föstudagur, maí 09, 2008

Lifi varnarmálin!!!

Auk lögregluofbeldis gagnvart mótmælendum og ofsókunum gagnvart þeim (Saving Iceland, Falun Gong, einhver?) er áhersla á aukna vígvæðingu innan NATO, frekari samvinna með hernámsliðinu í Afghanistan, heræfingar hérlendis og eftirlitsflugvélar sveimandi yfir, allt til að verja okkur fyrir einhverri óáþreifanlegri ímyndaðri ógn, auk ákalla um að gera lögregluna grárri fyrir járnum, en þeir eru óhugnarlega margir sem klæjar í fingurna eftir pyntinga – og mögulega drápstólum í formi teisera.

Mér verður í því sambandi hugsað til Simpson-fjölskyldunnar:

Bart: Wow! Can I see your club?
Eddie: It's called a baton, son.
Bart: Oh. What's it for?
Lou: We club people with it.


Bara svo að það sé á hreinu: Aukin vígvæðing er ekki að fara að stöðva hryðjuverk. Þau hryðjuverk sem ekki eru ríkishryðjuverk eru skæruhernaður sem verður ekki sigraður með vopnavaldi. Ísrael ræður t.a.m. yfir einhvejum öflugasta her í heimi en ekki hefur það stöðvað eldflauga- og sjálfsvígsárásir.

Til að kóróna allt saman ætlar Condoleezza Rice að koma hingað til lands. Það var svo sem auðvitað að dagsetning væri ekki gefin upp, það er varla nein tilvijun, aðeins sagt "síðar í mánuðinum". Ég ætlaði fyrst varla að trúa því, en á hinn bóginn er það svo sem í anda þess að fá hingað kóna eins og Li Peng, George Bush, Michael Rubin og fleiri. Það held ég að bölvuð truntufýlan og félagar hennar ættu betur heima sitjandi í réttarsal stríðsglæpadómstólsins í Haag heldur en þiggjandi kaffi og lummur með íslenskum ráðamönnum. Vilja menn ekki bara bjóða Tvöfaltvaffi og Cheney líka? Þá myndi aðeins vanta fjórða mann í bridge. Ef ég væri Ólafur Ragnar myndi ég þó vara mig á að bjóða Cheney á skytterí. Hann gæti ruglast á forsetanum og grágæs.
Það er óvíst að ég verði hérlendis þegar hún kemur en hvað sem öðru líður er ég alltént vel byrgur af tómötum, eggjum og kókoshnetum.

Menn gátu stöðvað umferð til að mótmæla bensínverði og hvíldartíma. Hvernig væri nú að fólk brygðist við með róttækum hætti þegar Condoleezu Rice og hennar líkum er boðið hingað til lands? Væri það alveg snargalið? Eða eru stríðsglæpamenn og morðingjar í jakkafötum kannski guðvelkomnir hingað? Geta bara skellt sér í Bláa lónið, skoðað Gullfoss, Geysi og Kárahnjúkavirkjun og kynnst hinu óviðjafnanlega íslenska næturlífi; fengið sér eitt stykki Dirty Weekend in Iceland?

Mér finnst það glæsilegt hjá Stefáni Pálssyni að bjóða sig fram til formanns nýstofnaðrar Varnarmálaskrifstofu (eins asnaleg og mér finnst nú slík stofnun) og trúi því að hann yrði afbragð í starfi. Eins og Vésteinn bróðir orðaði það þegar við ræddum þetta þá gæti skynsöm ríkisstjórn ekki annað en ráðið hann.
Þar óttast ég hins vegar að hundur liggi grafinn. Ég vona að mér skjátlist.

...

Ég er farinn vestur á Patreksfjörð og verð þar um helgina. Sný aftur á mánudag. Eigið góða helgi.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.