þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Nú skal segja, nú skal segja...



Í dag var síðasti vinnudagurinn minn. Ekki er ég þó alveg frjáls, því ég ætla að gera heiðarlega tilraun til að taka upp hljóðfræðiprófið. Grynt, mumle... Prófið lendir á afmælisdeginum minn, þann 22., en þá verð ég ein 22ggja ára. Viðeigandi, ekki satt?
Ég vona að dagsetningin sé fararheill. Fyrst og fremst verð ég að halda gífurlega vel á spöðunum, er ég hræddur um. Ekki get ég sagt að það hafi hingað til gengið neitt súper, hef svona rétt litið á þetta, en margt annað sem vekur fremur áhuga minn. Ach. Ég verð bara að taka eitt stykki Yoda á þetta. „Do or do not. There is no try.“
Ég rölti út á bókhlöðu áðan, en þá var lokað. Fökkíng hell. Það mun vera opið á virkum dögum til fimm. Þá verð ég að reyna að rubbast til að vakna snemma og nýta vel tímann. Mig langar að líta á menningarnótt en það fer víst eitthvað eftir því hvernig ég stend mig við lesturinn.

Bloggið mitt varð fyrir skömmu þriggja ára gamalt. Ég tek við hvers konar afmælisgjöfum í umboði þess. Þakka samfylgdina hingað til við lesendur þess og aðra sem hefur verið getið hér eða gleymst að geta á þessum þremur árum.

Vésteinn bróðir er kominn heim. Hélt hann fyrst á Kárahnjúka og dvaldist við Snæfell, fór svo á Wacken Open Air-metalhátíðina í Þýskalandi (þangað hef ég komið og var það vel) og hefur svo verið í Serbíu. Gott að fá hann heim, og hlakka til að heyra ferðasöguna, þykir ekki ólíklegt að hann bloggi henni.
Ég lauk um daginn við Skugga vindsins eftir Carlos Ruiz Zafón. Góð bók það. Bendi á ágætann
bókadóm Hörpu um hana. Ég tek undir með orðum hennar. Mér fannst sjálfum bókin ná mestu flugi í seinni hlutanum, sérstaklega þegar saga einstaklinga fléttast við Spánarstyrjöldina og hvernig andrúmsloftinu og áhrifum styrjaldarinnar á fólkið er lýst. Ég mæli heilshugar með þessari bók.
Ég er núna að lesa Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson og þykir hún feiknagóð og skemmtileg það sem á er liðið.
Skrapp í tvö kórpartý um helgina, fyrra hjá Þóri, seinna hjá Kristjáni. Mjög gaman í báðum, sem ætti svo sem ekki að koma á óvart, enda rokkar þessi kór feitast. Fyndnast var í partýinu hjá Kristjáni þegar hann hvaðst hafa orðið var við hrukku á enni Biddu og snaraði sér til að ná í hrukkukrem og fór að bera á enni á hennar. Ég held að Bidda hafi varla vitað hvað á hana stóð veðrið og ekki gott að sjá hvort henni væri fremur skemmt eða þætti þetta vandræðalegt, þó mér sýndist sitt af hvoru.
Þegar ég var að halda út í partýið hjá Kristjáni, henti mig skemmtilegt atvik. Útvarpið mit tkveikti á sjálfu sér, en það á þetta til, annaðhvort furðuleg stilling eða það er andsetið, þó fyrri skýringin sé e.t.v. líklegri, þykir mér seinni skemmtilegri. Flytur það þá af kasettu upplestur Tómasar Guðmundssonar á ljóði sínu Í Vesturbænum.
Þetta þótti mér afar skemmtilegt og vænt um. Ég staldraði því við, og hlýddi á það. Hafði bara kunnað fyrsta erindið. Áheyrnin var mér hreinasta unun og ekki spillti hve upplestur Tómasar var góður, mildur, þýður og skýr. Ununin jókst sífellt eftir því sem á leið lestrinum.
Mér fannst eitthvað táknrænt við þetta, nánast eins og útvarpið eða Tómas sjálfur væri að senda mérþessa kveðju. Ég hélt alsæll út í nóttina með gott veganesti. Ég vil birta þetta ljóð hér á síðunni, lesendum til yndisauka.

Í Vesturbænum

Það kvað vera fallegt í Kína.
Keisarans hallir skína
hvítar við safírsænum
En er nokkuð yndislegra
- leit auga þitt nokkuð fegra -
en vorkvöld í Vesturbænum?

Því þá kemur sólin og sezt þar.
Hún sígur vestar og vestar
um öldurnar gulli ofnar.
Og andvarinn hægir á sér.
ástfangin jörðin fer hjá sér
uns hún snýr undan og sofnar.

- - -
Hér gnæfir hin gotneska kirkja.
Hér ganga skáldin og yrkja
ástarljóð útyfir sæinn.
Og ungir elskendur mætast,
óskir hjartnanna rætast
er húmið hnígur á bæinn.

- - -
En sóldaginn sumarlangan
fer saltlykt og tjöruangan
um ströndina víða vega.
Úr grjótinu gægist rotta.
Og gömlu bátarnir dotta
í naustunum letilega.

En áður en sól skín á sjóinn
er síðasti karlinn róinn
og lengst út á flóa farinn.
Þar dorgar hann daga langa,
með dula ásýnd og stranga
og hönd, sem er hnýtt og marin.


- - -
En dóttirin? Hún er heima,
og hvað hana kann að dreyma
er leyndardómurinn dýri.
En mjallhvíta brjóstið bærist
og bros yfir svipinn færist
við örlítið ævintýri.

- - -
En dapurt er húmið á haustin.
Þá hópast vofur í naustin,
svo brakar hvert borð og þófta.
Og margur saklaus svanni
sat þar með ungum manni
og flýði í fang hans af ótta.

En þó að þagni hver kliður
og þó að draumró og friður
leggist um allt og alla,
ber hjarta manns svip af sænum,
sem sefur framundan bænum
með öldur sem óralangt falla.

Því særinn er veraldarsærinn,
og sjálfur er Vesturbærinn
heimur sem kynslóðir hlóðu,
með sálir sem syrgja og gleðjast
og sálir sem hittast og kveðjast
á strönd hinnar miklu móðu.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.