Af 3000 manna mótmælum gegn stóriðju, þögn RÚV og skiltisdeilum
Mikið hefur verið rætt um eitt skiltið sem birtist í 3000 manna mótmælagöngu gegn stóriðjustefnu stjórnvalda um daginn. Mun meira hefur borið á umræðum um skiltið heldur en fjöldann í göngunni eða baráttumálin. Fréttin af mótmælagöngunni var mér fagnaðarefni, hún barst mér þegar ég var úti í Finnlandi. Þar með missti ég því miður af henni. Skiltið umdeilda hafði ég hins vegar séð áður og þótti afar ósmekklegt.
RÚV kaus að þaga algerlega yfir mótmælunum á kjördag. Það hefur síðan aðallega beint sjónum sínum að deilunni um skiltið, fremur en göngunni og málefnunum og hefur mér sýnst aðrir fjölmiðlar róa á svipuð mið.
Af nokkrum góðum skrifum um mótmælin og skiltið má nefna skrif á Egginni, skrif Davíðs Þórs Jónmundssonar, Stefáns Þórs Sæmundssonar og síðast en ekki síst skrif Vésteins bróður míns. Ég ætlaði mér alltaf að blogga um afstöðu mína til þessa en áðurnefnd skrif rúma mikið af mínum skoðunum. Ég hafði tjáð mig um afstöðu mína við Hauk og var núna að skrifa sæmilega langt komment við færsluna hans Vésteins, þar sem Haukur hafði áður kommentað.
NOTA BENE: Ég minni sérstaklega á undirskriftalista sem stendur yfir á Egginni, þar sem þögn RÚV gagnvart hinni 3000 manna mótmælagöngu er mótmælt og ég hvet lesendur til að skrá sig á hann.
Að lokum vil ég benda á það að mér þykir mjög ómaklegt hjá Valgerði Sverrisdóttur að ætla að reyna að bendla Vinstri-græna við skiltið umdeilda. Þetta er það sem kallast rógur á góðri íslensku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli