Náttúruvernd, fundur og stórtónleikar
Á laugardaginn fór ég á fund um verndun Þjórsárvera í Norræna húsinu. Var þar mælt gegn virkjanaframkvæmdum á svæðinu og hvatt til að friðlandið yrði stækkað. Salurinn tekur e-ð hundrað manns en fullt var fram úr dyrum, það hafa verið –ð tvöhundruð þarna, kannski fleiri. Fundurinn fór vel fram og var góður samstöðuandi. Ályktun fundarins var send öllum fjölmiðlum.
Um kvöldið fór ég svo á tónleikana Ertu að verða náttúrulaus? í Norræna húsinu. Það voru þrælmagnaðir tónleikar. Þar mættu 5500 manns. Annað eins lineup hefur ekki sést á Íslandi, og allir tónlistarmennirnir gáfu vinnu sína til íslenskrar náttúruverndar. Þar sá ég KK, Mugison, HAM, Ego, Rass, Sigur Rós, Björk, Möggu Stínu, Damien Rice, Ghostigital, Hjálma. Einnig komu fram Múm, Zeena Parkins, Lisa Hannigan, Damon Albarn, Sigtryggur Baldursson, Magnús Pálsson, Roni Horn, Rúrí, Tjörvi Jónsson, Andri Snær Magnason, Gjörningaklúbburinn, Kristín Eiríksdóttir, Ingibjörg Magnadóttir og Ósk Vilhjálmsdóttir.
Skjáir vörpuðu bæði myndum af tónlistarmönnum, en einnig svipmyndum af íslenskri náttúru sem nú er ógnað af stóriðjustefnu stjórnvalda, aðstæður skýrðar, ummæli meðlima ríkisstjórnar og Landsvirkjinnar birt og framtíðarsýn Íslands, nái áform þeirra fram að ganga.
Frammi var varningur seldur til stuðnings málstaðnum, mótmælaskilti og borðar hangandi, bæklingar og blöð gefins og fólki gafst færi að skrá sig í nátúrverndarsamtök eða á póstlista. Það gladdi mig einnig að slagorð mitt af mótmælaskilti, með áletruninni Damnation er nú komið á boli, sem seldir voru þar inni. Þeir seldust vel. Konuna sem hannað hafði bolina hafði ég hitt á mótmælum við Ráðhúsið, henni hafði litist vel á slagorðið og langaði að nota það. Ég tók ekkert illa í það og gaf henni númerið mitt og nafn, sem hún ritaði í lófann. Það máðist hins vegar út og hún hafði ekkert getað náð í mig. En nú er þetta komið á boli, hún veitti mér þrjá boli í þakklætisskyni og ég horfi á þúsund blóm blómstra. :)
Þegar við mamma og Vésteinn komum var KK að spila. Náði honum þar sem hann tók Wake Me. Tók svo eitthvað tvö-þrjú í viðbót að mig minnir, en man ekki alveg hver þau voru. Ég var alsæll með framistöðu hans, svo mikið sem ég sá. Næst var Björk. Fyrsta lagið sem hún flutti var Vökuró eftir ömmu mína, Jórunni Viðar, sem birtist á Medúllu, nú við undirleik hörpu. Fórst henni það vel úr hendi. Þriðja lagið hennar, sem ég veit því miður ekki hvað heitir, var sérlega flott hjá henni.
Sigur Rós voru góðir, en fluttu þó því miður aðeins eitt lag. Hefði viljað heyra meira. Ég var líka oft fyrir utan að spjalla við fólk og náði í Mugison þar sem hann flutti Murr Murr. Mikið andskoti var það flott, einhvern vegin var ekki laust við að hann minnti mig eilítið á Jack White, hvað villtan blúsrokk gítarleik áhrærði, og kannski smá í klæðaburði. En er þá ekki leiðum að líkjast. Þó hans sé góður á plötu finnst mér hann bestur live. Hann tók líka nokkur lög með Hjálmum, sem tóku svo við. Hjálmar voru líka góðir, ef eitthvað er finnst mér söngurinn upp og ofan, og misgóðir textar. Það var eitthvað lag sem byrjaði með sérlega flottu orgeli, sem mér líkaði best. Engan ljóð gat ég fundið á spilamennskunni, allt eins og ég vildi hafa það. Ég rétt sá Möggu Stínu, hún var god nok. Damien Rice þótti mér fínn. Ghostigital líka.
RASS voru brilljant (hvernig er EKKI hægt að elska þessa sveit?), en þó var hátindurinn þegar lúðrasveit Vesturbæjar lék með þeim í síðasta laginu. Það var ágætlega gaman að Dr. Spock, en mér hefur þó alltaf fundist RASS miklu skemmtilegri sveit. HAM voru þó kannski bestir (þriðja skiptið sem Óttarr tróð upp það kvöldið). Tóku fjögur lög: Animaliu, Partýbæ, Bulldozer og eitt lag sem ég þekkti ekki. Eftir þeim komu Ego og voru líka sterkir kandídatar fyrir toppsætið. Tóku Blindsker, Fjöllin hafa vakað og Móðir. Sérstaklega ætlaði allt um koll að keira í Fjöllin hafa vakað og ekki ofsagt að þakið ætlaði að rifna af húsinu.
Ekki er annað að sjá en nú sé vitundarvakning í náttúruvernd og mikið skrifað í blöðin. Er það vel. Samfylkingin, sem áður studdi Norðlingaölduveitu hefur nú snúist gegn henniþ. Samfylkingin hefði fremur stutt áformin ef samstaða hefði verið má milli Landsvirkjunnar og heimamanna, en gífurleg andstaða er við virkjunina meðal heimamanna. Er ekki batnandi flokki best að lifa?
Ég vil einnig óska Ungrót til hamingju, en tuttugu manna mótmæli þeirra í Iðnaðarráðuneytinu í gær rötuðu með mynd á forsíðu Fréttablaðsins.
þriðjudagur, janúar 10, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli