miðvikudagur, september 29, 2004

Nordisk Panorama

NB Leiðrétting á tímasetningu á myndunum í portinu í kvöld; það er 21:00 til 22:30. Þar verður sýnd verðlaunamyndin og nokkrar aðrar. Þegar þetta er skrifað veit ég enn ekki hver var valin besta myndin.

Regnboginn hefur verið mitt annað hemili síðan á laugardag. Nú þegar litið er um öxl þykir mér þetta hafa verið afar skemmtileg hátíð, ég hef séð ógrynni úrvalsmynda og einnig þótti mér ánægjulegt hve vel hún var sótt. Þó svo að vissulega hafi verið ergilegt ef salurinn fylltist og maður komst ekki inn.
Það eru margar myndir sem standa upp úr fyrir mér...

Myndin Through my thick glasses er frá Noregi, byggð á sannri sögu og gerð með leirkarla/trölladeigstækni. Litla barnabarnið vill ekki fara í hlý föt áður en það fer út í snjóinn svo afinn segir því frá þegar hann var lítill drengur á stríðsárunum og reyndi að ganga í andspyrnuhreyfinguna.

Exit er dönsk leirkarlamynd í anda mynda eins og Matrix og Vanilla Sky. Leigumorðinginn skaut feita forstjórafíflið fullkomnu skoti í hnakkann. En mörvambinn deyr ekki...

Who´s Barði var “mockumentary” um Barða Jóhannson í Bang Gang. Ímynd hans á að vera andlega þenkjandi heilsufríks en í myndinni virðist hann fremur sleazy fáviti. Snilldarmynd.

Einnig voru góðar heimildarmyndir.

Myndin My Grandad´s Murderer hafði djúpstæð áhrif á mig. Afi annars leikstjórans var myrtur í stríðinu af 3 dönskum nastistum. Móðir leikstjórans, Søren Fauli, ber enn sár í hjarta vegna þessa. Einn morðinginn er enn á lífi í Þýskalandi og hefur farið huldu höfði undanfarin ár. Søren vill hitta hann og reyna að fyrirgefa honum og gera upp fortíðina og að morðinginn
viðurkenni tilveru hans og fjölskyldu hans, vita hvort hann sjái eftir gjörðum sínum og reyna að fá friðþægingu fyrir fjölskyldu sía.

War Children fjallar um þegar finnskum börnum er komið undan til Svíþjóðar í kjölfar innrásar Rússa í Finnland. Talað er við fólk sem var í hópi þessara barna, um sársaukan sem fylgdi viðskilnaðinum við foreldrana og seinna við fósturforeldrana. Fæst börnin vissu hvert væri verið að senda þau, ímynduðu sér jafnvel að það ætti að senda þau í fangabúðir í Rússlandi og ætti að drepa þau. Myndin lýsir svo samlífinu með fósturforeldrunum, hvernig börnin þurfa að aðlaga sig nýju lífi og skipta um tungumál. Þegar stríðinu lýkur eru börnin send heim og þurfa að þola sáran viðskilnað við fólkið sem hafði gengið þeim í foreldra stað, margir sneru heim í fátækt, og höfðu gjarnan kynnst betra lífi í Svíþjóð.
Því miður missti ég af enda myndarinnar og þykir það grábölvað. Vonandi að maður geti nálgast hana einhvern veginn.



Auk þess sá ég ýmsar góðar stuttmyndir frá Balkanskaga. sérlega skemmtileg var tölvuteiknaða myndin Plasticat. Allir eru kattmenni og einn þeirra gengur framhjá betlara og finnur síðan pening. birtast honum þá vættirgóðrar og slæmrar samvisku og setjaupp reikningsdæmi, hvernig hann gæti varið aurnum. En þar er ekki öll sagan sögð, það koma fleiri og fleiri vættir og hver með fáránlegri hugmyndir uns örlögin leysa úr málunum...

Ég var sleginn eftir að hafa séð heimildamyndina The day I'll Never Forget, um umskurð kvenna í Sómalíu. Það er hræðilegt þegar rótgrónar kreddur sem þessi ráða ríkjum og valda fólki hræðilegum sársauka og skaða. Og þegar þetta er orðið svo meitlað í hugsunarhátt eldri kynslóða að þau hlusta ekki þó að öll rök séu á móti, og jafnvel ef þau vita það viðhalda þau sjálfsblekkingunni. ,,Svona hefur þetta alltaf verið”, ,,guð segir það” o.s.frv. Ég held ekki að þetta fólk sé illt í eðli sínu, en það viðheldur fáfræðinni, og lítur á þetta sem spurningu um heiður. Einn ætlaði t.d. að losa saumanna sjálfur, því kona hans, ung stúlka vildi losna við þá þó svo að hann hefði enga menntun eða reynslu í því, þrátt fyrir fortölur hjúkrunarkonu. Að þetta væri spurning um heiður, trú og sið, vinir hans myndu hæða hann ef hann gerði þetta ekki, það væri skylda hans. Nefndi meira að segja Kóraninn til sönnunar, en gat ekki sagt hvar það stóð.
Sannur Tómás trúir ekki þótt hann sjái naglaförin.
Stúlkurnar þora ekkert að segja, og verða að bæla sársaukan eftir getu, læra að taka þessu og venjast uns hætt er við því að þau verði sjálf ónæm og byrgja þetta inni, og hætt við að þau telji sér loks trú um að þetta sé besta leiðin, eða beygja sig alla vegana undir þessa kreddu, láta hana viðgangast eða framkvæma jafnvel sjálfar.
Það versta er kannski að þegar einhver gagnrýnir þennan sið tekur fólkið því sem árás á menningu sína og trú, ,,vesturveldin nota þetta til að ná meiri völdum yfir okkur og gera okkur vestræn” og þess háttar, og gætu tengt við hnattvæðingu kapítalismans, sem vissulega má gagnrýna. Þetta er svo hamrað í þau að þau geta/vilja ekki horfast í augu við sjálf sig og spurt sig hvort þessi aðferð sé réttlætanleg. Menning er ekki yfir gagnrýni hafin og menning Sómala hrynur ekki þótt þeir láti af þessum pyntingum sem þeir reyna að réttlæta fyrir sjálfum sér og öðrum með ýmsum hætti. Menning þeirra stæði þvert á móti sterkari eftir ef þeir létu það standa sem er þeim til góða en legðu niður það sem veldur illu.
Auk þess er umskurður ekki uppruninn hjá Sómölum heldur hefur borist þeim frá Egyptum, en hvaðan þeir fengu þetta veit ég ekki.

Annað umfjöllunarefni var ekki síður átakanlegt; þegar ungar stúlkur eru gefnar eldri mönnum gegn vilja þeirra. Og vilji þær ekki beygja sig undir vilja þeirra eru þær teknar með valdi.

Það er fjarri mér að ætla að ráðast á Sómala, og fjarri mér að gagnrýna menningu þeirrafremur en menningu annara þjóða sem stunda svona nokkuð. En ég er mótfallinn hvers konar lögum, siðum, trú og kreddum sem valda þjáningu, sársauka og pyntingum, og jafnvel dauða saklauss fólks. Á þetta að vera vilji guðs?

Þó að kreddan hafi verið í þúsundir ára þarf það ekki að réttlæta hana. Hví ætti guð að vilja að ungar stúlkur þjáist? Og ef hann vildi það, ætti hann skilið að við tilbiðum hann? Finnur hann ekki þjáninguna, heyrir hann ekki neyðaróp stúlknanna? Getur hann ekkert gert? Eða vill hann það ekki? Þetta voru spurningar sem ég spurði mig eftir að hafa séð þessa mynd.
Eftir að hafa séð þessa mynd langar mig að gera eitthvað. Ég veit ekki alveg hvernig, en maður getur ekki horft á þetta, og vitað af þessu og setið aðgerðarlaus. Maðurinn getur meira en hann vill og trúir sjálfur, og ef einn maður ákveður að gera eitthvað, ákveður ef til vill annar að gera eitthvað, þeir geta myndað bandalag, og svo bætist við annar... og annar... og annar. Maður ætti aldrei að vanmeta mátt fólksins. Það vona ég að raddir sem flestra fái að hljóma í þessu máli sem öðrum og geti breytt veröldinni til hins betra. Hvernig sem fer þá hafa menn reynt, jafnvel þúsund kílómetra leið hefst á einu skrefi og að lokum kemst maður á leiðarenda.



