miðvikudagur, janúar 11, 2006

Nú er ég að lesa Íslenzkan aðal eftir Þórberg Þórðarson. Hef mjög gaman að þeirri bók. Í einum kaflanum segir Þórbergur frá ungum manni sem hann vingaðist við sem hét Tryggvi Sveinbjarnarson, og kallaði sig Svörfuð. Í bráðskemmtilegu samtali þeirra segir Tryggvi frá lánleysi sínu í ást til stúlku, er nefnist Hulda, og er dóttir skólastjórans á Akureyri. Þá spyr Þórbergur hvort þetta sé fyrsta stúlkan sem hann elski. Tryggvi segist þá hafa verið ástfanginn af annari og muni eflaust ávallt elska hana og verða óhamingjusamur alla ævi hennar vegna. Þetta lánleysi hans hefur aðallega stafað af kjarkleysi, svo aldrei varð neitt úr neinu. Hann segir að hún heiti Katrín Norðmann.
Katrín Norðmann, sem seinna varð Viðar, var langamma mín. Hún var fædd 1895 og hefur þarna verið sautján ára gömul. Hún lifði þar til ég var á fimmta ári. Ég á enn dálitlar minningar um hana. Ljósmyndir af henni vitna um að hún var sannarlega afar falleg ung kona. Ég gríp niður í samtalinu þar sem talið berst að þessu:

Er Hulda þá fyrsta stúlkan, sem þér finnst þú hafa elskað?
Nei. Og þetta er í raun og veru bara gert út af örvæntingu.
Hvað segirðu? Hefur þá einhver svikið þig?
Nei. En ég elskaði aðra stúlku, sem ég get aldrei gleymt. Og ég er viss um að ég elska hana
meðan ég lifi. Ég verð líklega óhamingjusamur alla mína ævi hennar vegna.
Jæja! Það erþá rétt með þig sem mig. Og er hún dáin?
Já, hún er dáin
Úr hverju dó hún?
Hún dó ekki líkamlegum dauða.
Varð hún uppnumin?
Nei. En ég elskaði aðra stúlku, sem ég get aldrei gleymt. Og ég er viss um að ég elska hana
Nei.
Hún hefur kannski orðið brjáluð?
Nei, hún getur aldrei orðið brjáluð.
Fyrirfór hún sér?
Nei, hún fyrirfer sér aldrei.
Þá hefur hún orðið bráðkvödd?
Nei. Hún dó frá mér, en ég get aldrei dáið frá henni.
Nú skil ég! Þú átt við að hún hafi farið burt frá þér.
Já. Hún fór í burtu.
Og kemur aldrei aftur?
Nei. Kemur aldrei aftur. Sumt fólk kemur aldrei aftur.
Hvíslandi: Hvað heitir hún?
Þú mátt engum segja það. Hún heitir Katrín Norðmann.
Afarlagleg stúlka. Ég sá hana einhvern tíma á rúntinum í vor, og þá var mér sagt að þessi stúlka héti Katrín Norðmann. Mér fannst mér þykja minna vænt um stúlku, sem ég elska, það sem eftir var kvöldsins.
Það er fallegasta stúlka í heimi.
Elskaði hún þig?
Aldrei hafði hún orð á því. Hún sagði aldrei neitt.
Fékkstu að kyssa hana?
Nei, aldrei svo mikið sem taka utan um hana?
Baðstu hana aldrei að kyssa þig?
Nei, það þorði ég aldrei. Það var nú djöfullinn, sem gerði ástina ennþá villtari og ódauðlegri.
Heldurðu þá að ástin minnki við að kyssa þær?
Já. Sú ást brennur heitast, sem adrei kyssir, segir Shakespeare einhvers staðar.
Fannst þér þú nú elska hana reglulega mikið?
Hvað meinarðu með „reglulega mikið“?
Hvort þú hefðir til dæmis viljað ganga út í opinn dauðann fyrir hana.
Ég hefði ekki getað hugsað mér meiri sælu en að vera krossfestur hennar vegna með höfuðið niður.
Mikið helvíti er að heyra þetta. Segirðu þetta satt?
Ég get ekki sannara orð talað. Hugsaðu þér! Ég elskaði hana svo óskaplega, að hver hlutur, sem hún snerti, var mér ímynd hennar sjálfrar. Ég læddist á kvöldin heim að húsinu sem hún átti heima í hér á Akureyri, bara til að þreifa á hurðarhúninum, sem hún hafði tekið á um daginn. Og svo kyssti ég húninn og sagði: Góða nótt! – Einu sinni fékk ég hana til að spila fyrir mig á píanó „Sat hjá læknum sveinninn ungi“. Herbergisglugginn hennar stóð opinn, og ég stóð berhöfðaður á götunni fyrir utan gluggann, meðan hún spilaði lagið.
Svona óskaplega finnst mér ég aldrei hafa elskað. Og samt fékkstu ást þína aldrei endurgoldna?
Jú, einu sinni. Aðeins einu sinni.
Og þó fékkst ualdrei að kyssa hana. Hvað fékkstu þá?
Það var svoleiðis, að við vorum saman ritt kvöld í glaða-tunglsljósi á skautum utan við Oddeyrina. Þá duttum við allt í eunu bæði og runnum barm við barm niður dálitla brekku, þannig, að andlitin á okkur sneru saman og ég sá beint inn í þessi hyldjúpu, bláu augu, sem tindruðu móti tunglsljósinu, Það var sælasta stund sem ég hef lifað, og ég bað þess með tárin í augunum, meðan við runnum niður brekkuna, að svona mætti allt líf okkar verða.
Og var þetta þá allt og sumt?
Já mér hlotnaðist aldrei neitt meira. En í þessum fáu augnablikum var samanþjöppuð meiri sæla en í öllum öðrum augnablikum ævi minnar samanlögðum. Á þessu broti úr sekúndu, fékk ást mín svo djúpa fullnægingu, að ég kyssti ekki hurðarhúninn nokkra daga á eftir.
Þetta er sú mesta ást, sem ég hef nokkurn tíma heyrt getið um. Og er þetta allt búið milli ykkar nú?
Allt búið! Nei, það er langt frá að það sé allt búið. Það verður adrei búið. Nú er hún flutt til Reyjavíkur,
Hefurðu aldrei hitt hana þar?
Jú, einu sinni.
Reyndirðu þá ekkert til við hana?
Nei. Það var á aðfangadagskvöld í vetur. Þá rölti ég niður á Kirkjustræti 4, þar sem hún býr með móður sinni og systkinum. Það var í norðanroki og nístandi kulda, og ég var bæði frakkalaus og vettlingalaus. Uppi á loftinu, þar sem hún á heima, var allt uppljómað með jólaljósum. Heima hjá mér voru engin jólaljós. Þegar ég var búinn að standa dálitla stund á götunni fyrir utan húsið, sá ég henni fyrst bregða fyrir innan við gluggann. Hvað heldurðu að ég hafi gert þá?
Þú hefur þó ekki farið að syngja „Í Betlehem er barn oss fætt“ þarna á götunni fyrir utan gluggann?
Ég þreif ísdröngul, sem hékk utan á húsinu, og kastaði honum upp í gluggann til þess að láta hana vita, að ég væri fyrir utan og ætlaði að halda jólin mín í kvöld þarna á götunni hjá húsinu hennar. Ég var alsæll af því að vera svona nálægt henni. Ég fann draumljúfa strauma þjóta um mig allann, þegar ég strauk nöktum lófanum um ískalt bárujárnið utan á húsinu, sem skýldi líkama hennar fyrir norðanbálinu. Og þarna hélt ég þetta aðfangadagskvöld ævi minnar hátíðlegt langt fram á jólanóttina og mændi ýmist uppí gluggana eða strauk utan húsið, frakkalaus, vettlingalaus, í norðanstormi og grimmmdargaddi.
Varð þér ekki kalt, elsku vinur? Varstu ekki hræddur við að þú fengir lungnabólgu?
Nei, góði! Ég gann ekki til minnsta kulda fyrr en á heimleiðinni., þegar húsin í Bröttugötu skyggðu á jólaljósin frá gluggunum hennar.
Ég sat og hlustaði vita-orðlaus. Hann er vitlaus, hann er brjálaður, hann er syngjandi spinngal, tautaði ég við sjálfan mig um leið og ég horfði rannsakandi meðaumkunaraugum á þennan krosspínda velgjörðarmann minn. Og þetta kallar hann að hafa hitt hana einu sinni!

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.