Fyrr í vikunni rann upp fyrir mér að ég átti að skila e-ð 1500 orða ritgerð í þessari viku, nánar tiltekið fyrir miðnætti í kvöld, en ekki í næstu viku, eins og ég hafði haldið. Þetta kennir fjárakornið að vera skipulagðari. Ritgerð þessi er í ensk-írskum bókmenntum og gildir 40% gegnt 60% lokaprófi í vor. Ritgerðin er annars vel á veg komin, raunar orðin aðeins lengri en 1500 orð. Líst ágætlega á hana, þó ég segi sjálfur frá, þó enn eigi ég eftir að skjóta ýmsu að og snurfusa. Reynsla mín er sú að það er síður erfitt að ná að skrifa nógu langt heldur en að hemja sig þegar maður er kominn af stað, hafi maður yfirleitt einhverja hugmynd um hvað maður ætlar að skrifa um. Þessi ritgerð fjallar um markmið James Joyce að frelsa lesendur sína og landsmenn frá þeirri andlegu og samfélagslegu lömun (papalysis) sem hann skynjaði meðal þeirra og þátt Dubliners í að lýsa, og skapa þjóðlegt og persónulegt sjálf.
James Joyce þykir mér afbragðs höfundur, altént hvað þetta verk varðar. Hitt skal ég játa að ég hef hvorki skilið upp né niður í Finnegan's Wake, það sem ég hef litið á hana. Hún er eiginlega skrifuð á Volapyk. Aðrar bækur hef ég ekki lesið eftir hann,utan stöku kafla úr Ulysses og Portrait of the Artist As A Young Man. Leist vel á það og gæti vel hugsað mér að lesa þær bækur. Ég fékk e-ð fimm-sex bækur á bókasafninu sem fjölluðu á einn eða annan hátt um Joyce og hef getað stuðst að einhverju leiti við þær flestar. Ein þeirra er stærðar doðrantur, ævisaga Joyce, og spannar rúmlega 650 síður. Hún virkar áhugaverð og ég hugsa að ég lesi hana við tækifæri.
Er að fara í óperuna, að sjá Öskubusku. Bis später.
föstudagur, mars 10, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli