miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Af vel heppnuðum mótmælafundi, þjóðhátíðardegi Palestínu og óvæntum skoðanabróður.






Í dag er þjóðhátíðardagur Palestínu. Birti ég þessa mynd Naji ‘al-Ali af því tilefni.

Mótmælafundurinn í gær heppnaðist sérlega vel. Fundurinn með sendiherranum, fulltrúum stjórnmálaflokkanna og utanríkisráðherra átti upphaflega að vera í dag en var flýtt um einn dag. Fengum við að heyra að hann yrði í staðinn kl. 11 morguninn eftir, og höfðum við því 14 tíma til stefnu. Við létum skilaboð ganga eins og eld í sinu og um hundrað manns mættu með fána, skilti og borða á mótmælafundinn. Þar mátti finna áletranir á borð við “Frjáls Palestína, “Stöðvum barnamorðin”, „Alþjóðlega vernd fyrir Palestínu“, „Stöðvið stríðsglæpina“ og „Ísraelsher burt úr Palestínu“.

Það kom mér einnig skemmtilega á óvart að hægt hefði verið að fá fulltrúa sjónvarpsstöðvanna og blaða á staðinn, snemma morguns með ekki lengri fyrirvara.
Morgunblaðið greindi frá þessu sem og RÚV og Vísir.

Sveinn Rúnar og Ögmundur Jónsson ávörpuðu fundinn. Eldar minnti svo á dagsskrána um kvöldið, sem mér láðist reyndar að geta hér, en við sýndum heimildamyndina Gaza Strip í Alþjóðhúsinu. Þar flutti Sveinn Rúnar einnig erindi og hljómsveitin Retro Stefson lék nokkur lög.

Ég er þó ekki frá því að Elías Davíðsson hafi átt orð dagsins. Ég sé hann spjalla við einhvern mann sem ég þekkti ekki, þar sem Elías heldur á heimatilbúnu skilti á hebresku. Þeir glotta hver til annars er maðurinn spyr hvað standi á skiltinu:

Elías: „Það stendur: „Vertu velkomin hingað. Komdu og heimsóttu Bláa lónið!“
Maður: „Og bara upphrópunarmerki?“
Elías: „Það er fyrir Bláa lónið.“

Þegar hann var seinna spurður nánar hvað stæði þarna í raun svaraði hann að þar stæði: “Hypjaðu þig heim til þín, þjónn glæpamanna!”.

Sendiherrann laumaði sér út bakdyrameginn eftir að mótmælunum lauk, svo við náðum ekki að hitta hana. Skilaboðin voru hins vegar skýr. Ég tel góða mætinguna sýna að Íslendingar hafa samúð með þjáningum Palestínumanna og hryllir við glæpum Ísrelsríkis. Við kærum okkur ekki um aumar afsakanir talsmanns stríðsglæpamanna og morðingja.


Ef þið lesið kommentið við færsluna á undan má sjá að Vittorio Arrigoni, ítalskur mannrétttinda- og friðar-aktívisti, kommentaði við færsluna á ensku og bauð mér að skiptast á linkum. Stuðningsmaður réttinda Palestínumanna, eins og ég. Mér er það ánægja og heiður. Það er sélega ánægjulegt að finna slíkan samhug að fá óvænt skilaboð frá sér áður óþekktum baráttubróður á Ítalíu. Samstaðan gegn glæpum Ísraelsríkis og fyrir mannréttindum Palestínumanna er víða og slík skilaboð blása manni kapp í brjóst. Vittorio var fangelsaður í Ísrael í fyrra fyrir friðarbaráttu sína. Nú get ég ekki sagt að ég lesi ítölsku, þó ég hafi lært frönsku og latínu en eins og Vittorio segir í kommentinu segja myndirnar oft meira en mörg orð. Ef einhver getur skýrt nánar ítölskuna fyrir mér, væri það vel þegið.
Ég skelli því hlekk á síðuna til hægri, og mæli með því að þið tékkið á henni.

Lag dagsins á vel við, það er lagið Guðs útvalda þjóð með Egó af plötunni Í mynd, og læt ég textann fylgja hér:

Guðs útvalda þjóð

Líkt og forðum að heiðnum sið
að brenna menn á báli,
þeir herja á bæi, boða frið,
með glampa af ísraelsku stáli.

Í minningu milljóna gasdauðra manna,
réttlæta morð á nýfæddu barni.
Heiminum vilja sína og sanna
að þeir séu guðs útvaldi kjarni.

Limlestir búkar, neyðaróp,
fullorðin börnin ærir.
Logandi helvíti, sársaukahróp,
saklausir skotnir á færi.

Sandurinn geymir sólhvít bein,
ryðgaðar stríðsminjar.
Er ekkert eftir nema minningin ein,
í loftinu dauðann þú skynjar.

Í búðum flóttans lifir von
um frjálst Palestínuríki,
að þjóðin mun eignast einn daginn son,
sem mun birtast í friðar líki.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.