fimmtudagur, júní 04, 2009

"Everything was beautiful and nothing hurt" -- Kurt Vonnegut

Ég er kominn heim eftir frábæra kórferð á Snæfellsnes.
"Vitjað hef ég á vinamót / á vinamót sem á mér sér /reynt af mörgum hýrlegt hót / og vel sé þeim sem veitti mér" -- Hallgrímur Pétursson

Eftir að hafa gengið milli Heródesar og Pílatusar í endalausu tækniveseni við að reyna að prenta BA-ritgerðina mína út er ég nú loks búinn að binda um alla hnúta. Hef skilað ritgerðinni, hún er prentuð og útbundin og ég útskrifast 20. með fyrstu einkunn og 9 fyrir BA_ritgerðina. Ritgerðin er komin upp í skemmu. Nú á ég svo sannarlega skilið einn kaldan.

Í ritgerðinni minni, The Madness of Sanity: A Study of Kurt Vonnegut's Mother Night, rannsaka ég skáldsöguna Mother Night eftir Kurt Vonnegut í ljósi spurninga um ábyrgð, sjálf og siðferðislegan geðklofa, meðvitund og sjálfsblekkingu. Ég færi rök fyrir því að að tilraunir aðalpersónunnar, Howard W. Campbell yngri til að halda sönsum við gefnar aðstæður (hann er njósnari fyrir Bandaríkin í Þriðja ríkinu) kunni vel að vera nokkurs konar geðveiki. Ég skoða enn fremur hárfín skilin milli þess sem gæti virst andstæður,eins og geðheilsu og geðveiki, og hvernig Vonnegut sýnir firringu, hvernig menn blokkera eða búa til múr þar á milli, t.d. milli tilfinninga annars vegar og skynsemi og samvisku hins vegar. Á meðan þessi eiginleiki getur verið af hinu góða undir vissum kringumstæðum, þá getur hann líka haft skelfilegar afleiðingar, eftir því hvernig menn breyta eftir honum. Ég held því fram í ritgerðinni að Campbell sé afbragðs dæmi um þetta þema og Vonnegut sé hér að benda á tvíræðni þess að þröngva vitund eða samvisku út í horn, ekki beinlínis þannig að maður þurki þær út en allav. þannig að maður ýti þeim nógu langt frá sér til að geta gert hluti sem séu andstæðir þeim. Ég held því fram í ritgerðinni að Vonnegut sé með þessu að benda á afar mannlegan þátt sem býr með okkur öllum, og minni okkur á að taka ekki skynjun okkar á hlutunum sem gefinni. Þessi þáttur er sérlega mikilvægur í ljósi reynslu Vonneguts í seinni heimsstyrjöldinni, þegar hann upplifði það að landar hans í Bandaríska flughernum jöfnuðu Dresden við jörðu, þar sem hann var þá stríðsfangi.
Á endanum tel ég að þessi þáttur og innri og ytri áhrif hans sé það sem skiptir máli, fremur en hvort þátturinn sé góður eða slæmur í sjálfu sér. Ég tel að allir hafi getu til að breyta svipað og Campbell og fleiri sögupersónur bókarinnar gera, án þess að það hreinsi hann eða okkur af ábyrgð á gjörðum okkar eða aðgerðaleysi (því ég held að bæði hafi, þegar allt kemur til alls, áhrif á umheiminn).

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.