föstudagur, febrúar 25, 2005

George Harrison hefði orðið 62 ára í dag, hefði hann lifað. Blessuð sé minning hans.
Fór með nafna mínum á leiksýninguna Að eilífu á Herranótt í gær. Gaman að hitta liðið, ég fylltist nostalgíu. Ég þakka kærlega fyrir góða sýningu.

Á morgun hyggst ég svo sjá Komin til að sjá og sigra sem Talía, leikfélag MS setur upp. Sýningin er byggð á Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu og fékk 4 stjörnur af 5 á leiklistarvefnum. Aðrar sýningar eru laugardaginn 5. mars, og fimmtudaginn 17. kl. 8 og laugardaginn 19. kl. 8

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Hafi það einhvern tíman ekki verið nógu skýrt, þá mælist ég til þess að fólk skrifi undir nafni ef það vill tjá sig á síðunni minni. Annars les ég það ekki.

laugardagur, febrúar 12, 2005

Jæja, nú er það menningarsagan, History of the United States, þarf að komast yfir allav. 8 síður í viðbót í kvöld, ansi seinlesið. Er að lesa um Nixon núna.

Gerði kjarakaup í fyrradag er ég keypti safndisk með Comedian Harmonists á spottprís í 12 tónum. Lætur það unaðslega í eyrum. Sah ein Knab ein Röslein sthe’n/Röslein auf die Heide...

Annað gaman, Eddie Izzard er væntanlegur aftur til lands í mars og verður með uppistand á Broadway. :) Ég fagna því. Ég þangað. Verða e-ð 800 miðar í boði.
Mér leiðist samt þegar tónleikar eða uppistand er á litlum stöðum, þó svo að Broadway sé nú með stærri skemmtistöðum, en þetta er maður sem hefur fyllt hljómleikasali, einn vinsælasti og besti skemmtikraftur heims í dag og má því búast við að miðarnir rjúki upp á stuttri stundu. Ég hef oft rekið mig á að missa af góðum tónleikum/uppistandi/óperu vegna fárra miða sem hafa verið seldir snemma og e-ir með nógu marga frípunkta eða þeir sem versla við ákveðið fyrirtæki hafa haft forgang.
Ég minnist þess að í fyrra stóð í blaðinu að verið væri að reyna að fá Tom Waits til landsins. Svo heyrði maður ekkert meira af því. Svo segir Mark að það HAFI verið tónleikar á e-um litlum stað en það bar svo lítið á því að þetta fór framhjá flestum. Þessu mætti líkja við: . Þessu mætti líkja við: „...já, til gamans má geta að Bob Dylan treður upp á Gauknum í kvöld...“ Það þarf vart að taka fram hversu mjög mig hefði langað á þessa tónleika.

Ég er byrjaður að lesa The Curious Incident of the Dog in the Nighttime og líst nokkuð vel á hana.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Vegna fjölda fyrirspurna og áskorana var bætt við 5 aukasýningum á leikritinu Þú veist hvernig þetta er sem Stúdentaleikhúsið sýnir. Lokasýning er á sunnudaginn. Sækja þarf miða fyrir sex á sýningardegi. Látið þessa stórgóðu sýningu ekki framhjá ykkur fara.

Ég lauk fyrir nokkrum dögum við Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez. Ég var afar heillaður af henni og þykir ekki furða að Marquez hafi fengið Nóbelsverðlaun, hafandi lesið þessa bók.
Þar næst las ég MAUS eftir Art Spiegelman. Þar segir hann sögu föður síns, sem var pólskur gyðingur og hvernig hann lifði stríðið og helförina. Bókin segir tvær sögur, annars vegar frá lífsreynslu föðurins, Vladek og hins vegar frá erfiðu sambandi hans og Art. Sagan er sögð í myndasöguformi, þar eru gyðingar teiknaðir sem mýs og Þjóðverjar kettir. Einstaklega áhrifamikil lesning.
Nú er ég að velta fyrir mér hvað ég les næst, er sem með langan lista af bókum en sá á kvölina sem á völina...

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Annað magnað rit er Resistance to Civil Government (a.k.a. Civil Disobedience) eftir Henry David Thoreau. Lásum það í amerískum bókmenntum. Holl og mannbætandi lesning og hafði djúpstæð áhrif á mig. Þeim sem nenna ekki eða geta ekki rölt út í búð til að kaupa sér þetta öndvegisrit eða farið á bókasafnið bendi ég á http://www.vcu.edu/engweb/transcendentalism/authors/thoreau/civil/ , þar sem finna má greinina í heild sinni.

föstudagur, febrúar 04, 2005


Uri Avnery skrifar enn eina magnaða grein þar sem hann fjallar hann fjallar um ástandið í Palestínu, mögulegt vopnahlé Palestínu og Ísraels og hvað það myndi hafa í för með sér.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Ég vona að sem flestir hafi séð Death in Gaza, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu áðan. Ég náði að sjá seinni hlyta hennar. Myndin er bresk og veitir innsýn í daglegt líf flóttafólks í Rafa, syðst á Gazaströndinni. Það var óneitanlega erfitt að horfa á hana og kynnast hörmungunum sem fólk býr við hvern dag. Skelfingunni, óttanum reiðinni og hatrinu sem býr í fólkinu vegna þjáningananna sem eru fastur liður í daglegu lífi þeirra og ofsóknanna sem það þarf að þola.
Talað var við börn og fullorðna, maður horfði á stórvirkar vinnuvélar leggja heimili fólks í og sá fólk hætta lífi sínu til að kasta grjóti í þær. Maður sá menn, konur og börn myrt af ísraelskum hermönnum og palestínsk börn með handsprengur. Einnig var fjallað um trú Palestínumanna á píslarvættið og sigur í dauðanum. Minnistæð eru orð eins skæruliðans um drenginn Ahmed sem hjálpaði þeim: „Ef það væri ekki stríð gengju Ahmed og félagar hans í skóla og lærðu að verða nýtir þjóðfélagsþegnar. En því miður er stríð svo þeir verða að læra að berjast fyrir föðurlandið”. Umfram allt lýsir myndin örvæntingu þessa fólks. Annar leikstjóranna, James Miller var myrtur af ísraelskum hermönnum á meðan gerð myndarinnar stóð. Hann náði aldrei að mynda og tala við ísraelsk börn. Enginn hefur enn verið dreginn til ábyrgðar fyrir morðið, píslarvottunum fjölgaði um einn en tökufólkið missti félaga sinn, og fjölskylda hans missti ástvin, rétt eins og fjölskyldur þeirra Ísraela og Palestínumanna sem hafa fallið í átökunum og falla enn.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.