föstudagur, október 20, 2006

Af mér, tveimur góðum vinum, og tveimur myndum



Við Einar litum til Jennifer, bekkjarsystur okkar og vinkonu, um helgina. Auk góðs félagsskapar var ætlunin að læra saman. Ekkert varð úr fyrri þættinum, sá fyrri bar hann ofurliði og við áttum afar skemmtilegt kvöld saman.
Við spjölluðum fram á rauða nótt og horfðum á sketsa í tölvunni og þarna kynnti Einar okkur fyrir Mystery Science Theater, sem hann hafði lengi verið að mæla með við mig. Þannig eignaðist Mystery Science Theater tvo trúa áhangendur þetta kvöld, enda alveg brillíant þættir. Einn fastur liður í þáttunum er að aðalgaurinn og vélmennin hans tvö fara í bíó og horfa á einhverja arfaslaka B-mynd, og koma með hnyttnar athugasemdir á meðan myndin rúllar. Að þessu sinni var það mynd sem tekur flestum fram í lélegheitum. Við veltumst um af hlátri yfir henni, enda er hún alveg yndislega mikið „crap“. Það er ekki að ástæðulausu að þetta þykir einhver lélegsta mynd allra tíma, ég held alla vega að ég geti fullyrt að þetta sé einhver sú allélegasta mynd sem ég hef séð á ævinni. hún hefur hins vegar mikið skemmtigildi, af röngum ástæðum. Þetta er myndin Manos: The Hand Of Fate. Þið getið fundið þetta á www.youtube.com
Þessi mynd er ALGJÖRT MÖST. Í raun ætti sér hver kvikmyndagerðarnemi að vera látinn horfa á hana, bara svona til að vita hvernig á EKKI að gera mynd.
Ég kynnti þau á móti fyrir The Daily Show og The Colbert Report, sem báðir eru snilldarþættir, en það var Doddi sem kynnti mig upphaflega fyrir þeim.

Leigði mér The Sun eftir Alexander Sokurov í gær. Við Einar og Kristján fórum raunar á hana á kvikmyndahátíðinni, en textinn fyrirfannst ekki, svo við urðum að snúa við og fá endurgreitt. Eftir á að hyggja hefðum við strákarnir kannski átt að doka við og talsetja ("döbba") myndina, eins og Einar stakk upp á.
Alla vega, þetta er áhrifamikil mynd. Hún er leikin og gerist við lok síðari heimsstyrjaldarinnar, þar sem ljóst er að Bandamenn hafa gjörsigrað Japani. Atómsprengjunum hefur verið varpað á Hiroshima og Nagasaki. Sjóherinn hefur gefist upp. Landherinn heldur enn áfram vonalausu viðnámi gagnvart ofurefli andstæðingsins.
Myndin fylgir eftir Hirohito Japanskeisara, „syni sólarinnar“ og þeirri afdrifaríku ákvörðun sem hann tekur í þágu lands síns og þjóðar, þegar hann ákveður að afsala sér völdum og guðdómi. Fylgst með honum dagana upp að yfirlýsingunni og þeim áhrifum sem ósigurinn og yfirlýsingin hefur á hann og fólk hans.
Hirohito segir sjálfur á einum stað í myndinni að þjóðernishrokinn hafi verið of mikill hjá honum og mönnum hans, þeir hefðu treyst um of á andlegt kapp hersins en hugað síður að því að útbúa hann nógu vel til þess að geta boðið andstæðingnum birgin.
Myndin er mestmegnis tekin upp í lokuðu rými, og Sokurov beitir klippingu sparlega. Þeim mun meira verður sálfræðilegur þungi og spenna yfir myndinni. Þó koma senur sem brjóta þetta upp, helst er það atriðið með dómsdagssýn Hirohitos, sem er ein öflugasta atriðið í myndinni. Svipað má reynar segja um kvöldverð Hirohito og MacArthur hershöfðingja.
Ég læt þessa umsögn nægja, vil ekki spilla myndinni frekar fyrir væntanlegum áhorfendum.

Fer í teiti til Þóris í kvöld, en ætla líka að tékka á áðurnefndum leiklestri á Dyngjuvegi. Ferðin er svo á morgun.

Lag dagsins: Sirenernes Sang með Gasolin'. Frábært lag.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.