laugardagur, mars 03, 2007

Ég brá mér á fyrirtaks fyrirlestur hjá Magnúsi Þorkatli* Bernharðssyni um ástandið í Írak fyrir nokkrum dögum. Hann var líka svo vænn að senda mér powerpoint-punktana og mælti með ýmsum góðum bókum sem horfðu á mismunandi þætti sem varða Írak.

Magnús þykir mér afbragðs fyrirlesari, en nú hef ég setið nokkra fyrirlestra hans og þykir það forréttindi að komast á fyrirlestra hjá honum, enda er hann einn helsti sérfræðingur Íslendinga í Mið-Austurlöndum, en hann er búsettur í Bandaríkjunum. Hann hefur gríðarlega þekkingu, vekur áhuga manns, veitir manni ný sjónarhorn og setur hlutina fram á greinagóðan hátt. Umræðurnar verða líka ofast áhugaverðar að lestri loknum, en það angraði mig nokkuð hvernig sumir „spyrjendur“ voru fremur að halda ræður og/eða besserwisserast, og tóku ekki tillit til allra hina sem voru á eftir þeim í röðinni. Vésteinn lánaði mér Píslarvotta nútímans og ég er líka forvitinn að lesa Reclaiming A Plundered Past. Mér þótti grábölvað að heyra að ég hefði misst af námskeiðinu sem Magnús var með, síðasti tíminn var þá daginn eftir.

Ég fékk annars bréf um daginn. Það var frá Zíon-Vinum Ísraels og innhélt þrjú eintök af Ísraelsfréttum. Eitt tölublaðið höfðu þeir áður sent mér. Nú man ég ekki til þess að hafa óskað eftir áskrift að blaðinu, en sýnist að eftir síðasta bréf, sem kom í kjölfar greinarinnar sem ég skrifaði í Moggann um ástandið á Gaza, hafi þeir um leið gert mig að áskrifanda að mér forspurðum.

Stuttu seinna hef ég fengið tvö rasista-e-mail, sem eru að reyna að sannfæra mig um illsku Islam. Grunar að það sé í einhverjum tengslum við bréfasendinguna.

Ég fékk líka áðan undarlegt símtal. Þegar ég svaraði heyrðist dimmur vélrænn ómur, svo ég álykta að annaðhvort hafi verið eitthvað að sambandinu eða að þetta hafi verið öfuguggavélmenni.

...and now for something completely different: Lag dagsins að þessu sinni er The Stealer með Free. Ég mæli með því að það sé spilað á góðum styrk.


*Ég kýs að beygja nafnið "Þorkell" eins og í Gísla sögu, hvenær sem ég fæ tækifæri til. Andaktungssérviska.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.