miðvikudagur, mars 15, 2006

Sweet neocon og innrásarafmælið.
Nokkur orð um fyrirlestur Rubin og tvo fundi á laugardag vegna þriggja ára afmælis innrásarinnar í Írak


Ég fór fyrir nokkrum dögum á fyrirlestur Michael Rubin um stefnu Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum. Reyndi hann þar að sannfæra hlustendur um ágæti utanríkisstefnu Bandaríkjanna og mikilvægi árásarstríðanna til að “efla lýðræði”. Ég get ekki sagt að áróður hans hafi virkað sérlega sannfærandi á mig. Maður tók einnig eftir ýmsu sem annað hvort kom ekki heim og saman við raunveruleikann eða stangaðist á við frásagnir annra, eða því sem hann sleppti að tala um, t.d. pyntingar. Hann talaði í tuttugu mínútur og svo var opið fyrir spurningum í tuttugu mínútur. Sætti hann mestmegnis harðri gagnrýni og þegar blaðið talar um að hann hafi “svarað fullum hálsi”, má það að sumu leiti teljast rétt, en það er spurning hvað maður kallar að svara, ef hann tjáir sig án þess að svara spurningunni sem er lagt fyrir hann, sem gerðist margoft.

Kæra hefur verið lögð fram á hendur Michael Rubin vegna þáttar hans í stefnumótun innrásarinnar í Írak og rökstudds gruns um að hann hafi tekið þátt í að “hagræða” þeim upplýsingum sem notaðar voru til að réttlæta innrásina. Hann var meðal þeirra sem hvatti til árásarinnar og hefur ekki dregið úr þeim áróðri, sem glögglega sást á fyrirlestrinum.
Bróðir minn bloggar svo fremur um sína upplifun af fundinum og ákæruna. Ég var sjálfur með honum á fundinum og get ekki annað en tekið undir þá gagnrýni sem hann leggur fram. Hef því ekki meira við þetta að bæta per se, fljúgi mér eitthvað fleira í hug, sem mér eða honum sást yfir, getur vel verið að ég láti það fljóta á blogginu. Hripaði einhverja punkta, auk þess sem Vésteinn tók fyrirlestrana upp, en það var vesen að ætla sér bæði að skrifa og fylgjast með, svo það varð meira af því seinna. Þegar maður heyrir einhvern fara með rangt mál eða hagræða sannleikanum getur það verið óþægilegt, einnig vegna þess að svo er mögulea sannleikur þar á milli, þ.e. maður heyrir einhvern segja ósatt eða hliðra sannleika en veit ekki var það endar og getur, þar til maður grefst fyrir um öll einstaka atriði (sem er meira en að segja það) ekki annað gert heldur en að taka öllu með fyrirvara. Slíkt er annars góð regla, gagnrýnin hugsun, það er að segja.
Hér er annars brot úr tilkynningu sem birtist á heimasíðu Þjóðarhreyfingarinnar og ég birti orðrétt:
"!!!! INNRÁSIN Í ÍRAK - EKKI Í OKKAR NAFNI !!!! Þ J Ó Ð A R H R E Y F I N G I N - með lýðræði - boðar til almenns borgarafundar í Háskólabíói laugardaginn 18. mars kl 13 - og F R I Ð U R boðar til útifundar á Ingólfstorgi kl. 15 - en þá verða 3 ár liðin frá stuðningi Íslands við innrás BNA og ,,hinna viljugu og staðföstu" í Írak: 2 STUTTMYNDIR Á FUNDINUM Í HÁSKÓLABÍÓI - FJALLA UM STRÍÐIÐ Í ÍRAK OG ÞÁTTTÖKU ÍSLENDINGA ,,Margt breyst á þremur árum Hinn 18. mars verða sýndar í Háskólabíói heimildarmyndirnar ,,Ég er arabi" og ,,1001 nótt", sem fjalla báðar um stríðið í Írak og þátttöku Íslendinga í því. Ég er arabi var sýnd fyrir þremur árum í Háskólabíói á kvikmyndahátíðinni Shorts and Docks en 1001 nótt er sjálfstætt framhald hennar, sem þeir Ari Alexander kvikmyndagerðarmaður og Sigurður Guðmundsson myndlistamaður eru að leggja lokahönd á þessa dagana."


Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að mæta.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.