þriðjudagur, september 28, 2004

Senn líður að lokum stutt-og heimildamyndahátíðarinnar Nordisk Panorama. Er ég búinn að vera þar mikið um helgina, hef skemmt mér konunglega og búinn að sjá margar afbragðsgóðar myndir. En fyrir þá sem vilja ná í skottið á henni þá eru síðustu myndirnar sýndar í dag og e-ar snemma næsta morgun. Svo verða á morgun sýndar vinningsmynd í hópi stuttmynda ásamt nokkrum öðrum áhugaverðum stuttmyndum. Sýningarnar verða í Regnboganum en verðlaunamyndin og félagar verða sýndar í Listasafni Reykjavíkur frá 19:30 til 22:30.
Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar, bendi ég á www.nordiskpanorama.com, kíkja í Regnbogann eða aftan á stólbök í strætisvögnum, en þar má fræðast nánar um dagskrána.
Jæja, þarf að rjúka. Sæl að sinni.

föstudagur, september 24, 2004

Aaaahhh... helgi :)
Ég vaknaði klukkan 20 mínútur í sex að harka í vinnu úti í þeim grábölvaða rokrassi Skerjafirði. Rok rigning og hagl. Það bregst ekki að það er ávallt vont veður þegar við komum á föstudögum í Skerjafjörð. Blessunarlega búinn snemma. Já, það er ekki slæmt að hvíla lúin bein í hægindastól undir teppi, fá sér kakó með sykurpúðum og hnoðninga, hlýða á ljúfa tóna og lesa síðustu kafla Fjallkirkjunnar. Svo er það gamandávaldurinn Sailesh í kvöld. :D

sunnudagur, september 19, 2004

Áströlsk frumbyggjatónlist og íslensk þjóðlög

Í fyrradag upplifði ég einstakan atburð er ég fór á tónleika í salnum.
Dagskráin var áströlsk frumbyggjatónlist og íslensk þjóðlög.

Upphaflegir fiðlu- og sellóleikarar og söngkonur forfölluðust og man ég því miður ekki nöfn þeirra sem komu í staðinn.
Fyrst lék stengjakvartett fjögurra stúlkna lag sem ég man því miður ekki hvað heitir, en mun vera eftir Jón Ásgeirsson, úre Sölku Völku.
Síðan sungu söngkonurnar María meyjan skæra og Ísland farsælda frón.

Fyrstur steig á stokk Diddi fiðla. Hann var bráðskemmtilegur og sýndi listir sínar er hann lék nokkur íslensk þjóðlög á langsspil og íslenska fiðlu með miklum ágætum.
Næstur var Steindór Andersen og tóku þeir Diddi eitt fimmundarlag saman. Þetta er textinn:
Höldum gleði hátt á loft
helst það seður gaman
þetta skeður ekki oft
að við kveðum saman

Var Steindór líka hress og gamansamur eins og venjulega og notaði tækifærið að auglýsa nýútkomna bók Kvæðamannafélagsins Iðunnar, þar sem voru diskar með upptökusafni frá þriðja áratugnum, textar og nótur. Hann kvað svo sjálfur nokkrar vel valdar rímur. Við eina lék ástralinn Buzby Birchall með honum á didgeridoo, en Birchall er einn af þeim sem stendur að komu ástölsku fumbyggjanna hingað. Það hljómaði þokkalega en var fyrst og fremst virðingarverð tilraun að samræma ólíka menningarheima. Við þriðju vísuna hafði Himar Örn Hilmarsson útsett tónlist við og lék hann undir ásamt strengjasveitinni. Magnað verk, fékk mig til að hugsa um kaldar öræfanætur í auðn á Íslandi dimmt haf og sjóreka.


Eftir hlé gerði Birchall áhorfendum grein fyrir samstarfsverkefni þessu og kynnti tónlistarmennina.
Voru þar komnir þrír menn af Yolgnu-ættstofni í Arnem í Ástralíu að leika tónlist fólks síns.
Yirryirrngu Ganambarr, helgiathafnasöngvari, Mirrwatnga Munyarryun, hátíðar yidiaki (didgeridoo)-spilari, og Ngongu Ganambarr, yidiaki-smiður.
Tilheyrðu þessir menn Yolngu-ættflokki sem býr í Arnhem-landi í Ástralíu. Skiptist hann svo í marga minni, Yirryirrngu og Ngongu munu vera af Datiwuy-ættbálki en Mirrwatnga afWangurri-ættbálki.
Þessi tónlist og dans er eflaust þau elstu sem til eru í heiminum í dag.
Kallaðist helgiathöfnin Bunggul sem þeir sýndu sem byggðist á söng Yirryirrngu sem einnig lék á tréstúfa, en hinir tveir léku á yidiaki. Svo steig annar, mikill maður og holdugur dans við söng og undirleik hinna. Merkilegt hve fjölbreytilegan og framandi hljóm er hægt að gera með yidiaki og hvað maður skynjar mikið í því. Sama gilti einnig um hina miklu rödd Yirryirrngu og ótrúlegan limaburður dansarans. Tungumálið heillaði mig einnig og hljómfall þess, og allt þetta magnaða samspil söngs, dans og hljóðfæraleiks.
Ég fylltist lotningu og hrifningu fannst einstakt að fá að upplifa þetta, þessa fornu, fjarlægu og framandi menningu sem er svo ólík öllu sem við eigum að þekkja á vesturlöndum og kynnast viðhorfum þeirra til lífsins. Sérlega í ljósi þess að frumbyggjar yfirgefa nær aldrei heimkynni sín og eru þeim sterkt bundnir. Undrar mann ekki að þeir séu komnir með heimþrá, hafandi verið 3 vikur í burtu. Jeremy Cloake, sérfræðingur í tónlist þeirra segir að þessi forna tónlist tjái í senn, tengsl við náttúru, landið, fólk og dýr, fortíð og uppruna, guði og alheiminn. Las einnig í efnisskráni minni að Youlgnu fólkið trúir því að alla sköpun megi rekja til samhangandi athafna frá forsögulegum tíma. Forfeður þeirra úr andaheiminum ferðuðust um auðn og skópu alla hluti hins efnislega heims, þar á meðal Yolngu og málýskur þeirra
Þetta virðist þeirra óður til lífsins, og þessi goðsögn og saga þeirra og menning er varðveitt með söngvum og dönsum gegn um kynslóðirnar.
Þar skipar didgeridoo stóran sess og mun það sérlega heilagt frumbyggjum.
Ekki stóð á viðtökunum, salurinn réð sér varla fyrir hrifningu og var þeim klappað lof í lófa. Fólk reis úr sætum. Tóku þeir lokalagið aftur og kvöddust áhorfendur og flytjendur með gagnkvæmri gleði og þökk.
Ég þakka kærlega fyrir að hafa fengið að njóta þessa einstaka atburðar, en þeir sem misstu af þurfa ekki að örvænta, því Smekkleysa stefnir á útgáfu tónlistar þeirra og verður einnig gerð heimildamynd um ferð þeirra.

