Saknaðarljóð
Mér finnst hafa vaxið vandi
versnað allra kjör.
Burt af okkar litla landi
lagðir þú í för.
Þó ég sjálfur hugann hafi
hjá þér ástin mín.
Á því lengur enginn vafi
allir sakna þín.
Döpur ský í hlíðum hanga
í húsum slokkna ljós.
Blómálfar með vota vanga
verma hnípna rós.
Sveipuð dökkum silfurröndum
sumarnóttin dvín.
Einhversstaðar úti í löndum
ertu, stúlkan mín.
Ár til sjávar ennþá renna
aftur dagur rís.
Fuglar ungum flugið kenna
framtíðin er vís.
Glóa rósir gulli fegri
glitrar lindin tær.
Þær væru eflaust yndislegri
ef þú værir nær.
Þú ert okkur bundin böndum
við bíðum eftir þér.
Þó þú unnir öðrum löndum
áttu rætur hér.
Þú átt fullt af vildarvinum
við þér gæfan skín.
Ásamt mér og öllum hinum
Ísland bíður þín.
-- Hákon Aðalsteinsson, Oddrún, 1995.
miðvikudagur, september 09, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli