fimmtudagur, maí 18, 2006

Heill sé höfuðskáldi



Og nú var þá sofið í litlu baðstofunni á bænum uppi undir heiðadrögunum. Og úti fyrir geisaði stormurinn, geisaði í algleymingi og eyðileggingargleði, geisuðu margir stormar út um víða veröld, gerðust furðulegir hlutir. Því þetta hérna var aðeins einn afkimi veraldarinnar, hér var það í raun ekki nema himininn einn sem fór hamförum, svo friðsamlegt var hérna. Og annars uxu hér skófir og mosi á steinunum við kröpp kjör, það líf sem fyrir tilstilli skaparans breytti grjótinu á þúsundum ára í gróðurmold, grjótinu sem gígarnir hafa spúð úr sér; breytir eldinum í iðrum jarðar í grósku og grænku, sem dögg fellur á um hásumar og hrím á haustnóttum. Það er manninum gott, að geta sofið endrum og eins.
--úr Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson (þýðing Magnúsar Ásgeirssonar)

Í dag er fæðingardagur Gunnars Gunnarssonar skálds, en hann fæddist árið 1889 á Valþjófsstað í Fljótsdal.
Ég held að hafi varla farið framhjá þeim sem þekkja mig eitthvað og lesendum bloggsins að ég er einlægur aðdáandi Gunnars og verka hans. Þegar þetta er ritað hef ég lesið níu skáldsögur eftir hann (þar tel ég Fjallkirkjuna sem fimm bækur) auk smásagna. Hann er einn eftirlætisrithöfundur minn og ég álít hann með fremstu rithöfundum sem Ísland hefur alið. Ég hyggst að sjálfsögðu lesa meira eftir hann og hef eiginlega strengt þess heit að heimsækja Skriðuklaustur á árinu. Ég minni lesendur á heimasíðu Skriðuklausturs.
Ég las um daginn afbragðs smásögu eftir Gunnar. Hún nefnist Sagan af Valda og er skrifuð 1939.
Hún hefst á þessa leið:

Á þessum síðustu og verstu tímum styrjalda og borgarastyrjalda er menning hins hvíta kynstofns óðar að færast í þá átt, að menn aðhyllast valdið sem rétt, viðurkenna elddreka lofts, láðs og lagar sem frambærileg rök. Blóðflóð það, sem framundan bíður, litar þegar drauma hinna framsýnu, banvæn haglél vélbyssna undan vængjum mannstýrðra stálfugla eru að verða það tíður atburður, að nærri lætur að teljast megi snar þáttur eðlilegs veðurlags. Á öðrum eins ógna tímum virðist það ekki hafa mikið upp á sig, að vera að segja sögu lítils fuglsunga, sögu sem þar á ofan er allt annað en hressileg. Hver mun nenna að lesa eða hlusta á sögu af því tæi núna, eftir að stormhvinur blóðugra hryðjuverka er orðinn að síendurteknu viðlagi við hinn hvella og nístandi óð sveiflandi sólarhringa? – en uggurinn um framtíð vandamanna, umhverfis og þjóðar þyngir hugann sem steinn í vasa drukknandi manns. Það segir sig sjálft, að lesendur eða hlustendur muni verða sára fáir. Eigi að síður skal hún sögð og það einmitt nú, þessi stutta saga af litlum fugli, ósjálfbjarga svartþrastarunga, sem einn góðann veðurdag valt úr hreiðri sínu beina leið í opið hundsgin, - eða hvað það nú var, sem særði hann sárinu mikla, sári svo geigvænlegu, að enginn þeirra, er sáu hann heim borinn, hugði honum líf.

Tólf ára piltur finnur fuglinn, fer með hann heim og hlúir að honum. Fuglinn, sem drengurinn nefnir Valda, nær sér, og verður hluti af fjölskyldunni, augasteinn allra. um leið hefur fjölskyldan þó áhyggjur af því að hann muni ekki geta spjarað sig úti í hinum stóra heimi, hann sýnir lítil þroskamerki, og hefur verið það verndaður að hann þekkir ekki það að hræðast.

Barnið hafði ekki einu sinni lært að leita uppi fæðu sína. Í hvert skipti og borið var á borð, settist hann að snæðingi með hinu fólkinu undir valhnetutrénu mikla, flaug frá einum til annars, fékk sér brauðmola eða dýfði nefinu í mjólkurbollann sinn eða vatnskrúsina. Inn á milli sá hann um söng og mér liggur við að segja hljóðfæraslátt, enda leiddist engum nema drumbum og dauðyflum við borð, þar sem Valdi var nærstaddur. Hann var ekki við eina fjölina felldur, var á einlægu flökti fram og aftur, eins og fugla er siður, tyllti sér á stólbak, bekkjarfjölina að baki hjónanna, öxl eða höfuð einhvers, er hann þurfti sérstaklega við að tala. Ánægja og hamingja umléku hinn litla fugl með töfrum tóna þeirra, er hann sjálfur framseyddi. Það var engu líkara en að kominn væri góður andi, líkamnaður í fugli og söng. Með sakleysi sínu, trúnaðartrausti, einföldum tónum og vængjaþyt var eins og hann sambræddi mannheima og aðra í heild, sem þó líklega er hvergi til nema í löndum ævintýra og ímyndunar. Hann var sjálfur ævintýr, tárhrein gleði, leikur og áhyggjuleysi alið af ilmandi sumri, - hraðfleygu sumri.
En um leið eitthvað meira. Eitthvað leyndardómsfullt, spásögn; eitthvað óráðið, komið langar leiðir utan úr ósnertanlegum fjarska lífslindanna, eitthvað dulrænt en dýrmætt, örlítil vinakveðja utan úr þeimgeimum ljóss og kristalla, sem sálin fær nálgast en aldrei líkaminn, ofurlítill anganblær frá væng hinnar alnálægu og alfaðmandi eilífðar, sem enginn til þessa hefur skilið og því síður sundurgreint, enda jarðnesk skilningavit vart til þess sköpuð að ráða þá gátu.
En þó á hinn bóginn ekki annað en lítill fugl, lítill og brothættur svartþrastarungi hnepptur í helsi mjög svo takmarkaðrar vitundar, gáfna og tilveru. Satt að segja varð hann að hafa spotta bundinn um fótinn, það var nauðsynleg varnarráðstöfun, óhjákvæmilegt.


VARÚÐ, SPILLIR – ENDALOK
En sú staðreynd að Valdi hefur lifað við þvílíkt öryggi að hann hefur aldei náð þeim þroska að bjarga sér eða hræðast verður honum að lokum að aldurtila. Húsmóðirinn, sem hafði brákast á öklalið misstígur sig, svo hún fellur í grasið og ofan á Valda, sem hafði hreiðrað þar um sig í sólinni.Dauðastríð hans verður ekki langt. Hann er allri fjölskyldunni harmdauði, og skilur eftir tómleika og söknuð í brjósti þessara ástvina hans.

Hver fær skilið, að nokkur maður gráti yfir dauðum fugli? Það verða sjálfsagt fáir, og til hvers er þá að vera að segja sögu eins og þessa? Hver getur bætt því á sig að hafa áhyggjur af fuglum og hinu lítilmótlega lífi þeirra, hve harmar jafnvel vin eins og Valda litla á tímum grimmdar og gerræðis? Eru ekki sum af aðaldýrmætu mannkynsins og þeirrar menningar sem átti að verða öllum til aukinnar sálubótar í farsælli framtíð, sem óðast að umhverfast í fáránlega bölvun og viðurstyggilega rotnun spilltra sálna og svívirts holds? Er það ekki svo um marga mannveruna, að hjarta hennar, þegar í lifanda lífi, er álíka kramið, álíka dauvona og hjartafuglsungans á grasbalanum, eftir að fótur vinkonu hans hafði óviljandi traðkað á honum? Er það ekki svo með fjölda manna, að áður varir geta vinir þeirra ófyrirsynju orðið þeim hættudrýgri en jafnvel verstu fjendur? Hversu margir farast ekki í viðleitninni að framkvæma hugsjónir, sem þeir kunna ekki tökin á? Eða flækjast í góðvild, sem áður varir snýst upp í glæp og slys.
Lýkur hér að segja frá Valda.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.