fimmtudagur, september 16, 2004

Vangaveltur um heilaga ritningu

Alltaf er jafn gaman að rökræða trúmál við strangtrúaða bókstafstrúarmenn. Kunningi minn er hvítasunnumaður og átti ég skemmtilegar og skondnar rökræður við hann í dag.
Var þetta vissulega augnablik þar sem best hefði verið að vera á staðnum, en skal ég þó rekja í stuttu máli það helsta sem bar á góma.
Fór ég að nefna það að Biblían væri ekki hafin yfir gagnrýni, að sérlega í gamla testamentinu birtist guð oft sem duttlungafullur, hefnigjarn og grimmur. Og tók ég ýmis dæmi. Meðal þess má nefna Jesajabók þar sem spámaðurinn spáir fyrir eyðingu Babýlon í eldi og brennisteini og skal öll ætt þeirra farast í vítislogum. Dálítið brútalt, hmm?
Og mér er spurn, hvers áttu saklaus börnin að gjalda, og konur þeirra? Voru þetta allt antíkristar, eða hvað?
Sama er svo uppi á teningnum í Nóaflóðinu. Alltént á ég erfitt með að sjá að hver einasti maður, kona og hvítvoðungur hafi átt skilið að farast í flóðinu.

í Mósebók fyrirskipar Faraó það voðaverk að deyða skuli alla frumburði Ísraels. En gerir það Guð eitthvað betri en faraó þegar hann lætur engil dauðans myrða alla egypska frumburði? Hvers áttu blessuð börnin að gjalda, murkað úr þeim lífið fyrir synd eins manns?

Einnig er staður þar sem maður eða menn (örugglega heiðinn Fílísteahundur) brjóta gegn Ísraelsmanni/mönnum, ef ég man rétt. Skal því konu mannsins nauðgað af... hvað... 9 manns?
Og hví að refsa þeim sem ekkert hefur til saka unnið?

Einnig bar á góma fórn Abrahams, þegar hann var tilbúinn að fórna syni sínum fyir guð, bara því guð segir honum það. Vissulega var guð að testa hann, en Abraham vissi ekkert um það.
Hefðuð þið viljað vera Ísak? ég spurði kunningja minn hvort hann væri tilbúinn að fórna fjölskyldu sinni á altari fyrir drottinn (vitandi ekki um fyrirætlanir guðs) ef guð bæði hann um það? Það var hann ekki.

Kemur svo ekki upp úr kafinu að maðurinn er fæddur vondur. Jæja, þá skilur maður kannski betur morðin á ungbörnunum. Hmm... erfðasynd eða hvað?
Ef Jesús dó á krossinum fyrir syndir okkar, þurfum við þá að líða fyrir erfðasynd?
Nýfætt barn sem enn hefur ekki gert neitt í hinni nýju veröld þess, hvernig getur það verið syndugt af einhverju sem það hefur ekki einu sinni náð að framkvæma, hvað þá hugsa?

Einnig ræddum við um lífsins táradal. Nú er ég ekki að segja að heimurinn sé alslæmur, síður en svo. En margir eru þeir sem hafa ekki upplifað jörðina sem annað en helvíti frá fæðingu.
Er þess virði að búa í eymd og nauð og upplifa helvíti á jörð til að fá loks frið eftir dauðann? Hvernig eiga menn að elska guð ef þeir hafa aldrei kynnst öðru en eymd og grimmd og guð virðist hvergi nærri? Þá er erfitt að þakka guði ef ekkert finnst til að þakka og aldrei gefur hann svör.
Maður getur aldrei vitað hvort guð sé til, maður getur sannfært sig um það, en það gerir hann ekkert raunverulegri. Og ef maður getur í raun aldrei vitað það, er þá ekki sjálfsblekking að sannfæra sig um að eitthvað sé til sem kannski er ekki til?

Best var þó þegar hann sagði að hann tryði ekki á þróunarkenninguna. Og þvertók fyrir að við ættum nokkurn skyldleika með öpum. Virtist jafnvel vera tilbúinn að trúa að jörðin væri ca. 7000 ára.
Ég benti honum á hluti eins og... hmmm... risaeðlur? Steingervinga, leifar frummanna, hvernig mætti rekja hæga þróun lífs með misgömlum steingervingum, svipaða beinabyggingu apa og manna. Þegar hann virtist ekki vera sannfærður um áreiðanleika vísindanna og kolefnagreiningar benti ég honum á að þetta væri enn það áreiðanlegasta sem við hefðum og flest rök hnigu að þessu og væri mun áþreifanlegra heldur en orð 2000 ára gamallar bókar.
Ég spurði hann ef hann fengi lungnabólgu, hvort hann myndi fremur treysta lækni sem byggði á menntun sinni og reynslu í vísindum eða manni sem myndi láta hann fá e-a plöntu og segja að máttur guðs byggi í þeim.

Gleymdi reyndar bestu spurningunni. Hvort hann tryði á algóðan almáttugan guð. Því algóður guð getur ekki viljað illt, og hið illa getur ekki átt sér stað án hans vilja, sé hann almáttugur.

Getur guð skapað svo stóran stein að hann geti ekki sjálfur lyft honum?
Alltaf jafn gaman að þessu.
Góðar stundir.

laugardagur, september 11, 2004

Ég er kominn með nýtt netfang: einarsteinn@hotmail.com

föstudagur, september 10, 2004

Hér er ánægjuleg frétt í Morgunblaðinu; Í dag kl. 5 verður opnuð í bókasal Þjóðmenningarhússins sýningin ,,Skáld mánaðarins" og er það að þessu sinni sjálfur skáldjöfurinn Gunnar Gunnarsson. Tekur Stofnun Gunnars Gunnassonar þátt í þessu samstarfsverkefni og í vetur verður smærri sýning á Skriðuklaustri um hvert skáld. Verður farið yfir verk meistarans sem m.a. skrifaði Fjallkirkjuna (sem er ein besta bók sem ég hef lesið!), Svartfugl og Aðventu.
Ég hvet áhugasama að mæta á Hverfisgötu 15 kl. 5. Einnig má fræðast um skáldið á www.skriduklaustur.is - Gunnar skáld

mánudagur, september 06, 2004

Hélt upp á afmælið mitt um daginn. Við áttum við ánægjulegt kvöld yfir tónlist, snæðingi, spjalli og öli og nutum samvista hvors annars. Afar góðmennt var þetta kvöld, en þar voru saman komin Arnljótur, Jenný, Aggi, Alli og Tóta, Bragi, Biggi, Loftur, Helga Lára, Ragna, Lóa og Einar nafni.
Fékk nokkrar góðar gjafir frá þeim.

Frá Einari fékk ég kvikmyndina City of God, Frá Braga fékk ég diska með Elvis og Frank Sinatra, Alli og Tóta færðu mér rauðvínsflösku, Biggi og Loftur gáfu mér ,,100 ára einsemd” eftir Gabriel Garcia Marquez, Lóa og Freyr gáfu mér Höfund Íslands eftir Hallgrím Helgason, Ragna gaf mér Rolling Stones-húfu, Arnljótur gaf mér kvikmyndirnar The 7th Voyage of sinbad og The Golden Voyage of Sinbad, Helga gaf mér Öxina og jörðina eftir Ólafur Gunnarsson og Doddi gaf mér safn Carl Barks-sagna ásamt Duck Tales-myndinni um leitina að töfralampanum. Mig langar til að þakka ykkur öllum aftur fyrir frábært kvöld og góðar gjafir. :)

laugardagur, september 04, 2004

Pétur W. Kristjánsson tónlistarmaður er fallinn frá, 52. ára að aldri. Hann fékk hjartaslag og lést á Landspítalanum. Pétur var táknmynd hins íslenska rokkanda og er löngu orðinn goðsögn í íslensku tónlistarlífi. Blessuð sé minning hans.

