Hefur þú fengið nóg af því að hendur okkar séu blóði drifnar vegna stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar við ólögmætt stríð í Írak, að þér forspurðum/forspurðri?? Folkid.net er samskiptavefur sem sameinar ólíkt fólk í einu grundvallarmarkmiði; að mótmæla Íraksstríði og stríðsrekstri, stuðningi ríkisstjórnarinnar við það og valdníðslu stjórnvalda. Hér getur fólk haft samskipti gegnum póstlista og viðrað skoðanir sínar, kynnst viðhorfum hvers annars og mögulega sammælst um aðgerðir. Ríkisstjórnin er til að þjóna fólkinu, ekki öfugt. Öllum er frjáls aðgangur að kerfinu, allir geta hætt, enginn þarf að taka þátt í því sem hann kærir sig ekki um. Fólkið getur haft áhrif. Ef þú vilt breyta ástandinu til hins betra og hafa áhrif, ekki þegja heldur láttu rödd þína heyrast.
sunnudagur, nóvember 28, 2004
Annað fréttnæmt; ég fór á samstöðufund fyrir Palestínu sem nefndist Þjóð í þrengingum Það var afar vel heppnaður og fræðandi fundur, fjölmenni og góður andi. Eftir fundinn skráði ég mig í félagið. Til hægri hef ég set hlekk á heimasíðu félagins sem ég hvet fólk til að kynna sér málefni félagsins og lesa greinar sem þar er að finna.
Daginn eftir horfði ég svo á heimildamyndina Gaza Strip, um líf Palestínsk flóttafólks í flóttamannabúðum á Gaza-svæðinu. Afar áhrifamikil mynd sem ég hvet alla að sjá.
Einnig set ég hlekk á heimasíðu Ísraelsku friðarsamtakanna Gush-Shalom. Formaður og stofnandi er Uri Avnery sem er Ísraelsmaður sem hefur helgað líf sitt baráttu fyrir friði milli Palestínumanna og Ísrael. Hann er 81s árs og er enn virkur. Hann er einnig afbragðs greinahöfundur og má finna margar góðar greinar eftir hann á síðunni.
miðvikudagur, nóvember 24, 2004
Alþjóðleg kvikmyndahátíð
Ég mæli með því að fólk reyni að ná í skottið á alþjóðlegri kvikmyndahátíð. Sýningar eru til og með morgundeginum og eru haldnar í Háskólabíói og Regnboganum. Hef ég séð fjórar afbragðsmyndir og hef hugsað mér að skella mér aftur í kvöld.
Fyrst sá ég Jargo. Segir þar frá tveimur vinum, unglingspiltum í Berlín. Jargo er þýskur alinn upp í Sádi-Arabíu en Kamil Tyrki, alinn upp í Þýskalandi. Segir svo myndin frá vináttu þeirra, ástinni, ólíkum menningarheimum og hefðum sem þeir reyna að fóta sig í og uppgjöri.
Næst sá ég heimildamyndina Control Room. Þar er fjallað um mismunandi fréttaflutning bandarískra fjölmiðla og arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera um stríðið í Írak.
Al Jazeera er umdeildasta sjónvarpsstöð Arabalandanna en um leið sú vinsælasta. Hefur hún sætt mikilli gagnrýni fyrir opinskáar myndir og fréttaflutning, og gagnrýni á arabísk stjórnvöld enda hefur stöðin einsett sér að draga ekkert undan og hefur að einkunnarorðum að sýna báðar hliðar og flytja sannleikann. Hún lýsir skýrt andstöðu við stríðið og stefnu Bandaríkjastjórnar en stjórnendur hafa þó aldrei haft neitt á móti bandarísku þjóðinni. Yfirmaðurinn lýsti t.d. trausti sínu á bandarísku stjórnarskránni og þjóðinni, að hún myndi fyrr eða síðar rísa upp á móti gerræðisstjórninni og annar sagðist myndu vilja að börnin sín fengu menntun í Bandaríkjunum. Stöðin sýnir t.d. hvað Bandarískir ráðamenn hafa að segja um stefnuna og ráðagerðir og ræðir við bandaríska hermenn. Eitt eftirminnilegra aðriða í myndinni er bandarískur liðþjálfi (að mig minnir) sem í upphafi myndar trúir að hann og félagar hans séu að breyta rétt með innrásinni (myndin spannar dágóðan tíma). Seinna í myndinni lýsir hann viðbrögðum sínum við að sjá annars vegar fallna íraska hermenn en síðar bandaríska í sjónvarpi. Og hann lýsir því hve hann hryllti, þegar hann fann að honum hafði orðið mun meira um að sjá fallna vopnabræður en er hann sá írösku hermennina, og hafði ekki orðið sérlega brugðið við fyrri sýnina. Og þá sá hann margt í nýju ljósi, hvernig það er fyrir íraka að sjá fallna landa sína í sjónvarpi. Myndin fær mann til að tortryggja enn fremur áróður herliðsins og Bandaríkjastjórnar. Einnig vissi Al-Jazeera að þeir tækju áhættu með því að hafa fréttamann uppi á þaki að skýra frá atburðum þegar árásin var gerð á Bagdad. Skyndilega lækkar bandarísk herflugvél sig og stefnir í átt að byggingunni, höfuðstöðvum Al-Jazeera. Fréttamaðurinn fórst í árásinni. Varpað var sprengjum á 3 eða 4 aðrar fréttastofur, ef ég man rétt. Ekki kom bein afsökunarbeiðni en opinber yfirlýsing barst frá herliðinu, þar sem haldið var fram að vopnaðir hermenn hefðu verið á þakinu eða við næstu byggingu. Þetta náðist á filmu og ekki varð ég alltént var við þá vopnuðu hermenn sem sagt var frá. Átakanlegast var þó að sjá konu fréttamannsins, þegar hún sagði að maðurinnn sinn hefði dáið við að flytja heiminum sannleikann. Og hún bað þess að hann hefði ekki dáið til einskis, heldur bað hún að sannleikurinn yrði sagður umheiminum. Það vona ég að reynist rétt.
Næst sá ég heimildamyndina Alive in Limbo. Fjallar hún um líf paletínsks flóttafólks í flóttamannabúðum í Líbanon. Er þar aðallega talað við 3 ungmenni. 2 þeirra eru palestínkt flóttafólk en einn Líbani sem hefur liðið fyrir stríðsátök í heimalandinu. Í myndinni lýsa þau hvernig þau upplifa ástandið og segja frá vonum sínum og draumum. Myndin spannar tíu ár, frá 1993 til 2003. Við upphaf hennar stendur innrás Ísraelshers undir forustu Ariel Sharon, sem þá var hermálaráherra, yfir og lýsir myndin um leið stríðsglæpum hans og hersins og viðbrögðunum þegar herinn dró sig til baka. Kvikmyndafólkið heimsótti svo ungmennin aftur og sér afdrif framtíðardraumanna.
Þriðja myndin sem ég sá var hreint afbragð og e.t.v. besta myndin sem ég hef séð hingað til á hátíðinni. Það varFerðin langa eftir Vestur-Íslendinginn Sturlu Gunnarsson. Myndin gerist í Indlandi 1971 þegar Indira Ghandi er við völd. Allt landið logar í ófriði og stjórnvöld eru gjörspillt. Aðalpersónan er bankastarfsmaður sem má muna meiri allsnægtir frá því þegar Bretar voru við völd. Hann glímir við breytta heimsmynd og átök í heimalandi sínu en einnig á eigin heimili. Myndin er tekin upp ,,on location” í Indlandi, Bombay að mig minnir.
Loks sá ég myndina The World´s Saddest Music eftir Vestur-Íslendinginn Guy Maddin. Hún er byggð á skáldsögu eftir Kazuo Ishiguro, sem einnig reit Remains of the day. Hún gerist á kreppuárunum í Winnipeg. Bjórverksmiðjueigandinn Lady Port-Huntley (Isabella Rosselini) heldur alþjóðlega keppni um hvaða þjóð eigi terafyllstu tónlist í heimi. Þetta er mjög sérstök mynd. Myndin er í senn afar fyndin og gáskafull en hins vegar dramatísk og tregafull og skartar mjög sérstökum og furðulegum persónum. Mér þótti myndin flétta þessum hughrifum vel saman. Það sem mér fannst sérlega skemmtilegt við myndatökuna er að hún er gerð eins og myndin væri ca. áttræð, svarthvít á gamaldags filmu. Þá minnti óvenjuleg myndatkan mig oft á þýskan expresjónisma, ekki síst þá ágætu mynd Das Cabinett Des Dr. Caligari.
Dagskrána má svo nálgast á www.filmfest.is, í Háskólabíói og Regnboganum, aftan á sætum í strætó og eflaust á ýmsum kaffihúsum. Það vona ég að fólk skelli sér og að myndirnar megi veita þeim sama fróðleik og sömu ánægju og þær hafa veitt mér.
sunnudagur, nóvember 14, 2004
Mér þykir utanríkisráðherra aldeilis hafa skitið á sig í skýrslu sinni um utanríkismál og þeim umræðum sem spruttu af henni. Fjallað er um það á bls. 10 í Morgunblaðinu ífyrradag.
Þar viðrar hann m.a. þá hugmynd að Íslendingar ÞJÁLFI ÍRASKAR ÖRYGGISSVEITIR.
Mér hitnaði í hamsi og seti að mér óhug við þessi orð og ekki batnaði það eftir því sem ég las áfram. Kjaftæðið, hrokinn og ósvífnin var meiri en ég gat þolað. Enn á að mála mynd af Bandaríkjastjórn sem frelsandi englum og sagðist Davíð vera áhyggjufullur vegna andstöðu manna á Bandaríkjastjórn. Skyldi nokkur furða sig á henni þegar um ræðir ríkisstjórn sem hefur byggt stjórnartíð sína á svikum og blekkingum, sýnt fádæma virðingarleysi í alþjóðamálum og birt alþjóðalög og mannréttindi af vettugu. Ef maður skyggnist heim sér maður svo ríkisstjórn sem flekkar þjóð sína blóði saklausra borgara í Írak með stuðningi við ólögmætt stríð að henni og þingi forspurðri og gera okkur samsek um dauða 100.000 manns. Utanríkisráðherra segir að átökin í Írak snúist „í rauninni ekki um dvöl erlends herliðs í landinu heldur hvort komið verði á lýðræðislegri stjórnskipan“ og talar um „meinfýsishlakkandi úrtölumenn“. Þvílík ósvífni! Ímyndar utanríkisráðherra sér að menn sem hafa mótmælt stríði sem hefur í för með sér blóðbað, undirokun og eymd HLAKKI yfir ástandinu? Hann ímyndar sér sumsé að við fögnum mannlegri þjáningu?
Svo hvetur hann til stuðnings við bráðabirgðastjórnina, þessa morðhunda sem skipuð var af náðugri ríkisstjórn hins frjálsa heims. Allri gagnrýni er svo svarað á sama hátt: „Saddam er vondur“. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað, eins og skáldið sagði.
Einnig fjallar hann um málefni Ísraels og Palestínu eftir að Arafat er fallinn frá og leggur ábyrgðina alla á Palestínumenn að það séu þeir sem hindra friðarumræður. Til þess að Palestínumenn geti gengið að samningaborðum þarf fyrst að aflétta hernámi og rífa helvítis múrinn. Ariel Sharon og ríkisstjórn hans hefur ekki sýnt að það sé vilji fyrir því. Sharon hefur vissulega talað um það en aðgerðir segja meira en orð. Hann segist ætla að rýma landtökubyggðir en hefur einungis verið að treysta tök sín á Vesturbakkanum.
Bandaríkjastjórn hefur heldur ekki sýnt hingað til annað en að hún fylgi Ísraelsstjórn og Zíonistum að máli og það er fyrst nýlega að ég sé Blair og Bush í sjónvarpinu, talandi um að þeir vilji „hjálpa með að byggja upp frjálst lýðræðislegt Palestínuríki“. Einhvern vegin er ég skeptískur á „hjálp“ Bandaríkjamanna, ef ég á að miða út frá hvernig þeir hafa „hjálpað“ Afgönum og Írökum. Við sjáum nú hversu mikið Gósenland hefur skapast þar. Sé þetta hjálp þeirra vil ég varla sjá þá þegar þeir reyna að skemma fyrir fólki. „Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti“ mælti Jón Hreggviðsson.
Bush gerði úr því skóna að þeir yrðu að halda í strengi til að landið félli ekki í hendur hryðjuverkamönnum. Þeir eru sumsé ekki færir um að gera þetta sjálfir. Það þarf alheimslögregluna til. Stóri bróðir fylgist með þér, félagi Napóleon hefur alltaf rétt fyrir sér.
Já, mörg loforð og stór orð eru notuð til að blekkja lýðinn og reyna að vinna hylli hans. Nú er að bíða og sjá hvort menn standi við þau.
laugardagur, nóvember 13, 2004
Fjöldamorð í Fallujah
Ég er bálvondur eftir að hafa fylgst með fréttaflutningi af blóðbaðinu í Fallujah í ríkisútvarpinu í dag. Ég á í raun erfitt með að tjá kenndir mínar í orðum. Meðal þess sem angraði mig var að nánast einungis var talað við talsmenn Bandaríkjahers og heimildir fáum við því eingöngu frá þeim og þeirra sjónarhorn. Lesendur geta gert sér í hugarlund hversu skýra og hlutlæga mynd við fáum af ástandinu þar. Hvers vegna var ekki rætt við talsmenn andspyrnunnar? Kannski að skýringin sé sú að það er búið að djöfulgera þá eins og virðist raunar vera málið með araba og múslima yfir höfðuð.
Í fréttinni var annars vegar talað um „þjóðvarðlið“ en hinir hins vegar „skæruliðar og „hryðjuverkamenn“. Það er greinilegt hverjir eiga að vera góðir og hverjir vondir í þessari baráttu. Svo kemur lýsing á hörmungarástandi en maður gæti fengið á tilfinninguna að það sé allt „serknesku hundunum að kenna“. Ekki síst þegar þessu fylgir svo frétt af mannræningjum.
Fréttastofan hefur greinilega sýnt hvern það styður. Það fetar svo hina hárfínu línu að tala um „hryðjuverkamenn”, segir ekki með beinum orðum að allir séu þeir hryðjuverkamenn til að vera nú „politically correct“ en maður skilur fyrr en skellur í tönnum. Hvernig væri að nefna hlutina réttum nöfnum? Flest er þetta fólk sem berst í örvæntingu gegn hernámsliði Bandaríkjamanna sem hefur rænt þá landinu, menn sem lifa við kúgun og undirokun þeirra og leppstjórnarinnar, menn sem þrá frelsi og að hörmungunum linni í landi þeirra. Leppstjórnin var skipuð af Bandaríkjamönnum og er til staðar til að þjóna hagsmunum þeirra. Hundrað þúsunda manns eru nú taldir hafa fallið í Írak eftir að stríðið hófst. Því er ekki lokið og lýkur ekki á meðan landið er hersetið. Hvernig á hersetið land að geta verið frjálst? Bandaríkjastjórn kallar alla frelsisbaráttumenn hryðjuverkamenn og segja að þeir séu að reyna að tryggja lýðræði. Ekki hlusta á hvað þeir segja heldur hvað þeir gera! Þeir tala fjálglega um frelsi á meðan þeir stunda fjöldamorð í Fallujah. Sagt er að 600 hermenn fallið og við vitum ekki um tölur myrtra borgara en getum ímyndað okkur að það sé há tala miðað við það sem á hefur gengið. Allir vopnfærir menn teknir höndum! VopnFÆRIR. Óbreyttir borgarar sem GÆTU hleypt af byssu. Leit á Sky News þar sem var fjallað um þetta, fréttamaðurinn hljómaði sem væri hann nokkuð hallur á hægri væng en myndir af staðnum sögðu langt um meira en mörg orð. Hér má sjá nokkrar. Íslenskir fjölmiðlar eru gagnsýrðir af áróðri Bandaríkjastjórnar, éta upp það sem þeir segja og reyna svo að mata lýðinn, eða réttara sagt heilaþvo hann. Sorglegast þykir mér hve margir trúa lyginni.
Ég tek ofan fyrir Þráni Berterlssyni sem fer enn á ný á kostum í grein sem birtist á baksíðu Fréttablaðsins miðvikudaginn 10. nóvember. Hún nefnist „Friðarins menn?“.
miðvikudagur, nóvember 10, 2004
þriðjudagur, nóvember 02, 2004
Hugleiðingar um forsetakosningar í Bandaríkjunum
Í dag eru forsetakosningar í Bandaríkjunum. Maður er á báðum áttum, eða réttara sagt á hvorugri. Því ég hef hvorki velþóknun á George Bush né John Kerry, sem virðast ætla að berjast um hásætið. En myndi mikið breytast ef Kerry kæmist til valda? Mér þykir nokkuð greinilegt að Kerry sé betur gefinn en Bush (Bush hefur reyndar nóg af haukum til að hugsa fyrir sig) en stefna þeirra virðist ekki svo ólík. Fremur virðist það vera spurning um útfærslu. John Kerry er einnig öflugur talsmaður í ,,baráttu gegn hryðjuverkum”, tengsl hans við Bandaríska iðnjöfra eru einnig sterk, hann styður Ísraela í baráttu þeirra og Palestínumanna, m.ö.o. hann mun styðja Ariel Sharon og félaga hans sem vilja viðhalda stríði. Hann hefur svipaða stefnu í málefnum Írak, en hefur þó sagt að hann vilji meira samstarf milli þjóða. Read: að Bandaríkin geti hafi meiri áhrif á þær þjóðir.
Mér þykir það sorgleg tilhugsun að það er ekki ólíklegt að atkvæðafjöldi muni ekki ráða úrslitum. Al Gore fékk fleiri atkvæði en Bush. En þá komu sér vel þær úreltu talningavélar sem voru í ýmsum fylkjum, sambönd og klíkuskapur sem fengu fram endurtalningu á endurtalningu ofan til að þæfa málið sem lengst uns hæstiréttur úrskurðaði George Bush forseta. Við það bætist að það er ekki beint lýðræði í kosningum, því fyrst eru kjörmenn kosnir sem svo kjósa forseta. Að ógleymdum þeim þúsundum atkvæða sem ,,týndust”.
Ég sel myndbandið með meintum Osama Bin Laden ekki dýrara en ég keypti það. Það lyktar langar leiðir af óhreinu mjöli. Það kom á einkar heppilegum tíma. Eins og alltaf. Undarlegt hvernig svona myndbönd birtast alltaf þegar hentar best núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna. George Bush, rétlætisriddarinn fyllist þá fanatískum eldmóði og jarmar um samstöðu og traust. Maður sem hefur byggt stjórnartíð sína á lygum, svikum og blekkingum og verið aktífur að skerða mannréttindi eigin þjóðar og undiroka eigin þegna sem og hertekin lönd og leppríki. Og hvernig það virkar til að beina augum almennings frá ringulreið og ódæðum stjórnarinnar. Og þegar upp kemst um það þarf enginn að borga brúsan nema fórnarlömbin.
Nú hef ég séð þetta myndband og lesið það sem þar mun verið að segja.
Í þessu myndbandi sést maður, sem á að vera Osama Bin Laden játa í fyrsta skipti aðild sína að árásunum 11. september og útskýra orsakir þeirra. Hvers vegna fyrst núna, ef hann hefur neitað því áður? Svo hefur hann áróður gegn Bush, ,,auga fyrir auga, tönn fyrir tönn”. Einhvern veginn náði hann ekki að sannfæra mig. Kannski af því að þetta er einstaklega klisjukennt, mér er nær að segja formúlukennt og hljómar ekki eins og eitthvað sem ég myndi ímynda mér að Osama Bin Laden myndi segja. Fremur hljómar þetta eins og einhver hafi skrifað niður nákvæmlega þau orð sem eiga að koma sér vel fyrir Bush.
Þetta er nefninlega öfug sálfræði af ódýrustu gerð. Osama Bin Laden að segja Bandaríkjamönnum að kjósa ekki Bush. ,,Ok. Osama, þá gerum við það ekki, heldur kjósum Kerry. Gerum eins og góði hryðjuverkaleiðtoginn segir okkur.” Slíkur hefur verið áróðurinn gegn manninum að menn hugsa Osama í sömu andrá og ömmu skrattans. Og ef þeir fara ekki eftir hollráðum Osama frænda, hvern kjósa þeir þá, hmm?
Fjölmiðlar éta upp eftir hvor öðrum að Osama Bin Laden hóti nýjum árásum. Ekki varð ég var við það. Og fullyrða að sjálfsögðu að þetta sé hann, en skýla sér á bak við aðra fréttaskýrendur.
Á morgun, þegar ég vakna verður búið að kjósa forseta. Þangað til býð ég ykkur góða nótt.