mánudagur, október 09, 2006

Jón í Brauðhúsum



Ég hlýddi í gær á upplestur Halldórs Laxness á Jóni í Brauðhúsum, hverja ég fann á Gljúfrasteinsvefnum. Listilega vel skrifuð og skemmtileg smásaga með víða skírskotun. Beinasta skírskotunin er í guðspjöllin, auk þess sem Halldór skrifaði söguna eftir að Þórbergur Þórðarson hafði deilt á Halldór fyrir organistann í Atómstöðinni, þar sem Þórbergur sakaði Halldór um að hafa gert Erlend í Unuhúsum að Kristsfígúru, en Halldór tileinkaði Erlendi þá bók.
Mér finnst líka að sagan gæti að einhverju leiti endurspeglað uppgjörið við fortíðina, hinnar breittu heimsmynd og brostnu drauma í kjölfar kalda stríðsins, meintra uppljóstnana Krútsjoffs, skrifa Solzhynetzin o.s.frv.
Skírksotunin er þó líka afar almenn og gæti gerst víða og á öllum tímum; Mennirnir sem trúað var fyrir mikilli opinberun, ríkið sem þeir biðu eftir en kom aldrei, hafa verið ofsóttir og eru hræddir við að borið verði kennsl á þá, greinir á um allt sem viðvíkur minningu mannsins, tigna þó minningu sína og eru „afturgöngur af sér sjálfum„“, eins og Filpus orðar það. Verður mér hugsað til orða Jóhannesar úr Kötlum í ljóðinu Á þessari rímlausu skeggöld:

vor gamli veruleiki er að leysast upp í skothríð
ósýnilegra frumeinda
vér erum blásnir út í hlægilegar stærðir
oss er hnoðað saman í grátlegar smæðir
og svo er ráðgert að kveikja í öllu saman


Varla þarf svo að taka fram að upplestur Halldórs er jafnframt frábær.
Jæja, nóg af blaðri. Upplesturinn má nálgast hér

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.