mánudagur, nóvember 02, 2009

Roman Polanski-málið

Einn eftirlætis kvikmyndaleikstjórinn minn, Roman Polanski, hefur verið mikið í fréttunum vegna kynferðisafbrotsins sem hann hefur nú verið handtekinn, fyrir, rúmlega 30 árum eftir afbrotið.
Nú kemur í bíó heimildamynd um hann, eða réttara sagt réttarferlið gegn honum.
Mér sýnist þetta svo sem alveg forvitnileg mynd, og hún hefur fengið góða dóma. Þess vegna tel ég góðar líkur á að ég tékki á henni.
Þó er rétt að hafa góðan fyrirvara. Samkvæmt því sem ég hef lesið mér til fylgist myndin fyrst og fremst með lagaferlinu og virðist komast að þeirri niðurstöðu að þrá dómarans eftir sviðsljósi og fjölmiðlafár hafi fremur ráðið hvernig málið þróaðist en krafan um réttlæti.
Það má svo sem alveg vera. Af lýsingum að dæma virðist hins vegar umfjöllunin um sjálfan glæpinn víkja til hliðar og Polanski birtast manni sem hálf leyndardómsfull persóna.
Gott og vel. Fjölmiðlafár er mikið í Bandaríkjunum. Réttarferlið er rotið. Gasp. Hver hefði nú trúað því?
Það breytir hins vegar engu um glæpinn og það er mergur málsins. Roman Polanski svaf hjá 13 ára stúlku, undir lögaldri og ósjálfráða. Það nefnist statuary rape á ensku, og hann játaði það. Hann kynni jafnvel að hafa nauðgað henni, þ.e. sofið hjá henni án ennar samþykkis, þó það komi nú eiginlega í sama stað niður, þar sem stúlkan er lögum samkvæmt ekki álitin hafa þroska til að geta gefið fullt meðvitað samþykki. Hann flúði svo af hólmi. Hér gerist hann í senn sekur um níðingsskap og heigulshátt. Þar gildir litlu hvort réttarhöldin hefðu verið sanngjörn. Í stað þess að gangast við glæp sínum og leita þess réttar sem hann kynni að telja sig hafa haft, þá flúði hann. Getur hann því fyrst og fremst sjálfum sér um kennt hvernig komið er fyrir honum núna. Vissulega voru kringumstæður handtökunnar lúalegar, en varla þó jafn lúalegar og hans eigin glæpur.
Það að hann missti foreldra sína í útrýmingabúðum, og var þar sjálfur fangi í bernsku,, og að konan hans var myrt á hrottalegan hátt er harmleikur, svo sannarlega, og ekki ætla ég að gera lítið úr því. En að reyna að nota það sem útskýringu eða réttlætingu á glæpnum er á siðferðislega hálum ís, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ekkert réttlætir nauðgun, og ekkert réttlætir að serða barn.
Roman Polanski er stórkostlegur kvikmyndagerðarmaður, en hann er líka níðingur. Blessunarlega birtist níðingsskapurinn ekki í myndum hans, sem eru sömu listaverkin og áður og ég mun njóta þeirra jafn mikið. Framlag hans til heimslistarinnar er vissulega dýrmætt. Hann á hins vegar ekki að fá silkihanskameðferð fyrir það, staða hans sem listamanns breytir engu um glæp hans. Ef ég hefði drýgt sama glæp (engar áhyggjur) þá væri mér smalað í steininn og yrði úrhrak meðal fanganna, þeir kynnu að hafa bútað móður sína, en ég væri sko ógeð. Fáir glæpamenn eru jafn fyrirlitnir innan fangelsismúra, ef ekki bara líka sem utan og barnaníðingar.
Auðvitað er egórúnkarinn í mér pínu fúll yfir að fá ekki fleiri gæðamyndir frá honum. En þegar málið snýst um glæpi og níðingsverk þá á ekki að gera undantekningu á fólki vegna framlags þeirra á öðrum sviðum. Níðingsskapur er níðingsskapur. Réttlætiskennd mín er því hér egórúnkinu yfirsterkara.
Þeir listamenn sem vilja að hann verði látinn laus gera sér aðeins skömm til. Það væri annað ef hann fengi heiðarleg réttarhöld eða ef einhver leið væri á endurhæfingu. Þeir ættu alltént að spyrja sig hvort þeir myndu bregðast eins við ef þeirra eigin börn hefðu verið fórnarlömbin.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.