Fjöldamorð í Fallujah
Ég er bálvondur eftir að hafa fylgst með fréttaflutningi af blóðbaðinu í Fallujah í ríkisútvarpinu í dag. Ég á í raun erfitt með að tjá kenndir mínar í orðum. Meðal þess sem angraði mig var að nánast einungis var talað við talsmenn Bandaríkjahers og heimildir fáum við því eingöngu frá þeim og þeirra sjónarhorn. Lesendur geta gert sér í hugarlund hversu skýra og hlutlæga mynd við fáum af ástandinu þar. Hvers vegna var ekki rætt við talsmenn andspyrnunnar? Kannski að skýringin sé sú að það er búið að djöfulgera þá eins og virðist raunar vera málið með araba og múslima yfir höfðuð.
Í fréttinni var annars vegar talað um „þjóðvarðlið“ en hinir hins vegar „skæruliðar og „hryðjuverkamenn“. Það er greinilegt hverjir eiga að vera góðir og hverjir vondir í þessari baráttu. Svo kemur lýsing á hörmungarástandi en maður gæti fengið á tilfinninguna að það sé allt „serknesku hundunum að kenna“. Ekki síst þegar þessu fylgir svo frétt af mannræningjum.
Fréttastofan hefur greinilega sýnt hvern það styður. Það fetar svo hina hárfínu línu að tala um „hryðjuverkamenn”, segir ekki með beinum orðum að allir séu þeir hryðjuverkamenn til að vera nú „politically correct“ en maður skilur fyrr en skellur í tönnum. Hvernig væri að nefna hlutina réttum nöfnum? Flest er þetta fólk sem berst í örvæntingu gegn hernámsliði Bandaríkjamanna sem hefur rænt þá landinu, menn sem lifa við kúgun og undirokun þeirra og leppstjórnarinnar, menn sem þrá frelsi og að hörmungunum linni í landi þeirra. Leppstjórnin var skipuð af Bandaríkjamönnum og er til staðar til að þjóna hagsmunum þeirra. Hundrað þúsunda manns eru nú taldir hafa fallið í Írak eftir að stríðið hófst. Því er ekki lokið og lýkur ekki á meðan landið er hersetið. Hvernig á hersetið land að geta verið frjálst? Bandaríkjastjórn kallar alla frelsisbaráttumenn hryðjuverkamenn og segja að þeir séu að reyna að tryggja lýðræði. Ekki hlusta á hvað þeir segja heldur hvað þeir gera! Þeir tala fjálglega um frelsi á meðan þeir stunda fjöldamorð í Fallujah. Sagt er að 600 hermenn fallið og við vitum ekki um tölur myrtra borgara en getum ímyndað okkur að það sé há tala miðað við það sem á hefur gengið. Allir vopnfærir menn teknir höndum! VopnFÆRIR. Óbreyttir borgarar sem GÆTU hleypt af byssu. Leit á Sky News þar sem var fjallað um þetta, fréttamaðurinn hljómaði sem væri hann nokkuð hallur á hægri væng en myndir af staðnum sögðu langt um meira en mörg orð. Hér má sjá nokkrar. Íslenskir fjölmiðlar eru gagnsýrðir af áróðri Bandaríkjastjórnar, éta upp það sem þeir segja og reyna svo að mata lýðinn, eða réttara sagt heilaþvo hann. Sorglegast þykir mér hve margir trúa lyginni.
Ég tek ofan fyrir Þráni Berterlssyni sem fer enn á ný á kostum í grein sem birtist á baksíðu Fréttablaðsins miðvikudaginn 10. nóvember. Hún nefnist „Friðarins menn?“.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli