sunnudagur, mars 04, 2007

Játning

Ég er haldinn alvarlegri internetfíkn og þjáist af sleni. Sérlega er youtube-fíknin á alvarlegu stigi. Ég hef nýtt lesvikuna illa hvað varðar nám og hrýs hugur þegar ég horfi á allt sem ég þarf að vinna upp. Nú er því aðeins eitt að gera, spýta í lófana, og hrista af sér slenið: Reyna að halda sér að verki. Þetta verða því vísast til annasamir dagar á næstunni, takist mér að fylgja áætlun. Eins þarf ég að fara að hreyfa mig meira, svo ég breytist ekki í sveskju.* Borða meira af hollu fæði, taka lýsi og vítamín. Ég hugsa líka að ég drekki minna magn af öli á tyllidögum og fái mér sjaldnar öl á virkum dögum. Ég hugsa allav. að ég ætti fremur að reyna að vinna fyrir því. Ég fer þó alltént á forsýningu 300 á miðvikudaginn.
Hvers vegna er ekki hópur á Íslandi sem veitir aðstoð við youtube-fíkn, svona svipað og AA-samtökin?


*orðalag sem faðir minn notar gjarnan

2 ummæli:

Einar Steinn sagði...

Við þetta má bæta: Ég er svefnpurkur með eindæmum og ber ástríðufullt hatur til tölvuruslins á heimilinu. Á það meira að segja til að öskra á tölvuna í bræði minni og geðshræringu og hef sent henni morðhótanir, sem ég hef þó enn ekki staðið við, þar sem óknyttaróbótinn er á framfæri móður minnar. Sambúð mín og tölvunar hefur verið erfið, og hún hefur einnig þurft að þola andlegt og líkamlegt heimilisofbeldi af minni hálfu.

Einar/Baldvin sagði...

Fyndið

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.