljómar þetta orð illa. Hljómar frekar eins og æxlun katta: Þá gæti högnin “högnað” læðuna, eða að þetta vísi til kynlífs samkynheigðra högna. Hvort sem væri hefði þá "högnun átt sér stað".

Spekileki
Umm... já... viðskiptafræðikennarinn minn í MR snaraði með þessum hætti hugtakinu "brain drain". Þetta er nú fyrst og fremst fyndið.

“Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður” (úr frétt á heimasíðu RÚV) í dag
Þarf ég að segja eitthvað meira?

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.