föstudagur, maí 19, 2006

Menen Suomen!



Goodbye Yellow Brick Road
We’re off to see the wizard. :)

fimmtudagur, maí 18, 2006

Eurovision


Allir að kjósa Hard Rock Hallelujah með Lordi!

Heill sé höfuðskáldi



Og nú var þá sofið í litlu baðstofunni á bænum uppi undir heiðadrögunum. Og úti fyrir geisaði stormurinn, geisaði í algleymingi og eyðileggingargleði, geisuðu margir stormar út um víða veröld, gerðust furðulegir hlutir. Því þetta hérna var aðeins einn afkimi veraldarinnar, hér var það í raun ekki nema himininn einn sem fór hamförum, svo friðsamlegt var hérna. Og annars uxu hér skófir og mosi á steinunum við kröpp kjör, það líf sem fyrir tilstilli skaparans breytti grjótinu á þúsundum ára í gróðurmold, grjótinu sem gígarnir hafa spúð úr sér; breytir eldinum í iðrum jarðar í grósku og grænku, sem dögg fellur á um hásumar og hrím á haustnóttum. Það er manninum gott, að geta sofið endrum og eins.
--úr Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson (þýðing Magnúsar Ásgeirssonar)

Í dag er fæðingardagur Gunnars Gunnarssonar skálds, en hann fæddist árið 1889 á Valþjófsstað í Fljótsdal.
Ég held að hafi varla farið framhjá þeim sem þekkja mig eitthvað og lesendum bloggsins að ég er einlægur aðdáandi Gunnars og verka hans. Þegar þetta er ritað hef ég lesið níu skáldsögur eftir hann (þar tel ég Fjallkirkjuna sem fimm bækur) auk smásagna. Hann er einn eftirlætisrithöfundur minn og ég álít hann með fremstu rithöfundum sem Ísland hefur alið. Ég hyggst að sjálfsögðu lesa meira eftir hann og hef eiginlega strengt þess heit að heimsækja Skriðuklaustur á árinu. Ég minni lesendur á heimasíðu Skriðuklausturs.
Ég las um daginn afbragðs smásögu eftir Gunnar. Hún nefnist Sagan af Valda og er skrifuð 1939.
Hún hefst á þessa leið:

Á þessum síðustu og verstu tímum styrjalda og borgarastyrjalda er menning hins hvíta kynstofns óðar að færast í þá átt, að menn aðhyllast valdið sem rétt, viðurkenna elddreka lofts, láðs og lagar sem frambærileg rök. Blóðflóð það, sem framundan bíður, litar þegar drauma hinna framsýnu, banvæn haglél vélbyssna undan vængjum mannstýrðra stálfugla eru að verða það tíður atburður, að nærri lætur að teljast megi snar þáttur eðlilegs veðurlags. Á öðrum eins ógna tímum virðist það ekki hafa mikið upp á sig, að vera að segja sögu lítils fuglsunga, sögu sem þar á ofan er allt annað en hressileg. Hver mun nenna að lesa eða hlusta á sögu af því tæi núna, eftir að stormhvinur blóðugra hryðjuverka er orðinn að síendurteknu viðlagi við hinn hvella og nístandi óð sveiflandi sólarhringa? – en uggurinn um framtíð vandamanna, umhverfis og þjóðar þyngir hugann sem steinn í vasa drukknandi manns. Það segir sig sjálft, að lesendur eða hlustendur muni verða sára fáir. Eigi að síður skal hún sögð og það einmitt nú, þessi stutta saga af litlum fugli, ósjálfbjarga svartþrastarunga, sem einn góðann veðurdag valt úr hreiðri sínu beina leið í opið hundsgin, - eða hvað það nú var, sem særði hann sárinu mikla, sári svo geigvænlegu, að enginn þeirra, er sáu hann heim borinn, hugði honum líf.

