fimmtudagur, júní 25, 2009

Að forsendum slepptum

Rétt í þessu heyrði ég á RÚV að starfsfólk fréttatímans hefðu leitað bankalegs álits á Icesave-deilunni, “að pólitísku, siðferðislegu og lagalegu áliti slepptu” (orðað eftir minni mínu).
Þá er nú búið að setja helvíti mikinn fyrirvara, þykir mér, en kannski viðeigandi, þar sem ekki er að sjá að siðferði, lög eða pólitískur fýsileiki (allav. til langs tíma litið) hafi verið sett í fyrsta sæti þegar fræjunum var sáð fyrir þessa stöðu.
Þannig varð mér hugsað til ummæla Halldórs Laxness um Stalín í Skáldatíma:

“Það verður aldrei tölum talið hvað Stalín var skrýtinn maður; - og skemtilegur ef öll siðferðisvandlætíng er látin lönd og leið; í rauninni ekki ólíkur einhvers konar þussa" (leturbreytingar mínar).

miðvikudagur, júní 24, 2009

Þessir Rómverjar eru klikk!

...

Annars er gaman að geta þess að ég á tvær vísur um pólitíkina í Vísnahorninu í Laugardagsmogganum, en þær hafa áður birst hér á blogginu ("Icesave").

miðvikudagur, júní 17, 2009

Köttur í sekk

Skáldum tekst oft öðrum fremur að komast að kjarna hlutana, eða þá að orða hlutina betur en flestir aðrir. Stundum er það inspírasjón, stundum er það hreinlega gífurleg þolinmæði sem þarf til þess að slípa og finna besta orðalagið. Gjarnan er þetta blanda af þessu tvennu.

Oft hefur verið vitnað til orða Arnae Arnae í Íslandsklukkunni við Úffelen. ég ætla að gera það líka. Mér til varnar segi ég að ég tel þessi orð eiga jafn mikið ef ekki hreinlega meira við í dag en þegar þau voru skrifuð á stríðsárunum (þar að auki hef ég þó alltént lesið bókina sem er meira en margir tilvitnendur gera, þó ég hafi nú satt að segja ekki lesið ýkja mikið annað eftir Laxness, utan slatta af smásögum hans og ljóð, nokkuð sem ég hyggst bæta):

„Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því í armslengd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess. Ef varnarlaus smáþjóð hefur mitt í sinni ógæfu borið gæfu til að eignast mátulega sterkan óvin mun tíminn gánga í lið með henni eins og því dýri sem ég tók dæmi af. Ef hún í neyð sinni játast undir tröllsvernd mun hún gleypt í einum munnbita. Ég veit að þið hamborgarmenn munduð færa oss íslenskum maðklaust korn og ekki telja ómaksvert að svíkja á oss mál og vog. En þegar á Íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barinn þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima."

Jónas E. Svafár yrkir svo árið 1967:

Klettabelti fjallkonunnar

ráðherra viðskiptanna telur
að vegurinn til velgengi sé
að fórna efnahag og sjálfstæði
með köldu blóði eins og þorskur

sá frumstæði í forsætinu segir
að trúin á landið sé lík
og trúin á stokk og steina

þeir nota gjaldeyri ríkiskassans
til að drepa niður framleiðsluna

þeir eru að reisa við erlenda stjórn
yfir klettabelti fjallkonunnar


og 1962:

Efnahagsmál

hleypur kvikfjárræktin af sér hornin
yfir hersveitir landbúnaðarins

setja hraðfrystihúsin við sjávarútveginn
heimsmet í fjárdrætti á hlaupareikning

græðir verzlunin sóttkveikjurnar
þegar grefur í gjaldþrota verðbólgu

hittir iðnaðurinn naglann á höfuðið
með fjárfestingu líkkistunnar


Ég óska Evu Joly annars alls hins besta og vona að íslenskir kerfiskallar og kellingar geti andskotast til að leifa henni að vinna við viðunandi aðstæður til að ráða fram úr þessu helvítis fokking fokki fremur en að reyna að nota hana sem einhvers konar hljóða puntbrúðu.

Gleðilega þjóðhátíð.

mánudagur, júní 08, 2009

Icesave

Ég hvet fólk til að koma niður á Austurvöll núna og ganga til liðs við mótmælendur gegn Icesave-samningnum.

Hér eru tvær vísur sem ég orti í dag:

Icesave-skuldum íslenskir
óvíst valda.
Búast má við byltingu
búsáhalda.

Hvort mun þjóð á Fróni frjáls?
Í frera hrærist vagga.
Kornabarni hýru' um háls
hengjum skuldabagga.

laugardagur, júní 06, 2009

Ræða Obama í Kaíró: Nokkur sjónarmið frá friðar- og réttindabaráttufólki

Uri Avnery skrifar á Gush Shalom: The Tone and the Music.

Ali Abunimah skrifar á Electronic Intifada: Obama in Cairo: A Bush in Sheep's Clothing?.

