fimmtudagur, apríl 20, 2006

Geburt eines Kraftwerks



Í gær missti ég af því að sjá „Kárahnjúkar – Undir yfirborðinu“ fimmtu áróðursmyndina af níu sem gerðar verða á fjórum árum um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Landsvirkjun fékk Saga Film til að gera myndina. Áróðursmeistararnir sitja ekki auðum höndum, það mega þeir svo sem eiga.
Sjáið þið Ríkissjónvarpið fyrir ykkur sýna heimildamynd um mótmæli við stóriðjuframkvæmdir, gerða af Ólafi Páli Sigurðssyni? Einhvern vegin leyfi mér að efa það. Daginn sem það gerist, megið þið altént kalla mig Málfríði. Þar á bæ yrði eflaust sagt að hún væri „of pólítísk“. Þá ástæðu gaf Ríkissjónvarpið fyrir að vilja ekki sýna kvikmynd Laibach „Divided States of America“. Jámm, það virðist vera í fína lagi að sýna áróðursmyndir og auglýsingar, ef þær eru með einhverju. Þá er það ekki kallaður áróður. Um leið og maður gagnrýnir eitthvað, er andvígur einhverju, um leið og maður mótmælir, þá heitir að maður með áróður og róg og sé „of pólítískur“. Eins og minn ágæti bróðir komst að orði í gær, sem við vorum að ræða þetta, þá er t.d. í fínu lagi að auglýsa kók, en um leið og hann segir „Ekki drekka kók“, þá verður það áróður.

Nú þarf ég að snúa mér að próflestri. Lag dagsins er Rómeó og Júlía með Bubba Morthens, af plötunni Kona. Að mínu mati er þetta fallegasta lag sem Bubbi hefur samið.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.