Vangaveltur um heilaga ritningu
Alltaf er jafn gaman að rökræða trúmál við strangtrúaða bókstafstrúarmenn. Kunningi minn er hvítasunnumaður og átti ég skemmtilegar og skondnar rökræður við hann í dag.
Var þetta vissulega augnablik þar sem best hefði verið að vera á staðnum, en skal ég þó rekja í stuttu máli það helsta sem bar á góma.
Fór ég að nefna það að Biblían væri ekki hafin yfir gagnrýni, að sérlega í gamla testamentinu birtist guð oft sem duttlungafullur, hefnigjarn og grimmur. Og tók ég ýmis dæmi. Meðal þess má nefna Jesajabók þar sem spámaðurinn spáir fyrir eyðingu Babýlon í eldi og brennisteini og skal öll ætt þeirra farast í vítislogum. Dálítið brútalt, hmm?
Og mér er spurn, hvers áttu saklaus börnin að gjalda, og konur þeirra? Voru þetta allt antíkristar, eða hvað?
Sama er svo uppi á teningnum í Nóaflóðinu. Alltént á ég erfitt með að sjá að hver einasti maður, kona og hvítvoðungur hafi átt skilið að farast í flóðinu.
í Mósebók fyrirskipar Faraó það voðaverk að deyða skuli alla frumburði Ísraels. En gerir það Guð eitthvað betri en faraó þegar hann lætur engil dauðans myrða alla egypska frumburði? Hvers áttu blessuð börnin að gjalda, murkað úr þeim lífið fyrir synd eins manns?
Einnig er staður þar sem maður eða menn (örugglega heiðinn Fílísteahundur) brjóta gegn Ísraelsmanni/mönnum, ef ég man rétt. Skal því konu mannsins nauðgað af... hvað... 9 manns?
Og hví að refsa þeim sem ekkert hefur til saka unnið?
Einnig bar á góma fórn Abrahams, þegar hann var tilbúinn að fórna syni sínum fyir guð, bara því guð segir honum það. Vissulega var guð að testa hann, en Abraham vissi ekkert um það.
Hefðuð þið viljað vera Ísak? ég spurði kunningja minn hvort hann væri tilbúinn að fórna fjölskyldu sinni á altari fyrir drottinn (vitandi ekki um fyrirætlanir guðs) ef guð bæði hann um það? Það var hann ekki.
Kemur svo ekki upp úr kafinu að maðurinn er fæddur vondur. Jæja, þá skilur maður kannski betur morðin á ungbörnunum. Hmm... erfðasynd eða hvað?
Ef Jesús dó á krossinum fyrir syndir okkar, þurfum við þá að líða fyrir erfðasynd?
Nýfætt barn sem enn hefur ekki gert neitt í hinni nýju veröld þess, hvernig getur það verið syndugt af einhverju sem það hefur ekki einu sinni náð að framkvæma, hvað þá hugsa?
Einnig ræddum við um lífsins táradal. Nú er ég ekki að segja að heimurinn sé alslæmur, síður en svo. En margir eru þeir sem hafa ekki upplifað jörðina sem annað en helvíti frá fæðingu.
Er þess virði að búa í eymd og nauð og upplifa helvíti á jörð til að fá loks frið eftir dauðann? Hvernig eiga menn að elska guð ef þeir hafa aldrei kynnst öðru en eymd og grimmd og guð virðist hvergi nærri? Þá er erfitt að þakka guði ef ekkert finnst til að þakka og aldrei gefur hann svör.
Maður getur aldrei vitað hvort guð sé til, maður getur sannfært sig um það, en það gerir hann ekkert raunverulegri. Og ef maður getur í raun aldrei vitað það, er þá ekki sjálfsblekking að sannfæra sig um að eitthvað sé til sem kannski er ekki til?
Best var þó þegar hann sagði að hann tryði ekki á þróunarkenninguna. Og þvertók fyrir að við ættum nokkurn skyldleika með öpum. Virtist jafnvel vera tilbúinn að trúa að jörðin væri ca. 7000 ára.
Ég benti honum á hluti eins og... hmmm... risaeðlur? Steingervinga, leifar frummanna, hvernig mætti rekja hæga þróun lífs með misgömlum steingervingum, svipaða beinabyggingu apa og manna. Þegar hann virtist ekki vera sannfærður um áreiðanleika vísindanna og kolefnagreiningar benti ég honum á að þetta væri enn það áreiðanlegasta sem við hefðum og flest rök hnigu að þessu og væri mun áþreifanlegra heldur en orð 2000 ára gamallar bókar.
Ég spurði hann ef hann fengi lungnabólgu, hvort hann myndi fremur treysta lækni sem byggði á menntun sinni og reynslu í vísindum eða manni sem myndi láta hann fá e-a plöntu og segja að máttur guðs byggi í þeim.
Gleymdi reyndar bestu spurningunni. Hvort hann tryði á algóðan almáttugan guð. Því algóður guð getur ekki viljað illt, og hið illa getur ekki átt sér stað án hans vilja, sé hann almáttugur.
Getur guð skapað svo stóran stein að hann geti ekki sjálfur lyft honum?
Alltaf jafn gaman að þessu.
Góðar stundir.
fimmtudagur, september 16, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli