Nordisk Panorama
NB Leiðrétting á tímasetningu á myndunum í portinu í kvöld; það er 21:00 til 22:30. Þar verður sýnd verðlaunamyndin og nokkrar aðrar. Þegar þetta er skrifað veit ég enn ekki hver var valin besta myndin.
Regnboginn hefur verið mitt annað hemili síðan á laugardag. Nú þegar litið er um öxl þykir mér þetta hafa verið afar skemmtileg hátíð, ég hef séð ógrynni úrvalsmynda og einnig þótti mér ánægjulegt hve vel hún var sótt. Þó svo að vissulega hafi verið ergilegt ef salurinn fylltist og maður komst ekki inn.
Það eru margar myndir sem standa upp úr fyrir mér...
Myndin Through my thick glasses er frá Noregi, byggð á sannri sögu og gerð með leirkarla/trölladeigstækni. Litla barnabarnið vill ekki fara í hlý föt áður en það fer út í snjóinn svo afinn segir því frá þegar hann var lítill drengur á stríðsárunum og reyndi að ganga í andspyrnuhreyfinguna.
Exit er dönsk leirkarlamynd í anda mynda eins og Matrix og Vanilla Sky. Leigumorðinginn skaut feita forstjórafíflið fullkomnu skoti í hnakkann. En mörvambinn deyr ekki...
Who´s Barði var “mockumentary” um Barða Jóhannson í Bang Gang. Ímynd hans á að vera andlega þenkjandi heilsufríks en í myndinni virðist hann fremur sleazy fáviti. Snilldarmynd.
Einnig voru góðar heimildarmyndir.
Myndin My Grandad´s Murderer hafði djúpstæð áhrif á mig. Afi annars leikstjórans var myrtur í stríðinu af 3 dönskum nastistum. Móðir leikstjórans, Søren Fauli, ber enn sár í hjarta vegna þessa. Einn morðinginn er enn á lífi í Þýskalandi og hefur farið huldu höfði undanfarin ár. Søren vill hitta hann og reyna að fyrirgefa honum og gera upp fortíðina og að morðinginn
viðurkenni tilveru hans og fjölskyldu hans, vita hvort hann sjái eftir gjörðum sínum og reyna að fá friðþægingu fyrir fjölskyldu sía.
War Children fjallar um þegar finnskum börnum er komið undan til Svíþjóðar í kjölfar innrásar Rússa í Finnland. Talað er við fólk sem var í hópi þessara barna, um sársaukan sem fylgdi viðskilnaðinum við foreldrana og seinna við fósturforeldrana. Fæst börnin vissu hvert væri verið að senda þau, ímynduðu sér jafnvel að það ætti að senda þau í fangabúðir í Rússlandi og ætti að drepa þau. Myndin lýsir svo samlífinu með fósturforeldrunum, hvernig börnin þurfa að aðlaga sig nýju lífi og skipta um tungumál. Þegar stríðinu lýkur eru börnin send heim og þurfa að þola sáran viðskilnað við fólkið sem hafði gengið þeim í foreldra stað, margir sneru heim í fátækt, og höfðu gjarnan kynnst betra lífi í Svíþjóð.
Því miður missti ég af enda myndarinnar og þykir það grábölvað. Vonandi að maður geti nálgast hana einhvern veginn.
Auk þess sá ég ýmsar góðar stuttmyndir frá Balkanskaga. sérlega skemmtileg var tölvuteiknaða myndin Plasticat. Allir eru kattmenni og einn þeirra gengur framhjá betlara og finnur síðan pening. birtast honum þá vættirgóðrar og slæmrar samvisku og setjaupp reikningsdæmi, hvernig hann gæti varið aurnum. En þar er ekki öll sagan sögð, það koma fleiri og fleiri vættir og hver með fáránlegri hugmyndir uns örlögin leysa úr málunum...
