fimmtudagur, júlí 01, 2004

Hugleiðing um málefni Íraks


Í gær hlustaði ég á fréttaflutning ríkissjónvarpsins. Fjallað var um mál Saddams Hussein. Var talað um að nú ætti að framselja hann til dómstóls bráðabirgðastjórnarinnar í Írak. Lofað væri að hann fengi sanngjörn réttarhöld. Síðan voru talin upp ódæði hans.
Hvergi minnst á ódæði Bandaríkjastjórnar. Reyndar var fréttin sett upp þannig að halda mætti að verið væri að réttlæta gjörðir hennar.
Svo sem ekkert nýtt af nálinni, þetta er sá áróður sem Bandaríkjastjórn hefur ávallt beitt. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað. Saddam er vondur, þess vegna skiptir svíðingsskapur Bandaríkjastjórnar engu máli. Þeir eru hinir hvítþvegnu krossriddarar gegn hryðjuverkum, leiðtogar hins frjálsa heims; komnir til að leiða villuráfandi sauðina til ljóssins.
Komi eitthvað babb í bátinn mun sagan fyrirgefa þeim.
Ekki misskilja mig, Saddam Hussein hefur skelfilega hluti á samviskunni. En ef við viljum draga menn fyrir dóm ættu engir málsaðilar að vera dregnir undan, það ætti ekki að hylma yfir með neinum. Í sanngjörnum réttarhöldum væru CIA og bandarísk yfirvöld látin svara til saka fyrir að útvega Saddam og Baath-flokknum eiturgas og efnavopn. Til hvers? Til að hafa sem garðskraut? Aldeilis ekki. Til að beita þeim gegn Írönum og þáverandi illmenni, Ayatollah Khomeni. Seinna skerst í odda með Bandaríkjastjórn og Íraksstjórn og þá verður Saddam vondi kallinn. Rétt eins og Stalín, bin Laden, Khomeini og Castro og fleiri á undan.
Við þurfum alltaf að hafa einhvern óvin. Ef hann fyrirfinnst ekki, búum við hann til.
Auk þess eru þeir fyrirtaks blórabögglar.
Bandaríkjastjórn þyrfti að svara til saka fyrir ólögmætt stríð, háð í skjóli lyga og blekkinga. Gereyðingarvopn sem fundust aldrei. Meint tengsl Saddams við Al-Qaida sem hafa heldur aldrei sannast.
Bandaríkjastjórn þyrfti þá einnig að svara til saka fyrir margítrekuð brot á Genfarsáttmála um meðferð stríðsfanga. Það var ekki fyrr en seint og um síðir að hin allra mildasta ríkistjórn hins frjálsa heims lýsti Saddam Hussein stríðsfanga. Það var eftir að þeir sýndu myndir af honum þar sem hann er dreginn upp úr holu og myndir þar sem rifið er upp á honum ginið og þar sem hann er aflúsaður eins og rakki
Ekki einungis er þetta óviðeigandi og siðlaust heldur brýtur það á réttindum stríðsfanga samkvæmt Genfarsáttmála að niðurlægja hann, . Samt birtist ekki sú frétt um Saddam að þessar myndir séu ekki enn notaðar.
Í réttarríkjum er miðað við að sé maður tekinn fastur eigi hann rétt á að vera ákærður og umsvifalaust sé réttað í máli hans. Máli Saddams hefur hins vegar verið skotið á frest býsna lengi

Væri Bandarískum stjórnvöldum raunverulega umhugað um að Saddam Hussein fengi sanngjörn réttarhöld hefðu þeir ekki tvínónað við að draga hann fyrir alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn. Í stað þess framselja þeir hann dómstól með vægast sagt vafasama lögsögu og lög að baki sér. Hann er seldur í hendur óvina sinna og það hlakkar í þeim við tilhugsunina um höfuð hans á stjaka.


Loks þyrfti Bandaríkjastjórn að svara til saka vegna atburðanna í Abu Ghraib-fangelsinu. Heimsbyggðin hryllti sig af viðbjóði þegar myndirnar þaðan birtust. Það er þó ekki einsdæmi, né verk nokkurra ruglaðra fangavarða. Það er fyrir löngu sýnt og sannað. Skýrsla Amnesty sýnir að þetta hefur viðgengist lengi, enn fremur hafa játningar málsaðila staðfest þetta. Þetta eru í raun „hefðbundin vinnubrögð“
Samanbergrein Uri Avnery „Busharon: „Niðurtalningin“, sem Morgunblaðið birti á miðopnu 29. maí sl. Enginn virðist þurfa að súpa seyðið af þessu. Allir þvo hendur sínar. „Við vissum ekki“, „þetta voru mistök“, „...fylgdum fyrirmælum“. Eða; „Gott og vel, við erum sekir en komumst upp með það“. Rumsfeld, sem auðvitað er sekur, verður blóraböggull allrar stjórnarinnar, en hinir sleppa. Hann tekur á sig syndir þeirra án þess að þurfa að sæta viðurlögunum og heldur embætti.
Í Nürnbergréttarhöldunum var staðfest að ódæðismenn gætu ekki firrt sig ábyrgð með því að segjast einungis hafa hlýtt fyrirmælum.
Ef rétta á yfir Saddam Hussein skulu allir sekir vera dregnir fyrir lögmætan dómstól og látnir svara til saka fyrir gjörðir sínar.



Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.