Mér þykir utanríkisráðherra aldeilis hafa skitið á sig í skýrslu sinni um utanríkismál og þeim umræðum sem spruttu af henni. Fjallað er um það á bls. 10 í Morgunblaðinu ífyrradag.
Þar viðrar hann m.a. þá hugmynd að Íslendingar ÞJÁLFI ÍRASKAR ÖRYGGISSVEITIR.
Mér hitnaði í hamsi og seti að mér óhug við þessi orð og ekki batnaði það eftir því sem ég las áfram. Kjaftæðið, hrokinn og ósvífnin var meiri en ég gat þolað. Enn á að mála mynd af Bandaríkjastjórn sem frelsandi englum og sagðist Davíð vera áhyggjufullur vegna andstöðu manna á Bandaríkjastjórn. Skyldi nokkur furða sig á henni þegar um ræðir ríkisstjórn sem hefur byggt stjórnartíð sína á svikum og blekkingum, sýnt fádæma virðingarleysi í alþjóðamálum og birt alþjóðalög og mannréttindi af vettugu. Ef maður skyggnist heim sér maður svo ríkisstjórn sem flekkar þjóð sína blóði saklausra borgara í Írak með stuðningi við ólögmætt stríð að henni og þingi forspurðri og gera okkur samsek um dauða 100.000 manns. Utanríkisráðherra segir að átökin í Írak snúist „í rauninni ekki um dvöl erlends herliðs í landinu heldur hvort komið verði á lýðræðislegri stjórnskipan“ og talar um „meinfýsishlakkandi úrtölumenn“. Þvílík ósvífni! Ímyndar utanríkisráðherra sér að menn sem hafa mótmælt stríði sem hefur í för með sér blóðbað, undirokun og eymd HLAKKI yfir ástandinu? Hann ímyndar sér sumsé að við fögnum mannlegri þjáningu?
Svo hvetur hann til stuðnings við bráðabirgðastjórnina, þessa morðhunda sem skipuð var af náðugri ríkisstjórn hins frjálsa heims. Allri gagnrýni er svo svarað á sama hátt: „Saddam er vondur“. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað, eins og skáldið sagði.
Einnig fjallar hann um málefni Ísraels og Palestínu eftir að Arafat er fallinn frá og leggur ábyrgðina alla á Palestínumenn að það séu þeir sem hindra friðarumræður. Til þess að Palestínumenn geti gengið að samningaborðum þarf fyrst að aflétta hernámi og rífa helvítis múrinn. Ariel Sharon og ríkisstjórn hans hefur ekki sýnt að það sé vilji fyrir því. Sharon hefur vissulega talað um það en aðgerðir segja meira en orð. Hann segist ætla að rýma landtökubyggðir en hefur einungis verið að treysta tök sín á Vesturbakkanum.
Bandaríkjastjórn hefur heldur ekki sýnt hingað til annað en að hún fylgi Ísraelsstjórn og Zíonistum að máli og það er fyrst nýlega að ég sé Blair og Bush í sjónvarpinu, talandi um að þeir vilji „hjálpa með að byggja upp frjálst lýðræðislegt Palestínuríki“. Einhvern vegin er ég skeptískur á „hjálp“ Bandaríkjamanna, ef ég á að miða út frá hvernig þeir hafa „hjálpað“ Afgönum og Írökum. Við sjáum nú hversu mikið Gósenland hefur skapast þar. Sé þetta hjálp þeirra vil ég varla sjá þá þegar þeir reyna að skemma fyrir fólki. „Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti“ mælti Jón Hreggviðsson.
Bush gerði úr því skóna að þeir yrðu að halda í strengi til að landið félli ekki í hendur hryðjuverkamönnum. Þeir eru sumsé ekki færir um að gera þetta sjálfir. Það þarf alheimslögregluna til. Stóri bróðir fylgist með þér, félagi Napóleon hefur alltaf rétt fyrir sér.
Já, mörg loforð og stór orð eru notuð til að blekkja lýðinn og reyna að vinna hylli hans. Nú er að bíða og sjá hvort menn standi við þau.
sunnudagur, nóvember 14, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli