fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Hvað er að gerast í Líbanon og Palestínu?
- Dr. Jón Ormur Halldórsson stjórnmálafræðingur fjallar um ástandið"Þetta áframhaldandi hernám í Palestínu kallar sífellt á meira og meira ofbeldi, sífellt meira róttækni í röðum Líbana og Palestínumanna og þannig heldur þetta áfram" segir Dr. Jón Ormur Halldórsson stjórnmálafræðingur í einkar fróðlegu viðtali í Pressunni á NFS, sunnudaginn 30. júlí. "Þetta er held ég þessi grundvallarmiskilningur í öllu þessu í sjónarmiðum Bandaríkjamanna og annara sem styðja stefnu Ísraels, það að líta á hryðjuverk sem meginvandann. Það er bara ekki þannig. Það eru tiltölega fáir sem deyja í hryðjuverkum í Mið-Austurlöndum. Það eru miklu fleiri sem deyja úr óbeinum afleiðingum ástandsins, það er að segja hernámsins. Fólk sem kemst ekki á spítala, fólk sem kemst ekki í skóla, fólk sem á ekki fyrir mat og á ekki fyrir lyfjum og svo framvegis. Þar er mannfall."

Dr. Jón Ormur Halldórsson er einn helsti sérfræðingur okkar Íslendinga í málefnum Mið-Austurlanda. Jón Ormur er með doktorspróf frá Háskólanum í Kent, Bretlandi og hefur kennt í háskólum á Íslandi og Bretlandi og starfað við rannsóknir í menntastofnunum í Singapore og Danmörku. Eftir að hafa unnið um nokkurra ára skeið fyrir ýmsar stofnanir í Evrópu og á Íslandi starfað hann sem ráðgjafi Gunnars Thoroddsen (Sjálfstæðisflokkur) þegar hann gengdi embætti forsætisráðherra Íslands 1980-83. Hann hefur einnig unnið sem blaðamaður og dagskrágerðarmaður í sjónvarpi og útvarpi, og til skamms tíma vann hann við skipulag þróunaraðstoðar í Indlandi og Afríku. Jón Ormur starfar nú sem dósent í alþjóðaviðskiptum við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Meginvandinn er hernámið
Í þessu 15 mínútna langa viðtali á NFS útskýrir Jón Ormur hvað sé að gerast í Líbanon, ástæður árása Ísraelshers á landið, markmið aðgerða hersins og fer stuttlega yfir sögu Hizbollah og veru palestínskra flóttamanna í Líbanon. "Meginvandinn er hernámið. Ef Ísraelsmenn hættu hernámi sínu á Vesturbakka Jórdan og Gazaströndinni þá væri hægt að laga ástandið. Það er alveg ljóst. Það er deginum ljósara. Það er bara þetta áframhaldandi hernám, sem gerir það að verkum....þetta er eins og sumir hafa lýst raunverulega sem krabbamein á Mið-Austurlöndum því þetta hefur áhrif út um allt." Sjá má viðtalið á Vef TV Visir.is með því að fara inn á Þættir > NFS > Pressan > Ástandið í Líbanon. Eða smella beint á slóðina: http://veftivi.visir.is/veftivi/main.do?treeId=19031&progId=21589&itemId=17807!

Tilbúin handrit
Jón Ormur skrifar jafnframt grein um manninn sem fyrirskipaði árásirnar á Líbanon. "Ehud Olmert er einn tiltölulega fárra manna sem hefur orðið forsætisráðherra í Ísrael án þess að eiga að baki feril sem hryðjuverkamaður eða sem skipuleggjandi þjóðernishreinsana. Hann hefur þó notið margvíslegra tengsla við gamla hryðjuverkamenn allt frá unga aldri. Annar fyrrum forsætisráðherra, Menachem Begin, hafði mætur á hinum unga Ehud en Begin stjórnað Irgun-samtökunum sem drápu hundruð palestínskra borgara. Eini tilgangur með þeim morðum var að hræða Palestínumenn til að flýja land og í flóttamannabúðir eins og þær sem Ehud er að sprengja í tætlur í Líbanon. Þrátt fyrir náin tengsl við hryðjuverkamenn á Ehud hins vegar við ákveðinn ímyndarvanda að glíma í Ísrael. Yfirgangsöm stefna hans sem borgarstjóri í Jerúsalem hefur kostað þúsundir fjölskyldna heimili og lífshamingju en honum er þó ekki treyst eins vel og gömlu hryðjuverkamönnunum. Einu refsiverðu glæpirnir sem hann hefur verið sakaður um í Ísrael er fjármálaspilling og mútuþægni sem hann hefur annað veifið sætt rannsóknum fyrir. Þess vegna skiptir öllu máli fyrir hann að vera ekki sakaður um linkind." Greinina má finna hér:
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060726/SKODANIR01/107260077/1003/THRJU!

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.