sunnudagur, apríl 06, 2008

Tónleikar

Hananú. Þá er verið að flytja Paul Simon til landsins. Það er gott og blessað og ég kynni alveg að fara á tónleika með honum, nema þá kannski fyrir þá sök að það verður eflaust hunddýrt á þá.
Það er virðist hins vegar nokkur lenzka nú í seinustu tíð að flytja inn eldri hetjur sem langt er liðið síðan að áttu sín mektarár, hversu góðar sem þær eru nú. Gjarnan eru þetta líka tónlistarmenn sem eru frægastir fyrir veru sína í hljómsveitum sem þeir eru ekki lengur í. Roger Hogdon úr Supertramp, Paul Simon úr Simon & Garfunkel, John Fogerty úr Creedence Clearwater Revival. Söngvarinn úr Uriah Heep og Uriah Heep án gamla söngvarans. Bíddu, áttu Rolling Stones ekki annars að koma einhverntíman til landsins? Það var byrjað að tala um það á 7. áratugnum að þeir væru “alveg að koma”.
Ef flytja á inn inn gamalgróna tónlistarmenn væri ég t.d. alveg til í að fá Stóns, Judas Priest, AC/DC og Tom Waits.
Eins þætti mér vænt um að fá hingað sveitir á borð við Radiohead og Smashing Pumpkins. Það væri flott að fá Apocalypticu á Listahátíð.

Nú er svo spurningin: Á maður að fara á Rufus Wainwright? Það sem ég hef heyrt með honum hefur mér þótt mjög gott en finnst engu að síður hunddýrt á tónleikana.

Ég á minningartónleika um Bergþóru Árnadóttur í gær. Ég verð að játa það að ég var ekkert kunnugur tónlist hennar áður utan 2-3 lög kannski. Kristján bauð mér, og ég þakka aftur fyrir mig. Tónleikarnir voru frábærir, sannarlega falleg stund, og jafnt því að hrífast af ljóðunum sem hún samdi lög sín við og tónlistinni fannst mér tónlistarmenn sem fluttu lögin hennar afbragð. Mér varð hugsað til ömmu, eins og Bergþóra var lengi eina konan sem var vísna- og söngvaskáld var amma lengi eina konan sem var tónskáld á Íslandi. Báðar bjuggu þær líka yfir þeirri náðargáfu að geta fangað anda ljóðanna sem þær sömdu við í tónlistinni. Það er sannarlega ekki öllum gefið. Ég keypti mér í kjölfarið 5-diska safnið hennar.

Ég hef mestmegnis verið að hlusta á lagið Frá liðnu vori, Svavar Knútur flutti það á tónleikunum en á Bergmáli er það Ólafur Þórarinsson, “Labbi”. Ætli þetta sé ekki lagið sem snart mig hvað dýpst af þeim sem ég hlýddi á á tónleikunum. Bæði ljóðið eftir Tómas Guðmundsson, lag Bergþóru og flutningurinn, allt er þetta yndislegt og ég má til með að skella ljóðinu hér:


Frá liðnu vori

Fyrir þennan glugga hef ég gengið mörgum dögum,
hef gengið þar að morgni dags, en oftar seint á kvöldin.
Og hikandi ég beið þess þá, að bærðust gluggatjöldin,
og brjóst mitt hefur skolfið af þungum æðaslögum.
 
Og hvítir armar birtust, og hjartað brann af gleði,
og hjartað brann af sorg, ef þeir fólu sig í skuggann.
Því hún var bara fimmtán ára og fyrir innan gluggann
og fallegust af öllu því, sem nokkru sinni skeði.
 
Og vorið kom í maí, eins og vorin komu forðum,
með vængjaþyt og sólskin og næturkyrrð og angan.
Og kvöld eitt niðri á bryggju hún kyssti mig á vangann.
Það kvöld gekk lítið hjarta í fyrsta sinn úr skorðum.
 
Já, skrítið er að hafa verið ungur eini sinni,
og að það skuli hafa verið þessi sami heimur.
Því þá var bara heimurinn handa okkur tveimur,
og hitt var bara ástin, sem brann í sálu minni.
 
Og stundum enn, er byrjar að vora um vesturbæinn,
mér verður á að reika þangað einsömlum á kvöldin.
En aldrei framar hvítir armar hreyfa gluggatjöldin,
og húsið verður sjálfsagt rifið einhvern næsta daginn.


-- Tómas Guðmundsson

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.