Ég fékk það staðfest hjá Golla, mér til ánægju, að leikstjóri ísraelsku kvikmyndarinnar "Heimsókn hljómsveitar", sem sýnd er á Græna ljósinu, sé andstæðingur hernámsins. Þetta þykja mér sannarlega gleðifréttir, því mér sýnist þetta afar áhugaverð mynd og get ég nú farið á hana í bíó með góðri samvisku. Ég hef ekki fengið svipaða staðestingu um leikstjóra Beaufort, og þykir einhvern veginn ólíklegra að svo sé, en komi það á daginn skal ég alveg greiða aðgang að henni. Þangað til mun ég annað hvort sniðganga hana eða redda mér henni með öðrum hætti. Sá galli er á niðurhali af netinu er að hún verður þá væntanlega textalaus á hebresku.
Uri Avnery skrifar góða grein þar sem hann rekur uppruna og sögu gyðinga, og reynir að greina sagnfræði frá goðsögnum. Hann veltir fyri sér stöðu ísraela í dag og brýnir mikilvægi þess að gera greinamun á þessu tvennu til að ísraelar geti fundið sér stað meðal nágranna sinna og átt eðlileg samskipti við þá. Greinin nefnist The Lion and the Gazelle.
Uppfært kl. 18:26, samdægurs:
Mér þykir frétt að Mahmoud Abbas sé staddur hér á landi og muni funda með Ingibjörgu Sólrúnu á morgun. Miðað við heimsókn Ingibjargar til Ísraels og Vesturbakkans þá geri ég mér þó engar gyllivonir um að mikið komi út úr þeim fundi. Ég vonast hins vegar til þess að Sveinn Rúnar, formaður Íslands-Palestínu geti hitt Abbas að máli. Fyrirvarinn er hins vegar stuttur, svo ekki er víst að það náist.
Mér er engin launung á því að mér þykir Abbas gjörspilltur quislingur, sem hefur svikið þjóð sína og gerst samverkamaður hernámsins. Á hinn bóginn er hann enn löglega kjörinn fulltrúi þjóðar sinnar og mér þykir betra að haft sé samband við hann en engan, en auðvitað þykir mér að hafa þurfi samband við löglega kjörna leiðtoga Palestínu og þá fulltrúa hennar sem eiga fylgi að fagna, og því þýðir ekki að hundsa Hamas. Mér þykir líka besta mál að mannréttindamál beri á góma, en spyr mig hvort eigi ekki jafnt yfir aðra leiðtoga að ganga. Báru mannrétindamál mikið á góma í samræðum Ingibjargar Sólrúnar og Condoleezu Rice? Nú, eða á Nato-fundinum? Spyr sá sem ekki veit.
Talandi um það, þá erþetta ekki ný frétt, það er langt síðan að fulltrúar Hamas lýstu yfir þessari afstöðu. Það hefur hins vegar ekki átt mikið upp á pallborðið hjá vestrænum fjölmiðlum að skýra frá þessu. Jafnvel Fatah gæti ekki farið fram á minna en Palestínuríki byggt á landamærunum 1967, og dirfist ekki heldur að gera annað, þar sem það er lágmarkið sem Palestínumenn geta sætt sig við. Það er líka í samræmi við viðhorf Sameinuðu þjóðanna og við alþjóðalög, þar sem hernámið er skilgreint sem ólöglegt. Við þetta má bæta að þátttaka í kosninugnum, sem grundvölluðust á Oslóar-samkomulaginu er de facto viðurkenning á Ísraelsríki. Ég minni einnig á að Ísrael hefur aldrei fallist á tilverurétt frjáls lífvænlegs Palestínuríkis.
Ég má til með að blása í eigin lúður í þessu samhengi og benda á grein sem ég skrifaði um þetta efni, bæði afstöðu Hamas, landráð Fatah, hvernig Ísraelsk stjórnvöld heltu olíu á eldinn og mikilvægi þess að rétt sé við lögmætt kjörna fulltrúa palestínsku þjóðarinnar undir nafninu "Að deila og drottna", en hún birtist í lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 28. júlí 2007.
Loks vil ég minna á að á miðvikudaginn, 23. apríl (ekki á morgun heldur hinn), munu Vésteinn bróðir og Rósa halda erindi í Friðarhúsi kl. 20:00, þar sem þau segja frá 6. Cairo-ráðstefnunni um frið og lýðræði í Mið-Austurlöndum, sem þau sóttu í lok mars sl. Eftir erindið verða umræður og spurningar. Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta.
mánudagur, apríl 21, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Reyndar mætti færa rök fyrir því að það að hala mynd af netinu endurgjaldslaust sé skaðlegra fyrir höfundinn en að sniðganga hana, þar sem þannig er verið að neita honum um aurinn. Ég myndi því einungis mæla með slíku í þremur tilfellum:
1: Efnið er gefið út ókeypis
2: Efnið hefur fallið úr höndum höfunda þannig að allur ágóði þess falli nú beinleiðis í vasa hvers þess fyrirtækis sem keypti réttinn (sbr. abandonware)
3: Þér er beinilínis illa við höfundinn en vilt sjá efnið fyrir forvitnissakir.
Í mínu tilviki er ég andvígur hernáminu og hef ekkert persónulegt á móti höfundi Beaufort. Ég er ósáttur við það ef hann styður hernámið eða vetir því þögult samþykki. Eins og er þekki ég ekki afstöðu hans. Ég er sæmilega forvitinn um myndina. Um leið og ég fæ staðfestingu þess að hann sé andvígur hernáminu skal ég með glöðu geði greiða fyrir áhorf. Sbr. áðurnefnda "Heimsókn hljómsveitar".
Skrifa ummæli