Medea Benjamin skrifar einnig á Electronic Intifada: Obama Should Visit Gaza.

fimmtudagur, júní 04, 2009

"Everything was beautiful and nothing hurt" -- Kurt Vonnegut

Ég er kominn heim eftir frábæra kórferð á Snæfellsnes.
"Vitjað hef ég á vinamót / á vinamót sem á mér sér /reynt af mörgum hýrlegt hót / og vel sé þeim sem veitti mér" -- Hallgrímur Pétursson

Eftir að hafa gengið milli Heródesar og Pílatusar í endalausu tækniveseni við að reyna að prenta BA-ritgerðina mína út er ég nú loks búinn að binda um alla hnúta. Hef skilað ritgerðinni, hún er prentuð og útbundin og ég útskrifast 20. með fyrstu einkunn og 9 fyrir BA_ritgerðina. Ritgerðin er komin upp í skemmu. Nú á ég svo sannarlega skilið einn kaldan.

Í ritgerðinni minni, The Madness of Sanity: A Study of Kurt Vonnegut's Mother Night, rannsaka ég skáldsöguna Mother Night eftir Kurt Vonnegut í ljósi spurninga um ábyrgð, sjálf og siðferðislegan geðklofa, meðvitund og sjálfsblekkingu. Ég færi rök fyrir því að að tilraunir aðalpersónunnar, Howard W. Campbell yngri til að halda sönsum við gefnar aðstæður (hann er njósnari fyrir Bandaríkin í Þriðja ríkinu) kunni vel að vera nokkurs konar geðveiki. Ég skoða enn fremur hárfín skilin milli þess sem gæti virst andstæður,eins og geðheilsu og geðveiki, og hvernig Vonnegut sýnir firringu, hvernig menn blokkera eða búa til múr þar á milli, t.d. milli tilfinninga annars vegar og skynsemi og samvisku hins vegar. Á meðan þessi eiginleiki getur verið af hinu góða undir vissum kringumstæðum, þá getur hann líka haft skelfilegar afleiðingar, eftir því hvernig menn breyta eftir honum. Ég held því fram í ritgerðinni að Campbell sé afbragðs dæmi um þetta þema og Vonnegut sé hér að benda á tvíræðni þess að þröngva vitund eða samvisku út í horn, ekki beinlínis þannig að maður þurki þær út en allav. þannig að maður ýti þeim nógu langt frá sér til að geta gert hluti sem séu andstæðir þeim. Ég held því fram í ritgerðinni að Vonnegut sé með þessu að benda á afar mannlegan þátt sem býr með okkur öllum, og minni okkur á að taka ekki skynjun okkar á hlutunum sem gefinni. Þessi þáttur er sérlega mikilvægur í ljósi reynslu Vonneguts í seinni heimsstyrjöldinni, þegar hann upplifði það að landar hans í Bandaríska flughernum jöfnuðu Dresden við jörðu, þar sem hann var þá stríðsfangi.
Á endanum tel ég að þessi þáttur og innri og ytri áhrif hans sé það sem skiptir máli, fremur en hvort þátturinn sé góður eða slæmur í sjálfu sér. Ég tel að allir hafi getu til að breyta svipað og Campbell og fleiri sögupersónur bókarinnar gera, án þess að það hreinsi hann eða okkur af ábyrgð á gjörðum okkar eða aðgerðaleysi (því ég held að bæði hafi, þegar allt kemur til alls, áhrif á umheiminn).

Einhliða fréttaflutningur?

Af hverju fæ ég á tilfinninguna að "öfgasinnaðir múslimar" séu fyrst og fremst þeir sem segja ekki jájá og lof sé Allah við ummælum Obama?

Ritdómur Kristjáns Albertssonar um BA-ritgerðina mína (með eilitlum lagfæringum)*

Kristjáns Albertsson skrifar (með eilitlum lagfæringum) um ritgerðina mína: "Loksins, loksins, tilkomumiki(l) (BA-ritgerð), sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenzk(ra) (ritgerða) síðustu ára! Ísland hefir eignazt ný(an) stór(ritgerðarsmið), það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði. (Einar Steinn Valgarðsson) hefir ritað þessa (BA-ritgerð sína) á 2(5.). aldursári sínu. Ég efast um að það komi fyrir einu sinni á aldarfjórðungi að (höfundur) á þeim aldri semji jafn snjallt verk og þessi (ritgerð) hans er. Á 64. gráðu norðlægrar breiddar hefir það aldrei fyr gerzt".

*Upprunalegur dómur Kristjáns, (fyrir lagfæringar mínar) fjallaði um Vefarann mikla frá Kasmír eftir Halldór Kiljan Laxness. Ég fékk aftur á móti 9 fyrir ritgerðina mína.

miðvikudagur, júní 03, 2009

Samdi áðan örljóð sem ég tel að lýsi flestu fremur krísu 21. aldar mannsins.


Tölvuóður

Kommon
Vertu nú næs
AAAARRRGGGHHH!

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.