föstudagur, september 03, 2004

Þjóðminjar

Við bræður vorum boðflennur við opnun Þjóðminjasafnsins í fyrradag og fórum ásamt föður okkar. Það var mikil athöfn, þegar við komum kvað Steindór Andersen rímur við undirleik Hilmars Arnar Hilmarssonar. Þorgerður Katrín hélt þokkalegt erindi en þrátt fyrir áhersluna á 60 ára afmæli lýðveldisins fannst manni fullmikið að bíða í 6 ár eftir að húsið dratthalaðist loks í lag. Nokkrir af framamönnum þjóðarinnar fluttu svo ávarp auk forstöðumanns þjóðminjasafns Dana. Guitar Islancio lék nokkur lög. Guðrún María Jóhannsdóttir söng einnig nokkur lög og í ,,Húsgangi" eftir Jónas Hallgrímsson söng skólakór Kársness með, undir stjórn Þórunnar Björnssdóttur, betur þekkt sem Tóta. Sá líka Marteini bregða fyrir. Þegar Guðrún söng ,,Hvert örstutt spor" úr Silfurtúnglinu eftir Halldór Laxness játa ég að ég klökknaði og felldi tár. Því þetta ljóð og lag finnst mér með þeim fallegustu, ljúfsárustu og einlægustu sem samin hafa verið á íslensku.
Húsið er orðið mjög álitlegt, mikill tvöfaldur salur og tröppur upp sem leiddu okkur á kjarnasýninguna, þjóð verður til. Þótti okkur bræðrum hún afar glæsileg. Ekki var svo amalegt að geta gætt sér á snittum, víni og sódavatni og spjallað við fræga fólkið. :)

Það er hræðilegt að hugsa til þess að á meðan við erum að opna safnið okkar eru mörg helstu menningarverðmæti heims ýmist glötuð, eyðilögð eða í útrýmingarhættu. Í Írak, hinni fornu Mesópótamíu, vöggu menningar hefur verið unnið stöðugt að því að brjóta niður sögu mannkynsins alls. Söfn hafa verið rænd án þess að hersetuliðið hafi nokkuð gert til að koma í veg fyrir það, þyrlupallur yfir forn jarðlög með ómetanlegum fornleifum, fornt leikhús notað sem vélageymsla, grafið í hauga o.s.frv.
Sverrir Jakobsson sagnfræðingur fjallar um þetta í afar góðri grein á bls. 20 í Fréttablaðinu í dag. Mæli með að fók lesi hana.
Sjálfur fjallaði ég dálítið um þetta í grein sem ég skrifaði í íslensku í vetur. Pósta henni við tækifæri.

Mæli með kvikmyndinni Coffee And Cigarettes sem er hluti af Bandarískum indí-dögum í Háskólabíói. Í grófum dráttum eru þetta litlar sjálfstæðar senur þar sem fjöldi frægra leikara koma fram, leika ýktar útgáfur af sjálfum sér spjallandi yfir kaffi og sígarettum. Og þessi mynd er hreinasta snilld. Meðal þeirra sem koma fram eru Tom Waits, Iggy Pop, Alfred Moligna, Steve Coogan, RZA, GZA, Bill Murry og Cate Blanchett.

Fór með Dodda og Mossa á tónleika James Brown í Laugardalshöllinni um daginn. Áttum allir miða í stæði. Fyrst steig hin frábæra sveit Jagúar á stokk og hreif okkur með sér í sjóðheitt fönk.

Eftir Jagúar steig bandið á sviðið, skipuð trompetleikara, saxófónleikara, tveimur gítarleikurum, hljómborðsleikara, og tveimur trommuleikurum ásamt kynni, fjórum bakraddasöngkonum og tveimur dönsurum. Hver og einn kynntur sérstaklega, maðurinn auðvitað með toppmenn. Eftir magnaða sveiflu var maðurinn klappaður upp og þarna mætti hann. James Brown. Konungur sálartónlistarinnar. Og þetta kvöld sýndi hann og sannaði hví hann hefur þennan titil. Hann sparaði sig við snúninga og mjaðmahnykki enda að verða sjötugur en röddin var enn óaðfinnanleg, tilfinningin og gleðin og gamanið ljómaði af honum og bandinu, hann var sannarlega í essinu sínu. Sérstaklega í lögum eins og Soul Man, I Got You (I Feel Good) og Sex Machine fékk maður nánast tónlistarlega fullnægingu. (Reyndar gætu lögulegir dansararnir hafa hjálpað til með það ;)
Sumsé hin besta skemmtan. Jagúar og James, þökk fyrir mig!

Ps. Teiknaði mynd af kallinum um daginn, eftir ljósmynd. Reyni kannski að skanna hana inn.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.