fimmtudagur, september 20, 2007

Tónleikar fyrir Palestínu í kvöld - Fimmtudaginn 20. sept. á Organ

16.09.2007 Tónleikar fyrir Palestínu fara fram á Organ, Hafnarstræti 1-3, í kvöld, fimmtudaginn 20. september. Þar koma fram hljómveitirnar I Adapt, Skátar, Retro Stefson, For a Minor Reflection og >3 Svanvhít. Húsið opnar klukkan 20:30 og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00. Aðgangseyrir er 500 krónur og rennur allur ágóði til Neyðarsöfnun Félagsins Ísland-Palestína til handa íbúum Palestínu.
Nokkuð er um liðið síðan Félagið Ísland-Palestína hélt síðast tónleika þegar Reykjavík!, Seabear, Wulfgang, Mr. Silla og Shadow Parade léku á vel heppnuðum tónleikum á Grand rokk þann 25. maí í fyrra. Fjölmargar af fræknustu rokksveitum og listamönnum síðustu ára hafa leikið á Palestínutónleikum síðustu ár - og má þar nefna KK, Mugison, Múm, Jakobínarína og Ensími.
Á tónleikunum á fimmtudaginn koma fram fimm hljómsveitir - sem allar munu koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni í október. Til sölu verður varningur frá Nakta apanum og safndiskurinn Frjáls Palestína þar sem GusGus, Múm og Mugison eru meðal flytjenda.

Stöðvum múrinn!
Lögð verður áherslu á að safna fé fyrir fórnarlömb Aðskilnaðarmúrsins sem ísraelska hernámsliðið er að reisa á herteknu svæðunum - þvert á alþjóðalög, samþykktir Sameinuðu þjóðanna og úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag. Þúsundir Palestínumanna hafa misst lífsviðurværi sitt í kjölfar byggingu múrsins sem einangrar palestínskar byggðir og rænir ræktarlandi þeirra.
Þvert á það sem margir halda liggur múrinn ekki á landamærum Ísraels og palestínsku herteknu svæðanna - heldur á herteknu landi. Samkvæmt úrskurði Alþjóðadómstólsins ber Ísraelsmönnum að hætta byggingu múrsins þegar í stað, rífa þá hluta hans sem þegar hafa verið reistir og greiða fórnarlömbum hans skaðabætur. Aðildaríki Sameinuðu þjóðanna eiga að sjá til þess að úrskurðinum sé framfylgt - og er Ísland þar á meðal.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.