Ég var sleginn eftir að hafa séð heimildamyndina The day I'll Never Forget, um umskurð kvenna í Sómalíu. Það er hræðilegt þegar rótgrónar kreddur sem þessi ráða ríkjum og valda fólki hræðilegum sársauka og skaða. Og þegar þetta er orðið svo meitlað í hugsunarhátt eldri kynslóða að þau hlusta ekki þó að öll rök séu á móti, og jafnvel ef þau vita það viðhalda þau sjálfsblekkingunni. ,,Svona hefur þetta alltaf verið”, ,,guð segir það” o.s.frv. Ég held ekki að þetta fólk sé illt í eðli sínu, en það viðheldur fáfræðinni, og lítur á þetta sem spurningu um heiður. Einn ætlaði t.d. að losa saumanna sjálfur, því kona hans, ung stúlka vildi losna við þá þó svo að hann hefði enga menntun eða reynslu í því, þrátt fyrir fortölur hjúkrunarkonu. Að þetta væri spurning um heiður, trú og sið, vinir hans myndu hæða hann ef hann gerði þetta ekki, það væri skylda hans. Nefndi meira að segja Kóraninn til sönnunar, en gat ekki sagt hvar það stóð.
Sannur Tómás trúir ekki þótt hann sjái naglaförin.
Stúlkurnar þora ekkert að segja, og verða að bæla sársaukan eftir getu, læra að taka þessu og venjast uns hætt er við því að þau verði sjálf ónæm og byrgja þetta inni, og hætt við að þau telji sér loks trú um að þetta sé besta leiðin, eða beygja sig alla vegana undir þessa kreddu, láta hana viðgangast eða framkvæma jafnvel sjálfar.
Það versta er kannski að þegar einhver gagnrýnir þennan sið tekur fólkið því sem árás á menningu sína og trú, ,,vesturveldin nota þetta til að ná meiri völdum yfir okkur og gera okkur vestræn” og þess háttar, og gætu tengt við hnattvæðingu kapítalismans, sem vissulega má gagnrýna. Þetta er svo hamrað í þau að þau geta/vilja ekki horfast í augu við sjálf sig og spurt sig hvort þessi aðferð sé réttlætanleg. Menning er ekki yfir gagnrýni hafin og menning Sómala hrynur ekki þótt þeir láti af þessum pyntingum sem þeir reyna að réttlæta fyrir sjálfum sér og öðrum með ýmsum hætti. Menning þeirra stæði þvert á móti sterkari eftir ef þeir létu það standa sem er þeim til góða en legðu niður það sem veldur illu.
Auk þess er umskurður ekki uppruninn hjá Sómölum heldur hefur borist þeim frá Egyptum, en hvaðan þeir fengu þetta veit ég ekki.
Annað umfjöllunarefni var ekki síður átakanlegt; þegar ungar stúlkur eru gefnar eldri mönnum gegn vilja þeirra. Og vilji þær ekki beygja sig undir vilja þeirra eru þær teknar með valdi.
Það er fjarri mér að ætla að ráðast á Sómala, og fjarri mér að gagnrýna menningu þeirrafremur en menningu annara þjóða sem stunda svona nokkuð. En ég er mótfallinn hvers konar lögum, siðum, trú og kreddum sem valda þjáningu, sársauka og pyntingum, og jafnvel dauða saklauss fólks. Á þetta að vera vilji guðs?
Þó að kreddan hafi verið í þúsundir ára þarf það ekki að réttlæta hana. Hví ætti guð að vilja að ungar stúlkur þjáist? Og ef hann vildi það, ætti hann skilið að við tilbiðum hann? Finnur hann ekki þjáninguna, heyrir hann ekki neyðaróp stúlknanna? Getur hann ekkert gert? Eða vill hann það ekki? Þetta voru spurningar sem ég spurði mig eftir að hafa séð þessa mynd.
Eftir að hafa séð þessa mynd langar mig að gera eitthvað. Ég veit ekki alveg hvernig, en maður getur ekki horft á þetta, og vitað af þessu og setið aðgerðarlaus. Maðurinn getur meira en hann vill og trúir sjálfur, og ef einn maður ákveður að gera eitthvað, ákveður ef til vill annar að gera eitthvað, þeir geta myndað bandalag, og svo bætist við annar... og annar... og annar. Maður ætti aldrei að vanmeta mátt fólksins. Það vona ég að raddir sem flestra fái að hljóma í þessu máli sem öðrum og geti breytt veröldinni til hins betra. Hvernig sem fer þá hafa menn reynt, jafnvel þúsund kílómetra leið hefst á einu skrefi og að lokum kemst maður á leiðarenda.
miðvikudagur, september 29, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli