Hugleiðingar um forsetakosningar í Bandaríkjunum
Í dag eru forsetakosningar í Bandaríkjunum. Maður er á báðum áttum, eða réttara sagt á hvorugri. Því ég hef hvorki velþóknun á George Bush né John Kerry, sem virðast ætla að berjast um hásætið. En myndi mikið breytast ef Kerry kæmist til valda? Mér þykir nokkuð greinilegt að Kerry sé betur gefinn en Bush (Bush hefur reyndar nóg af haukum til að hugsa fyrir sig) en stefna þeirra virðist ekki svo ólík. Fremur virðist það vera spurning um útfærslu. John Kerry er einnig öflugur talsmaður í ,,baráttu gegn hryðjuverkum”, tengsl hans við Bandaríska iðnjöfra eru einnig sterk, hann styður Ísraela í baráttu þeirra og Palestínumanna, m.ö.o. hann mun styðja Ariel Sharon og félaga hans sem vilja viðhalda stríði. Hann hefur svipaða stefnu í málefnum Írak, en hefur þó sagt að hann vilji meira samstarf milli þjóða. Read: að Bandaríkin geti hafi meiri áhrif á þær þjóðir.
Mér þykir það sorgleg tilhugsun að það er ekki ólíklegt að atkvæðafjöldi muni ekki ráða úrslitum. Al Gore fékk fleiri atkvæði en Bush. En þá komu sér vel þær úreltu talningavélar sem voru í ýmsum fylkjum, sambönd og klíkuskapur sem fengu fram endurtalningu á endurtalningu ofan til að þæfa málið sem lengst uns hæstiréttur úrskurðaði George Bush forseta. Við það bætist að það er ekki beint lýðræði í kosningum, því fyrst eru kjörmenn kosnir sem svo kjósa forseta. Að ógleymdum þeim þúsundum atkvæða sem ,,týndust”.
Ég sel myndbandið með meintum Osama Bin Laden ekki dýrara en ég keypti það. Það lyktar langar leiðir af óhreinu mjöli. Það kom á einkar heppilegum tíma. Eins og alltaf. Undarlegt hvernig svona myndbönd birtast alltaf þegar hentar best núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna. George Bush, rétlætisriddarinn fyllist þá fanatískum eldmóði og jarmar um samstöðu og traust. Maður sem hefur byggt stjórnartíð sína á lygum, svikum og blekkingum og verið aktífur að skerða mannréttindi eigin þjóðar og undiroka eigin þegna sem og hertekin lönd og leppríki. Og hvernig það virkar til að beina augum almennings frá ringulreið og ódæðum stjórnarinnar. Og þegar upp kemst um það þarf enginn að borga brúsan nema fórnarlömbin.
Nú hef ég séð þetta myndband og lesið það sem þar mun verið að segja.
Í þessu myndbandi sést maður, sem á að vera Osama Bin Laden játa í fyrsta skipti aðild sína að árásunum 11. september og útskýra orsakir þeirra. Hvers vegna fyrst núna, ef hann hefur neitað því áður? Svo hefur hann áróður gegn Bush, ,,auga fyrir auga, tönn fyrir tönn”. Einhvern veginn náði hann ekki að sannfæra mig. Kannski af því að þetta er einstaklega klisjukennt, mér er nær að segja formúlukennt og hljómar ekki eins og eitthvað sem ég myndi ímynda mér að Osama Bin Laden myndi segja. Fremur hljómar þetta eins og einhver hafi skrifað niður nákvæmlega þau orð sem eiga að koma sér vel fyrir Bush.
Þetta er nefninlega öfug sálfræði af ódýrustu gerð. Osama Bin Laden að segja Bandaríkjamönnum að kjósa ekki Bush. ,,Ok. Osama, þá gerum við það ekki, heldur kjósum Kerry. Gerum eins og góði hryðjuverkaleiðtoginn segir okkur.” Slíkur hefur verið áróðurinn gegn manninum að menn hugsa Osama í sömu andrá og ömmu skrattans. Og ef þeir fara ekki eftir hollráðum Osama frænda, hvern kjósa þeir þá, hmm?
Fjölmiðlar éta upp eftir hvor öðrum að Osama Bin Laden hóti nýjum árásum. Ekki varð ég var við það. Og fullyrða að sjálfsögðu að þetta sé hann, en skýla sér á bak við aðra fréttaskýrendur.
Á morgun, þegar ég vakna verður búið að kjósa forseta. Þangað til býð ég ykkur góða nótt.
þriðjudagur, nóvember 02, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli