þriðjudagur, október 17, 2006

Dagskrá í tilefni 100 ára rithöfundarafmælis Gunnars Gunnarssonar.



Ég sá eftirfarandi atburði auglýsta á heimasíðu Skriðuklausturs, en þeir eru í tilefni hundrað ára rtihöfundarafmælis stórskáldsins Gunnars Gunnarssonar. Sjálfur kemst ég aðeins á leiklesturinn, verð að bíta í það rammsúra epli að komast hvorki á málþingið né tónleikana. Að sama skapi missti ég af málþinginu um Þórberg Þórðarson á Þórbergssetri í Suðursveit, vegna próflesturs. C'est la vie... Hef lesið allar bækurnar sem verða sérstaklega til umræðu og ritað aðeins um þær í eldri færslum: Fjallkirkjan, Svartfugl og Fjallkirkjan og Sælir eru einfaldir

Dagskráin er svohljóðandi:

Gunnarskvöld - Nótt og draumur
föstudaginn 20. október kl. 20.30 - Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8 Reykjavík


Leiklestur úr Fjallkirkjunni í leikgerð Jóns Hjartarsonar. Flutt verða ljóð úr fyrstu bókum skáldsins við frumsamin lög Agnars Más Magnússonar. Auk Jóns og Agnars munu þau Þráinn Karlsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Halldóra Malín Pétursdóttir og nokkrir áhugaleikarar frá Vopnafirði flytja dagskrána. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. www.rsi.is

Málþing um Gunnar
laugardaginn 21. október kl. 14.00 - Menningarmiðstöðinni Gerðubergi

Erindi flytja þrír fræðimenn: Jón Yngvi Jóhannsson sem nú vinnur að ævisögu Gunnars. Hann mun fjalla um kvæðakverin tvö sem komu út 1906 og bréf sem tengjast þeim í erindi sem hann kallar „Orkt undir áhrifum“. Gunnar Hersveinn, sem styðst við skáldsögu Gunnars Sælir eru einfaldir við ritun á næstu bók sinni, verður með erindið „Vantraust - sælir eru einfaldir“. Þá mun Halldór Guðmundsson, sem um þessar mundir er að leggja lokahönd á bók um líf rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Þórberg Þórðarsonar, fjalla um Svartfugl og ástina.
Pallborð verður á eftir erindunum og umræðum stýrir Pétur Gunnarsson rithöfundur. Aðgangur er ókeypis.
www.gerduberg.is


Ljóðatónleikar
laugardaginn 21. október kl. 16.00 - Menningarmiðstöðinni Gerðubergi
Flytjendur: Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Ágúst Ólafsson baritón
Undirleikari: Daníel Þorsteinsson píanóleikari
Inngang flytur Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar


Á efnisskrá eru lög eftir átta tónskáld, íslensk, dönsk, sænsk og þýsk við kvæði eftir Gunnar. Flest laganna eru úr fórum Gunnars sjálfs og komu í ljós þegar handritum, bréfum og öðrum skjölum skáldsins var skilað inn til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns til varðveislu. Fæst þeirra hafa því verið flutt opinberlega áður en auk þess verður frumflutt lag sem Atli Heimir Sveinsson samdi nýverið við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914.
Daníel Þorsteinsson tónlistarmaður og píanóisti hefur útsett lögin og annast undirleik á tónleikunum. Aðgangur er kr. 1.200.
www.gerduberg.is


Ég klykki þessum skrifum út með eftirfarandi tilvitnun í Sælir eru einfaldir, sem raunar er jafnframt bókarlok:
VARÚÐ: SPILLIR!

Fyrst þegar ég stóð aftur við útidyrnar heima hjá mér, og staldraði andartak við og horfði í kring um mig, varð mér það ljóst, að eldstópinn, sem staðið hafði heila viku eins og óskiljanleg reiðinnar tákn úti við sjóndeildarhringinn var horfinn – sokkinn í jörðina – sokkinn í það brennandi dauðans djúp, sem hann hafði risið úr. Ófrjór bruni hans hafði eytt sjálfum sér. Eftir varð aðeins rauð, blossandi minning – í huga þeirra sem höfðu séð hann. Rauð, blossandi minning, sem festist að minnsta kosti í huga mínum sem hræðilegt tákn þess lífs, sem hækkaði og lækkaði logandi í kring um mig – lækkaði og hækkaði.
Hvað varð eftir, þegar mannshjartað hafði að lokum barist til friðar? Hvort sem það er í einfeldni eða tærandi þrá, látlausri leit – hvað varð eftir?... Föl og fátækleg minning í huga þeirra, sem eftir lifðu – minning sem oftast máðist fljótt. Þegar sá logi, sem hugsanir okkar og tilfinningar standa kringum eins og bjarmi, sekkur og slokknar – hvað verður þá eftir? Verður það annað en handfylli af ösku – sem þyrlast út í veður og vind?
Í meninu, sem frú Vigdís hafði gefið mér, voru tvær myndir – önnur af Grími, hin af börnunum þeirra tveim. Ég sat lengi þetta kvöld með þetta einfalda, hjartalagaða gullmen í hendinni og horfði á myndirnar tvær.
Svo hverfullt og fallvalt er mannslífið, að jafnvel löngu áður en þessar ófullkomnu eftirmyndir fölnuðu, mundu andlitin, sem þær sýndu, hafa mást út. Mást út af kaldri hendi dauðans. Svo hverfullt og fallvalt er mannslífið.
Eftir stutta stund munum við öll mást út, sem nú drögum andann. Eftir aðra stutta stund – þegar þeir, sem hafa þekkt okkur og geymt okkur í hjörum sínum, eru líka slokknaðir – verða allar minningar um okkur horfnar. Allar minningar, bæði um gleði okkar og þjáningar. Máðar út af dauðanum og arfþega hans, tímanum. Í þetta ginnungagap mynrkursins, sem við köllum tíma, mun allt það, sem við getum fundið með skilningarvitum okkar, sökkva og hverfa að lokum.
En ef því er í rauninni þannig farið – ef sá kvalafulli skilningur, sem ég fann umhverfis mig þetta kvöld, er aðeins blekking; ef hróp mannsandans eftir eilífð og fullkomnun er aðeins hégómi, og eltingar við vind; ef sá eini guðdómur sem okkur varðar – sá eini guðdómur sem við getum komist í snertingu við, er sú gæska og kærleikur sem við getum alið í brjóstum okkar; ef ekkert ljós er til fyrir okkur annað en ljósið innra með okkur sjálfum... getur þá ekki öll sú viska sem við þurfum á að halda – árangur allrar hinnar dýrkeyptu reynslu mannkynsins – falist í svo einföldum orðum sem þessum: Verið góðir hver við annan.
- Og það varð morgun og það varð kvöld hins sjöunda dags.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.