Það er hætt við að það gefi falska mynd af ástandinu þegar talað er um "stríðið við Ísraelsmenn" þannig að mynd fáist af sem tveimur tiltölulega jafnvígum herjum sem berjast sín á milli.
Herkvíin sem Gaza er í er stríðsaðgerð í sjálfu sér og hernámið sjálft ólöglegt, ef út í það er farið, en það vill oft hverfa í bakgrunn fjölmiðlaumræðu, eins og þetta tvennt, sem og landtökur á Vesturbakkanum eða í Austur-Jerúsalem séu status quo sem ekkert sé athugavert við.
Er hægt að kalla það stríð, af hálfu Palestínumanna, heimagerðar eldflaugar, sem verða þegar mest lætur 1-3 til bana á ári, auk þess að valda eyðileggingu, í samanburði við einn öflugasta her heims? Palestínumenn eiga í andspyrnu við hernámslið sem hefur alla tilveru þeirra í hendi sér og vopnin sem þeir sjálfir hafa eru á borð við áðurnefndar eldflaugar, riffla og sprengjubelti. Þeir eiga engar herflugvélar, skriðdreka eða herskip.
Taka skal fram að árásir sem bitna á óbreyttum borgurum eru stríðsglæpur, og á þetta jafnt við eldflaugaárásir og land- og loftárásir, sem og sjálfsmorðsárásir. 1400 manns sem féllu í árásarhrinu Ísraela á Gaza versus 13 Ísraelar segir þó sína sögu. Einnig má geta þess að "Hamas-liði" er vítt hugtak, þar sem Hamas heldur ekki bara úti vopnuðum armi heldur hefur einnig úti víðu félagslegu neti, skólum, spítulum o.fl. þannig að sjúkraflutningamaður eða leikskólakennari sem drepinn er af Ísraelsher gæti allt eins flokkast sem "Hamas-liði" án þess að það þurfi að þýða að viðkomandi sé vígamaður.
"sem titlaður er innaríkisráðherra Hamas" (leturbreytingar mínar)?
Hver er tilgangurinn með þessu tvíræða orðalagi? Er hann þá ekki jafnframt innaníkisráðherra PALESTÍNUMANNA?! Það er sem ég sjái RÚV tala um "Mahmoud Abbas, sem titlaður er forseti Fatah".