Árásum Ísraelshers á Líbanon mótmælt!
- mótmælastaða við bandaríska sendiráðið á morgun, föstudag kl. 17:30
Um heim hefur fólk mótmælt árásum Ísraela á Líbanon. Samtök herstöðvarandstæðinga munu standa fyrir mótmælastöðu hér á landi fyrir framan bandaríska sendiráðið á morgun, föstudaginn 28. júlí kl. 17:30. Í ályktun frá samtökunum segir; "Samtök herstöðvaandstæðinga skora á ríkisstjórn Íslands að fordæma mannréttindabrot Ísraels í Líbanon og beita sér fyrir því að þau verði stöðvuð tafarlaust. Á hverjum degi berast nýjar fregnir af voðaverkum Ísraelshers í Líbanon og þeim hörmungum sem loftárásir hafa leitt yfir íbúa þessa stríðshrjáða lands (...) Og meðan athyglin beinist að Líbanon hefur Ísraelsstjórn aftur hafið árásir á Palestínumenn á Gaza."
Hernaðaraðgerðir Ísraelsstjórnar eru skýlaust brot á alþjóðasamningum og 33. grein Genfarsáttmálans sem segir; „Óheimilt er að refsa vernduðum manni vegna verknaðar sem hann hefur ekki framið sjálfur. Bannaðar eru hóprefsingar og hverskonar hótanir og hermdarverk. Rán og gripdeildir eru með öllu bannað. Bannaðar eru hefndaraðgerðir gegn vernduðu fólki og eignum þess.“
Skorað er á íslenskt stjórnvöld að taka afstöðu gegn stríðsrekstrinum með skýrum hætti; "Bandaríkjastjórn hefur komið í veg fyrir að fjölþjóðleg ráðstefna í Róm krefðist þess að vopnahlé yrði komið á. Bretland og Þýskaland hafa staðið í vegi fyrir því að Evrópusambandið beitti sér í málinu. Þegar stórveldin bregðast verða smáríkin að sýna ábyrgð. Íslenska ríkisstjórnin verður að hætta að tala um rétt Ísraels til að verja sig, við erum að tala um fjöldamorð, eyðileggingu, mannréttindabrot og stríðsglæpi. Ríkisstjórn Íslands verður að láta til sín taka. Eða til hvers er hún að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu?"
Frekari upplýsingar eru að finna á heimasíðu Samtka herstöðvarandstæðinga, www.fridur.is, og á heimasíðu félagsins, www.palestina.is.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli