laugardagur, maí 06, 2006

Einar og kattarræksnið
...sönn saga úr Vesturbænum.



Í nágrenni mínu heldur sig stór svartur heimilisköttur. Í gær um tvö-þrjú leitið vorum við bræður að fara að sofa, og við vorum syfjaðir í samræmi við tímann. Þá byrjar kattarafstyrmið að breima hástöfum fyrir utan, langdregnu nágauli. Byrjar lágt en verður hærra, kemur stundum með pásum. Breimið er loks orðið nógu hátt til að maður gæti haldið að hann hefði verið við hliðina á mér. Við leggjum á ráðin um að ég fari út með vatnskönnu til að kenna honum lexíu. Þegar ég er kominn út með könnuna er köttinn hvergi að sjá.
Grautfúll yfir því set ég könnuna í ískáp og ferí rúmið, úrvinda af þreytu. Eitthvað um hálftími líður, og þegar ég er alveg að festa svefn heyri ég eitthvað „mjávrghl“ fyrir utan. Er ekki bölvað ófétið byrjað að breima aftur! Ég staulast á fætur og hefndarþorstinn sýður í mér: „NÚ SKAL HANN EKKI SLEPPA“. Ég hleyp niður á brókinni, sæki vatnskönnuna, fer út á frakkanum í brókinni innan undir, einum klæða, „skadefryd“-hrollur hríslast í mér af tilhlökkun að stökkva vatni á fjárans kattarræksnið og ná mérþannig niðri á því fyrir að trufla svefnró okkar. Ég skima eftir kettinum og sé allt í enu framan í hann við húshornið. Augu okkar mætast eitt sekúndubrot og hann forðar sér áður en ég fæ rönd við reist.
Staðan er sumsé núna eitt núll fyrir kettinum.
Áður en ég fór að sofa hafði ég heyrt enn aftur í honum: Fór aftur út, sá hann í garðinum fyrir aftan, áður en hann hljóp eitthvert út í buskann. Ég sór í hjarta mínu að koma fram hefndum.
Í dag sagði Vésteinn mér frá því að hann hafi komið að þar sem sami köttur var að reyna við Skottu (köttinn hans Vésteins). Nú er Skotta fimmtán ára gömul og auk þess búið að taka hana úr sambandi og kötturinn er að gera loppur sínar grænar fyrir henni. Hún horfir vantrúuð á hann, þar sem hann gerir ítrekaðar tilraunir til að koma henni til. Vésteinn stökkti honum loks á burt með því að berja saman pottlokum og elti hann einn hring. Þar skoraði Vésteinn stig á móti kettinum. Ég á hins vegar eftir að jafnametin persónulega.
Ég er svo búinn að sjá köttinn eitthvað tvisvar á sveimi hérna í dag, en hef aldrei haft vatn við hönd, auk þess sem hann er fljótur að forða sér.
Hann snýr aftur, og það geri ég líka. Orustan er töpuð, ekki stríðið.
...en næst verð ég með Super-Soaker.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.