föstudagur, nóvember 27, 2009

Frjáls Palestína

Fyrsta tölublað 20. árgangs Frjálsrar Palestínu, málgagns Félagsins Ísland-Palestína kom út í dag í ritstjórn minni. Var þetta jafnframt í fyrsta sinn sem ég ritstýri blaði. Blaðið er glæsilegt og ekki laust við að maður sé stoltur. Ég þakka stjórn félagsins, öllum sem lögðu fram efni, þýddu og lásu yfir, Prentmeti, Hauki Má Haraldssyni uppsetjara, Katrínu Mixa og Hjálmtý Heiðdal, sem sitja með mér í ritstjórn, kærlega fyrir samstarf og framlag við tilurð blaðsins.

Þeim sem vilja nálgast blaðið en eru ekki í félaginu er að sjálfsögðu ráðlagt að ganga í félagið, en það verður einnig til sölu á e-ð 4-500 kr. á fundinum á sunnudaginn.
Einnig býst ég við að það komi á pdf-formi á heimasíðu félagsins, svo sem verið hefur undanfarin ár, en rekstur síðunnar hefur reyndar verið niðri um hríð, þó það standi nú til bóta. Einhver töf gæti því verið á því.

fimmtudagur, nóvember 26, 2009

Félagið Ísland-Palestína: Samstöðufundur með Palestínu



Alþjóðlegur samstöðudagur með palestínsku þjóðinni er haldinn að undirlagi Sameinuðu þjóðanna þann 29. nóvember ár hvert.

Dagskrá verður í Norræna húsinu á sunnudaginn og hefst kl. 15:

Ávarp dagsins: Ögmundur Jónasson alþingismaður

Björn Thoroddsen og félagar í Guitar Islandicio flytja nokkur lög

Anna Tómasdóttir hjúkrunarnemi flytur erindi og sýnir myndir: Mannréttindabrot í skjóli meints öryggis. Reynsla sjálfboðaliða í hertekinni Palestínu.

Félagar eru hvattir til að fjölmenna og taka með sér gesti.

miðvikudagur, nóvember 18, 2009



Samstöðu- og styrktartónleikar Félagsins Ísland-Palestína:

Miðvikudaginn 18. nóvember á Batteríinu (Gamla Organ)

Fram koma hljómsveitirnar:

Útidúr

Reykjavík!

For a Minor Reflection

Retro Stefson

Aðgangseyrir er 1000 kr - sem renna beint í neyðarsöfnun FÍP til Gaza

Fjölmennum og sýnum málstað Palestínumanna samstöðu, styrkjum neyðarsöfnun til nauðstaddra íbúa Gaza og hlustum á frábæra tónlist.

Niður með aðskilnaðarmúrinn - Frjáls Palestína!

fimmtudagur, nóvember 12, 2009

Af mönnum og álfum

Ekkillinn

Uppi í háa hamrinum býr huldukona,
það veit enginn Íslendingur
annar en ég, hvað vel hún syngur.

Eitt sinn hvarf hann ekkillinn frá Álfahamri,
það var ekki allt með felldu,
eftir því sem sumir héldu.

Leitað var hans út með á og upp við hamra,
en allir höfðu öðru að sinna,
ekkilinn var hvergi að finna.

Löngu seinna sauðamaður sagðist hafa
heyrt hann glöggt á hljóðri vöku
í hamrinum syngja þessa stöku.


--Davíð Stefánsson frá Fagraskógi


Karl sat undir kletti

Karl sat undir kletti
og kordur sínar sló,
hann hafði skegg svo skrítið
og skögultönn og hló,
hann hafði skegg svo skrítilegt
og skögultönn og hló.

Huldan uppí hamri
heyrði ljúfan klið,
hún læddist út úr hamri
og lagði eyrun við,
hún læddist út úr hamrinum
og lagði eyrun við.

Síðan hefur hvorugt
hér um slóðir sést.
Sá gamli var víst ekki
eins gamall og hann lést.
sá gamli var víst ekki nærri
eins gamall og hann lést.


-- Halldóra B. Björnsson

mánudagur, nóvember 09, 2009

Stríðið

Spurt hef ég tíu milljón manns
sé myrtir í gamni utanlands:

Afturámóti var annað stríð
undir grjótkletti forðum tíð,
það var allt útaf einni jurt
sem óx í skjóli og var slitin burt.

því hvað er auður og afl og hús
ef engin jurt vex í þinni krús.


-- Halldór Laxness, ort í orðastað Bjarts í Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki

sunnudagur, nóvember 08, 2009

Alþjóðlegur baráttudagur gegn aðskilnaðarmúrnum

Dagskrá á Café Kúltúra - mánudaginn 9. nóvember - klukkan 19.00

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn aðskilnaðarmúrnum mánudaginn 9. nóvember mun Félagið Ísland-Palestína standa fyrir kvikmynda- og fræðslukvöldi á Café Cultura, Hverfisgötu 18.

Dagskráin hefst klukkan 19.00. Allir velkomnir!


DAGSKRÁ:

Anna Tómasdóttir, hjúkrunarnemi og stjórnarmeðlimur FÍP mun flytja erindi undir yfirskriftinni „Mannréttindabrot í skjóli öryggis“ þar sem fjallað verður um aðskilnaðarmúrinn, landtökubyggðir, frelsisskerðingu og önnur mannréttindabrot sem framin eru gegn palestínsku þjóðinni og hljóta þögult samþykki umheimsins.

Sýnd verður myndin The Iron Wall en eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða heimilidarmynd um aðskilnaðarmúrinn í hertekinni Palestínu.

mánudagur, nóvember 02, 2009

Roman Polanski-málið

Einn eftirlætis kvikmyndaleikstjórinn minn, Roman Polanski, hefur verið mikið í fréttunum vegna kynferðisafbrotsins sem hann hefur nú verið handtekinn, fyrir, rúmlega 30 árum eftir afbrotið.
Nú kemur í bíó heimildamynd um hann, eða réttara sagt réttarferlið gegn honum.
Mér sýnist þetta svo sem alveg forvitnileg mynd, og hún hefur fengið góða dóma. Þess vegna tel ég góðar líkur á að ég tékki á henni.
Þó er rétt að hafa góðan fyrirvara. Samkvæmt því sem ég hef lesið mér til fylgist myndin fyrst og fremst með lagaferlinu og virðist komast að þeirri niðurstöðu að þrá dómarans eftir sviðsljósi og fjölmiðlafár hafi fremur ráðið hvernig málið þróaðist en krafan um réttlæti.
Það má svo sem alveg vera. Af lýsingum að dæma virðist hins vegar umfjöllunin um sjálfan glæpinn víkja til hliðar og Polanski birtast manni sem hálf leyndardómsfull persóna.
Gott og vel. Fjölmiðlafár er mikið í Bandaríkjunum. Réttarferlið er rotið. Gasp. Hver hefði nú trúað því?
Það breytir hins vegar engu um glæpinn og það er mergur málsins. Roman Polanski svaf hjá 13 ára stúlku, undir lögaldri og ósjálfráða. Það nefnist statuary rape á ensku, og hann játaði það. Hann kynni jafnvel að hafa nauðgað henni, þ.e. sofið hjá henni án ennar samþykkis, þó það komi nú eiginlega í sama stað niður, þar sem stúlkan er lögum samkvæmt ekki álitin hafa þroska til að geta gefið fullt meðvitað samþykki. Hann flúði svo af hólmi. Hér gerist hann í senn sekur um níðingsskap og heigulshátt. Þar gildir litlu hvort réttarhöldin hefðu verið sanngjörn. Í stað þess að gangast við glæp sínum og leita þess réttar sem hann kynni að telja sig hafa haft, þá flúði hann. Getur hann því fyrst og fremst sjálfum sér um kennt hvernig komið er fyrir honum núna. Vissulega voru kringumstæður handtökunnar lúalegar, en varla þó jafn lúalegar og hans eigin glæpur.
Það að hann missti foreldra sína í útrýmingabúðum, og var þar sjálfur fangi í bernsku,, og að konan hans var myrt á hrottalegan hátt er harmleikur, svo sannarlega, og ekki ætla ég að gera lítið úr því. En að reyna að nota það sem útskýringu eða réttlætingu á glæpnum er á siðferðislega hálum ís, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ekkert réttlætir nauðgun, og ekkert réttlætir að serða barn.
Roman Polanski er stórkostlegur kvikmyndagerðarmaður, en hann er líka níðingur. Blessunarlega birtist níðingsskapurinn ekki í myndum hans, sem eru sömu listaverkin og áður og ég mun njóta þeirra jafn mikið. Framlag hans til heimslistarinnar er vissulega dýrmætt. Hann á hins vegar ekki að fá silkihanskameðferð fyrir það, staða hans sem listamanns breytir engu um glæp hans. Ef ég hefði drýgt sama glæp (engar áhyggjur) þá væri mér smalað í steininn og yrði úrhrak meðal fanganna, þeir kynnu að hafa bútað móður sína, en ég væri sko ógeð. Fáir glæpamenn eru jafn fyrirlitnir innan fangelsismúra, ef ekki bara líka sem utan og barnaníðingar.
Auðvitað er egórúnkarinn í mér pínu fúll yfir að fá ekki fleiri gæðamyndir frá honum. En þegar málið snýst um glæpi og níðingsverk þá á ekki að gera undantekningu á fólki vegna framlags þeirra á öðrum sviðum. Níðingsskapur er níðingsskapur. Réttlætiskennd mín er því hér egórúnkinu yfirsterkara.
Þeir listamenn sem vilja að hann verði látinn laus gera sér aðeins skömm til. Það væri annað ef hann fengi heiðarleg réttarhöld eða ef einhver leið væri á endurhæfingu. Þeir ættu alltént að spyrja sig hvort þeir myndu bregðast eins við ef þeirra eigin börn hefðu verið fórnarlömbin.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.