fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Ferðasaga

Um daginn hélt ég með Jórunni systur minni, föður mínum og Arnari mági mínum til Skagafjarðar þar sem ætlunin var að fara í dags gönguferð. Við áðum í Varmahlíð og gistum í góðu yfirlæti á gistiheimili hjá ættfólki mínu (í móðurætt), Indu og Jósafat. Eru þau eitt mesta sómafólk sem ég hef kynnst. Í næsta dag lögðum við svo í hann í mesta blíðviðri, sól og hlýja allan daginn. Við lögðum upp frá Kolbeinsdal og gengum þaðan upp hálsinn, Heljardalsheiðina yfir í Svarfaðardal. Áðum oft á leiðinni og nutum veðursins og stórbrotinnar náttúrunnar. Norðlenskir hamrar og basaltfjöll eru í senn voldug, hrikaleg og falleg og má með sanni segja að ég hafi verið bergnuminn yfir mikilfengleik þeirra. Við vorum auk þess með eitt besta nesti sem maður getur haft með sér; kaffi, flatbrauð með osti og kæfu, lifrarpylsu og harðfisk. Rammíslensk og stolt af! ;)
Þórir frændi minn (í föðurætt) var svo höfðinglegur að sækja okkur svo á bíl og keyrði okkur til baka. Kemst að því að Jósafat og Inda eru tengdarforeldrar hans. Við erum bræðrasynir. Jamm, heimurinn er lítill. :) Hann sagði okkur frá Fiskideginum mikla á Dalvík sem hafði víst verið daginn áður, heppnast með eindæmum vel og mættu um 30.000 manns. Ekki örgrannt um að maður hefði viljað vera þar.
Fýsti okkur mjög í væna máltíð eftir vel heppaðað dag en það var hætt að framreiða mat á hótelinu og grillið lokað í sjoppunni svo það endaði með einni með öllu. Reyndar hesthúsaði ég þremur. Fengum okkur svo öl og skáluðum við fyrir förinni.
Loks var afar kærkomið að geta hvílt lúin bein í heita pottinum áður en gengið var til náða.
Næsta dag skruppum við í Byggðasafnið í Glaumbæ og skoðuðum torfbæinn þar. Þar skoðaði ég hvern krók og kima, varð að vita allt um hvern einasta smáhlut. Hjá andyrrinu var fjöldi mynda af framamönnum úr nágrenninu og fann ég mér til ánægju mynd af langalangalangafa mínum, Einari á Hraunum, þingmanni Skagfirðinga, og hangir sama mynd upp á vegg heima.
Hrifning mín á safninu olli þó því að mér dvaldist ef til vill helsta lengi þar og fjölskylda mín var orðin nokkuð óþreyjufull þegar ég loksins kom til baka.
Næst skoðuðum við kirkjuna á Reynistað og fundum leiði Reynistaðabræðra sem urðu úti á Kili 1780 of fundust ekki fyrr en um 60 árum seinna, fyrir tilviljun. Systir þeirra var langalangalangalangamma mín. Jón Helgason orti um skelfileg örlög þeirra í ljóði sínu, Áföngum;

Liðið er hátt á aðra öld
enn mun þó reimt á Kili
þar sem í snjónum bræðra beið
beysklegur aldurtili
skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili
hleypur þar einn með hærusekk
hverfur í dimmu gili

Loks ber að nefna að við skoðuðum safnið á Reykjum í Hrútafirði, en það er minjasafn um Hákarlaöldina og bar þar hæst eina heila hákarlaskipið sem varðveitt er á Íslandi, Ófeig. Má segja að hákarlaöldin hafi verið eins konar Klondike-ástand, reyndi mjög karlmennsku og hetjulund. Þar var tækifæri til að þéna vel en því fylgdi mikil hætta og mannskaði.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.