Tólf ára piltur finnur fuglinn, fer með hann heim og hlúir að honum. Fuglinn, sem drengurinn nefnir Valda, nær sér, og verður hluti af fjölskyldunni, augasteinn allra. um leið hefur fjölskyldan þó áhyggjur af því að hann muni ekki geta spjarað sig úti í hinum stóra heimi, hann sýnir lítil þroskamerki, og hefur verið það verndaður að hann þekkir ekki það að hræðast.

Barnið hafði ekki einu sinni lært að leita uppi fæðu sína. Í hvert skipti og borið var á borð, settist hann að snæðingi með hinu fólkinu undir valhnetutrénu mikla, flaug frá einum til annars, fékk sér brauðmola eða dýfði nefinu í mjólkurbollann sinn eða vatnskrúsina. Inn á milli sá hann um söng og mér liggur við að segja hljóðfæraslátt, enda leiddist engum nema drumbum og dauðyflum við borð, þar sem Valdi var nærstaddur. Hann var ekki við eina fjölina felldur, var á einlægu flökti fram og aftur, eins og fugla er siður, tyllti sér á stólbak, bekkjarfjölina að baki hjónanna, öxl eða höfuð einhvers, er hann þurfti sérstaklega við að tala. Ánægja og hamingja umléku hinn litla fugl með töfrum tóna þeirra, er hann sjálfur framseyddi. Það var engu líkara en að kominn væri góður andi, líkamnaður í fugli og söng. Með sakleysi sínu, trúnaðartrausti, einföldum tónum og vængjaþyt var eins og hann sambræddi mannheima og aðra í heild, sem þó líklega er hvergi til nema í löndum ævintýra og ímyndunar. Hann var sjálfur ævintýr, tárhrein gleði, leikur og áhyggjuleysi alið af ilmandi sumri, - hraðfleygu sumri.
En um leið eitthvað meira. Eitthvað leyndardómsfullt, spásögn; eitthvað óráðið, komið langar leiðir utan úr ósnertanlegum fjarska lífslindanna, eitthvað dulrænt en dýrmætt, örlítil vinakveðja utan úr þeimgeimum ljóss og kristalla, sem sálin fær nálgast en aldrei líkaminn, ofurlítill anganblær frá væng hinnar alnálægu og alfaðmandi eilífðar, sem enginn til þessa hefur skilið og því síður sundurgreint, enda jarðnesk skilningavit vart til þess sköpuð að ráða þá gátu.
En þó á hinn bóginn ekki annað en lítill fugl, lítill og brothættur svartþrastarungi hnepptur í helsi mjög svo takmarkaðrar vitundar, gáfna og tilveru. Satt að segja varð hann að hafa spotta bundinn um fótinn, það var nauðsynleg varnarráðstöfun, óhjákvæmilegt.


VARÚÐ, SPILLIR – ENDALOK
En sú staðreynd að Valdi hefur lifað við þvílíkt öryggi að hann hefur aldei náð þeim þroska að bjarga sér eða hræðast verður honum að lokum að aldurtila. Húsmóðirinn, sem hafði brákast á öklalið misstígur sig, svo hún fellur í grasið og ofan á Valda, sem hafði hreiðrað þar um sig í sólinni.Dauðastríð hans verður ekki langt. Hann er allri fjölskyldunni harmdauði, og skilur eftir tómleika og söknuð í brjósti þessara ástvina hans.

Hver fær skilið, að nokkur maður gráti yfir dauðum fugli? Það verða sjálfsagt fáir, og til hvers er þá að vera að segja sögu eins og þessa? Hver getur bætt því á sig að hafa áhyggjur af fuglum og hinu lítilmótlega lífi þeirra, hve harmar jafnvel vin eins og Valda litla á tímum grimmdar og gerræðis? Eru ekki sum af aðaldýrmætu mannkynsins og þeirrar menningar sem átti að verða öllum til aukinnar sálubótar í farsælli framtíð, sem óðast að umhverfast í fáránlega bölvun og viðurstyggilega rotnun spilltra sálna og svívirts holds? Er það ekki svo um marga mannveruna, að hjarta hennar, þegar í lifanda lífi, er álíka kramið, álíka dauvona og hjartafuglsungans á grasbalanum, eftir að fótur vinkonu hans hafði óviljandi traðkað á honum? Er það ekki svo með fjölda manna, að áður varir geta vinir þeirra ófyrirsynju orðið þeim hættudrýgri en jafnvel verstu fjendur? Hversu margir farast ekki í viðleitninni að framkvæma hugsjónir, sem þeir kunna ekki tökin á? Eða flækjast í góðvild, sem áður varir snýst upp í glæp og slys.
Lýkur hér að segja frá Valda.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Það er alltaf gaman að vera minntur á að maður getur enn heyrt tónlist sem hrífur mann svo upp úr skónum að manni finnst maður nánast frelsaður. Ég heyrði slíkt lag í gær, að mér vitandi í fyrsta skipti, og það hitti mig beint í hjartastað. Ég kveikti á sjónvarpinu, þar var þáttur í þáttaröð um sögu dægurlagatónlistar blökkumanna á 20. öld, og var verið að fjalla um Sam Cooke. Ég minnist þess ekki að hafa hlustað á hann áður, nema ef ske kynni að ég hafi einhvern tíma heyrt í honum í útvarpi eða e-ð, án þess að vita að þetta væri hann. Í þættinum var sagt að hann hefði framan af farið býsna hefðbundnar leiðir framan af hvað varðar það sem hann söng um, stúlkur og pilta og ástir þeirra og þess háttar, en 1964 hafi orðið þáttaskil, hann varð djúpt snortinn af því að heyra Blowing In The Wind með Bob Dylan, og bætti því á efnisskrána sína. Honum fannst að hann, eða altént einhver blökkumaður hefði átt að semja þetta lag. Því, eins og dóttir Cooke sagði frá, hann þekkti yrkisefnið vel af eingin raun. „How Many Roads must a man walk down/ before you can call him a man?“ Þetta bergmálaði réttarstöðu blökkumanna og álit hvítra á þeim. Hann var einnig oft kallaður „boy“ af hvítum í Suðurríkjunum, þó hann væri fullorðinn og því var eins og Dylan syngi husanir Cookes sjálfs: Hversu margar vegi þyrfti hann að ganga áður enn hann mætti vera kallaður maður? Cooke langaði til að semja sjálfur lag helgað mannréttindabaráttu, sem myndi enduróma reynslu hans og annara blökkumanna, nokkurs konar svar þeirra við Dylan. Þá samdi hann lagið A Change Is Gonna Come. Þvílíkt lag, þvílíkur texti, og síðast en ekki síst: Þvílíkur söngur, þessi gullfallega sálarríka rödd, þar sem hann syngur frá innstu hjartarótum. Maður fær hrifningarhroll. Ég leyfi mér að birta textann hér en hvet fólk um leið til að hlusta á lagið. Það ætla ég svo sannarlega að gera og reyna að verða mér út um það.

A Change Is Gonna Come
I was born by the river
In a little tent
oh And just like the river
I've been running ever since

It's been a long, long time coming
But I know a change gonna come
Oh, yes it will

It's been too hard living
But I'm afraid to die
I don't know what's up there beyond the sky

It's been a long, long time coming
But I know a change gonna come
Oh yes it will

I go to the movies, and I go downtown
Somebody keep telling me,
don't hang around

It's been a long, long time coming
But I know a change gonna come
Oh yes it will

Then I go to my brother
I say brother help me please
But he winds up knocking me
Back down on my knees

There's been times that I thought
I wouldn't last for long
But now I think I'm able to carry on
It's been a long, long time coming
But I know a change is gonna come
Oh, yes it will

föstudagur, maí 12, 2006

A Moment of Epiphany



Evge! Evgepe!
Ég fékk algera hugljómun um hvað mig langar að skrifa um í ritgerðarspurningu í prófinu á morgun. Þetta er svo sannarlega það sem Joyce kallaði „epiphany“. Það liggur við að ég vildi taka prófið núna (hvað þá rétt áðan), meðan andinn er enn með mér. Ég vona að andi hugljómunarinnar verði með mér á morgun, annars verð ég að leggja traust mitt á starfsemi heila míns á Laugardagsmorgni og rótsterkt biksvart kaffi. Alveg svo megi tjarga með því hrúta.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Með.... uhh... hádegiskaffinu (svona er maður árrisull!): Tvö harðsoðin egg, The Dead (smásaga eftir James Joyce, síðasta sagan í Dubliners) og Plöturnar Sticky Fingers og Exile On Main Street með The Rolling Stones. Eftir að ég klára The Dead sný ég mér líklegast að Castle Rackrent eftir Mariu Edgeworth, The Cripple of Inishman (a.k.a. Halta Billa) eða leikritunum tveimur eftir Yeats. Ég þarf alla vega að halda vel á spöðunum í dag.
Ég brá mér í sund í gær, það var afskaplega hressandi, ekki síður að brúka strauminn í heita pottinum, enda vöðvarnir orðnir full rýrir eftir allt of litla hreyfingu í prófunum. Skal nú bætt úr því, og ekki frá því að ég skelli mér aftur í sund í dag.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Þjóðsaga

að koma fyrst við sögu
eins og álfur út úr hól

og eiga draugafé á fjalli
sem verður kveðið niður

að reisa við sjávarútveginn
hamraborg yfir huldufólkið

og verða sjáfstætt lýðveldi
af forfeðranna tröllatryggð

að gerast með vélum og vinnu
dverghagir á iðnað og listir

en glata frelsi og efnahag
til erlendra útilegumanna


--Jónas E. Svafár, Klettabelti Fjallkonunnar, 1968

sunnudagur, maí 07, 2006

Hef verið að hlusta töluvert á Depeche Mode nú nýlega. Alveg æðisleg tónlist. Myrk, poppuð/elektrónísk, stundum heví, taktföst, melódísk, grípandi og falleg. Hlustaði ég smá á Violator í Skífunni, aðallega Personal Jesus, aftur og aftur. Geðveikt lag. Við sama tækifæri hlustaði ég líka aftur og aftur á útgáfu Johnny Cash af laginu, af plötunni The Man comes Around og hún er að sama skapi eitursvöl. Söngurinn hjá Cash og gítarinn hjá John Fruiscante vekur manni hrifningahroll, en það gerir tónlist Depeche Mode líka. Ég er svei mér þá ekki viss um að ég væri tilbúinn að gera upp á milli útgáfanna.
Eins hefur Music For The Masses verið í síspilun hjá mér, oftast fyrstu þrjú lögin á plötunni. Þessi plata er algert meistaraverk. David Gahan er auk þess frábær söngvari og hefur alveg íðilfagra rödd.

Veðrið er búið að vera dásamlegt í gær og í dag. Ekki verra ef það héldist svona. Læri úti. Próf ekki á morgun heldur hinn, mikið að lesa. Fer í síðasta prófið þrettánda.

We're flying high
We're watching the world pass us by
Never want to come down
Never want to put my feet back down
On the ground

--Never Let Me Down Again

laugardagur, maí 06, 2006

Einar og kattarræksnið
...sönn saga úr Vesturbænum.



Í nágrenni mínu heldur sig stór svartur heimilisköttur. Í gær um tvö-þrjú leitið vorum við bræður að fara að sofa, og við vorum syfjaðir í samræmi við tímann. Þá byrjar kattarafstyrmið að breima hástöfum fyrir utan, langdregnu nágauli. Byrjar lágt en verður hærra, kemur stundum með pásum. Breimið er loks orðið nógu hátt til að maður gæti haldið að hann hefði verið við hliðina á mér. Við leggjum á ráðin um að ég fari út með vatnskönnu til að kenna honum lexíu. Þegar ég er kominn út með könnuna er köttinn hvergi að sjá.
Grautfúll yfir því set ég könnuna í ískáp og ferí rúmið, úrvinda af þreytu. Eitthvað um hálftími líður, og þegar ég er alveg að festa svefn heyri ég eitthvað „mjávrghl“ fyrir utan. Er ekki bölvað ófétið byrjað að breima aftur! Ég staulast á fætur og hefndarþorstinn sýður í mér: „NÚ SKAL HANN EKKI SLEPPA“. Ég hleyp niður á brókinni, sæki vatnskönnuna, fer út á frakkanum í brókinni innan undir, einum klæða, „skadefryd“-hrollur hríslast í mér af tilhlökkun að stökkva vatni á fjárans kattarræksnið og ná mérþannig niðri á því fyrir að trufla svefnró okkar. Ég skima eftir kettinum og sé allt í enu framan í hann við húshornið. Augu okkar mætast eitt sekúndubrot og hann forðar sér áður en ég fæ rönd við reist.
Staðan er sumsé núna eitt núll fyrir kettinum.
Áður en ég fór að sofa hafði ég heyrt enn aftur í honum: Fór aftur út, sá hann í garðinum fyrir aftan, áður en hann hljóp eitthvert út í buskann. Ég sór í hjarta mínu að koma fram hefndum.
Í dag sagði Vésteinn mér frá því að hann hafi komið að þar sem sami köttur var að reyna við Skottu (köttinn hans Vésteins). Nú er Skotta fimmtán ára gömul og auk þess búið að taka hana úr sambandi og kötturinn er að gera loppur sínar grænar fyrir henni. Hún horfir vantrúuð á hann, þar sem hann gerir ítrekaðar tilraunir til að koma henni til. Vésteinn stökkti honum loks á burt með því að berja saman pottlokum og elti hann einn hring. Þar skoraði Vésteinn stig á móti kettinum. Ég á hins vegar eftir að jafnametin persónulega.
Ég er svo búinn að sjá köttinn eitthvað tvisvar á sveimi hérna í dag, en hef aldrei haft vatn við hönd, auk þess sem hann er fljótur að forða sér.
Hann snýr aftur, og það geri ég líka. Orustan er töpuð, ekki stríðið.
...en næst verð ég með Super-Soaker.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Sólarlag

Sólin ilmar af eldi
allan guðslangan daginn,
faðmar að sér hvert einasta blóm
andar logni yfir sæinn.

En þegar kvöldið er komið
og kuldinn úr hafinu stígur
þá kastar hún brandi á bláloftsins tjöld
og blóðug í logana hnígur.

Nóttin flýgur og flýgur
föl yfir himinbogann.
Myrkrinu eys hún á eldbrunnin tjöld
eys því sem vatni yfir logann.

Föl og grátin hún gengur,
geislanna í blómunum leitar.
- Enginn í öllum þeim eilífa geim
elskaði sólina heitar.


-- Jóhann Sigurjónsson

þriðjudagur, maí 02, 2006

Muthafuckin’ izzle


Ég er ekki frá því að hin táknræna goðsögn um móðurserðirinn Ödipus og girnd hans til múttu sinnar sé einhver sú margþvældasta jórturtugga sem um getur. Hvort sem það er í heimspeki, sálfræði, bókmenntafræði, feminískum rannsóknum, trúarbragðafræði, sagnfræði, menningarfræði eða bara í daglegu tali og skrifum. Ödipus er ein rótgrónasta klisja sem ég þekki í nútímakúltúr. Allir hafa heyrt um Ödipus, rétt eins og allir vita faðerni Luke Skywalker.
Ödipus er eins og Nýja-Gínea fyrir mannfræðinga og félagsfræðinga.

Ef við spáum hins vegar í úmsum rokklögum, frá sálfræðilegu sjónarhorni, má greina þar bæði complex áðurnefnds móðurserðis og pedófílíu (barnagirnd), þar sem það er regla fremur en undantekning að sungnir séu söngvar sem lýsa votum draumum og frygð gagnvart kornabörnum og kynæsandi mæðrum.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.