Handbendi Shin Beit
Nýútkomin bók hefur verið áberandi í bókabúðum og verið auglýst víða, en hún nefnist "Sonur Hamas" og er eftir Mosab Hassan Yousef, son Sheikhs Hassan Yosef, eins af stofnendum Hamas.
Fram kom á vefnum að Mosab, sem kristnir zíonistar eru núna sérlega duglegir að hampa sem hetju, snerist frá Hamas til kristni en lét sér það ekki nægja, heldur hóf að starfa með ísraelsku innanríkisleyniþjónustunni, Shin Beit.
Sumir hafa reyndar efast um að Yosef sé heill í stuðningi sínum við ísraelsk yfirvöld og leiki jafnvel tveimur skjöldum, nú eða að hann hafi verið þvingaður til þessa, í kjölfar þess að hann var handtekinn af ísraelum. Um það skal ég ekkert segja, en hann heldur því alltént fram opinberlega að hann hafi snúist af hugsjónaástæðum.
Ég get hins vegar ekki losnað við tilfinninguna að annarlegur ásetningur kunni að vera að baki þessari útgáfu og spyr mig hvaða hagsmunum hún þjónar. Finnst eins og útgáfa hennar sé ekki síst til að ala á einhæfri mynd og ýta undir fyrirfram gefnar hugmyndir. Þá vekur tímasetningin einnig grunsemdir. Seint yrði ég kallaður hrifinn af Hamas, og held að gagnrýnin sem þeir fá kynni svo sannarlega að eiga rétt á sér. Eins væri áherslan á að Ísraelar séu ekki allir vondir rétthá, þó það nú væri. En að ætla að skella allri skuld á andspyrnuna en engri á hernámsliðið þykir mér vafasamt í meira lagi.
Ég veit ekki mikið um þýðandann, annað en að hann heldur úti þættinum "ljós í myrkri" á Omega. Hef ekki staðfest hvort hann sé zíonisti, en mann skyldi ekki undra.
Ef sonur Sitting Bull hefði sagt skilið við andpyrnu Sioux-indíána og gengið til liðs við bandaríska riddaraliðið sem uppljóstrari, með þeim rökum að Sioux-indíánar væru hryðjuverkamenn sem flettu höfuðleður af hvítum, á sama tíma og hinir hvítu teygðu sig æ lengra yfir á landsvæði indíána og sviku loforð um verndarsvæði, hefðu þá indiánar fremur átt að álíta hann hetju eða svikara?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli