Sælir eru einfaldir
Ég gekk enn áfram. Það var dimmt í kring um mig – dimmt og dauðahljótt. Mjúkar agnir öskuregnsins strukust öðru hverju við vanga minn. Langt úti í nóttinni skein eldblómið, rautt og glóandi. Eldblómið, sem í einu vetfangi hafði rofið ísdjúp jökulsins, sprungið út til hins stutta, ófrjóa, eyðandi lífs – sem var ekki líf, heldur löðrandi dauði óstýriláta eyðingarafla.
Fyrir nokkrum dögum lauk ég við bókina Sælir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson. Bókin kom út 1920 og hlaut mikið lof. Hún þótti besta bók hans til þessa og var því jafnvel haldið fram að hún væri besta bók á Norðurlöndum. Sagan er harmræn og myrk, með nokkuð gotnesku yfirbragði, án þess að vera án vonar eða skorta húmor og hún inniheldur bæði hrylling og fegurð.
Sagan gerist á sjö dögum í Reykjavík árið 1918. Katla gýs og bærinn er formyrkvaður. Spánska veikin herjar á bæjarbúa. Dauði, drungi og myrkur ríkir hvarvetna. Aðalpersónur er vinahópur menntamanna; Sögumaðurinn Jón Odsson skáld, málfræðingurinn Benjamín Pálsson, andatrúarmaðurinn Björn Sigurðsson, Páll Sigurðsson, nýskipaður prófessor í sagnfræði við háskólann og Grímur Elliðagrímur læknir. Í upphafi er okkur tjáð að Grímur Elliðagrímur hafi á sjöunda degi farið á geðveikrahæli að eigin ósk. Svo eru raktir þeir atburðir sem leiddu til þessa hörmulega atviks.
Páll og Grímur eru menn andstæðra skoðanna og deila um tilgang lífsins. Grímur trúir á mannsandann og hið góða í manninum, hann er fórnfús og iðjusamur. Páll er fulltrúi sárrar bölsýni, hann hefur enga trú á manninum, hann telur að lífið spyrji einungis hver sé sterkastur í hinni hörðu lífsbaráttu og tilgangur lífsins sé að sigra og bjóta sér aumari menn undir sig. Og þessa heimspeki sýnir hann í verki, sem hefur skelfilegar afleiðingarnar, án þess að skeita um fórnarlömbin. Hann er gersamlega siðlaus og fulltrúi hins illa í manninum.
Eymdin, drungalegt myrkrið og dauðinn stigmagnast og það endurspeglast í sálarlífi persónanna uns kemur að óhjákvæmilegu uppgjöri á sjöunda degi.
Þegar Gunnar skrifaði bókina var stutt síðan heimsstyrjöldin hafði geisað og í henni er uppgjör við molnandi heimsmynd manna. Hér mætast ólík sjónarmið persónanna í glímu við lífsvandann. Gunnar veltir fyrir sér réttlætingu tilveru okkar, sem sjaldan hafði sýnst myrkari, og hverfuls lífs, dauðanum og eilífðinni. Hann veltir fyrir sér einmanaleika, gildi vináttu, ástar og trausts og einstaklingshyggju gegnt húmanisma og valdi tortímingar í formi náttúruafla og í brjósti mannanna.
Mér finnst þessi bók afar mögnuð og einstaklega vel skrifuð. Ég tel hana eiga mikið erindi við fólk og ég vona að sem flestir muni lesa hana sem það hafa ekki gert.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli