miðvikudagur, apríl 19, 2006

Andaktugi ungi maðurinn fór á bókasafnið í gær og fékk þar nokkra ágæta diska. Sérstaklega finnst andaktuga unga manninum vert að minnast á plötuna Svefnvana, með G.C.D. Andaktugi ungi maðurinn furðar sig í raun á hversu lítið hann hefur hlustað á G.C.D, verandi bæði Bubba- og Rúnna Júl.- aðdáandi. Þekkir lítið til Gunnlaugs Briem trommuleikara en þekkir Begga Morthens aðeins af góðu úr Egó. Andaktugi ungi maðurinn verður að játa, að hann man ekki hvort sá síðarnefndi var í Das Kapital eða ekki. Skemmst er frá því að segja að á þessari plötu má finna sérlega skemmtilegt, hressilegt, þétt og grípandi rokk og ról. Kallarnir í algeru stuði, og koma andaktuga unga manninum í stuð og gott skap. Gaman að heyra kempurnar spila saman, skiptast á að syngja og taka dúett.

Andaktugi ungi maðurinn brá sér í sund í gær, eftir langt hlé. Það þótti honum hressandi og hyggst gera meira af því á næstunni. Andaktugi ungi maðurinn var líka sérlega ánægður með blíðskaparviðrið í gær.

Andaktugi ungi maðurin hefur líka legið talsvert yfir ljóðum undanfarið. Auk þess að lesa ljóð eftir Seamus Heaney og Paul Muldoon í skólanum, hefur andaktugi ungi maðurinn lesið sér til ánægju lesið í ljóðasafni Jóhannesar úr Kötlum og ljóðasafni Steins Steinars, nokkur ljóð eftir Þórberg, gluggað í bókina Kaktusblómið og nóttin – um ævi og skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar, eftir Jón Viðar Jónsson og lesið ljóð eftir Jónas E. Svafár, sem má finna í ljóðasafni hans, Klettabelti fjallkonurnnar.
Andaktuga unga manninum líkaði vel við ljóð þeirra allra og þykir ekki ólíklegt að hann muni skella einhverjum þeirra á bloggið sitt á næstunni, sér og öðrum til yndisauka.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.